Landsréttur þyngdi í dag (fimmtudaginn 20. febrúar) dóm sem Héraðsdóms Reykjaness yfir 23 ára gömlum hælisleitanda fyrir brot gagnvart 13 ára stúlku, sem og fyrir brot gagnvart þroskahamlaðri dóttur unnustu hans.
Braut hann gegn fyrrnefndu stúlkunni á heimili sínu í Reykjavík í febrúar á árið 2022. Var þetta orðað svo í ákæru:
„Fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa þriðjudaginn 1. febrúar 2022, á þáverandi heimili sínu að […], Reykjavík, án samþykkis og með því að
beita ólögmætri nauðung, haft samræði og önnur kynferðismök við A, kt. […], sem þá var 13 ára, en ákærði lét stúlkuna hafa við sig munnmök og hafði við hana samræði.“
Hann var einnig sakaður um grófa og ítrekaða kynferðislega áreitni við aðra stúlku á nokkurra mánaða tímabili. Var því lýst svo í ákæru:
„Fyrir kynferðislega áreitni, með því að hafa í nokkur skipti á tímabilinu frá janúar til júní 2022, á heimili B, kt. […] og í bifreið sinni, áreitt B kynferðislega, en ákærði
þuklaði að minnsta kosti fjórum sinnum á brjóstum stúlkunnar innanklæða og reyndi tvisvar sinnum að færa hönd að kynfærum hennar og í eitt skipti rassskellti hann stúlkuna og sagði henni að hún væri með flottan rass.“
Í dómi Héraðsdóms Reykjaness yfir manninum í desember árið 2023 kemur fram að hann var þá 23 ára gamalli hælisleitandi og hafði búið á Íslandi í þrjú ár. Málið kom upp í febrúar árið 2022 en þá bjó hann einn í innréttuðum bílskúr í Reykjavík en hann kynntist ungu stúlkunni á samfélagsmiðlinum Snapchat. Átti hann kærustu á sama tíma og hann braut gegn barninu.
Ákærði neitaði sök í báðum ákæruliðum. Hins vegar þótti framburður brotaþola mjög trúverðugur og stöðugur auk þess sem gögn um samskipti á samskiptaforritum ýttu undir sekt mannsins. Ljóst er að samræðið var með vilja stúlkunnar en hinn ákærði hélt því fram að hann hefði ekki vitað um réttan aldur hennar. Sá framburður hans var hins vegar reikull og ekki í samræmi við samskiptagögnin.
Það var engu að síður niðurstaða héraðsdóms að hann væri ekki sekur um nauðgun í skilningi laganna og var það orðað svo í texta dómsins:
„Stendur þá eftir það álitaefni hvort samræði fullorðins einstaklings við 13 ára barn teljist ávallt nauðgun í skilningi verknaðarlýsingar 1. mgr. 194. gr. hegningarlaganna án tillits til yfirlýsts vilja og/eða samþykkis barnsins, þ.e. að 13 ára barn geti undir engum kringumstæðum fallist á samræði við fullorðinn einstakling svo gilt sé. Af frumvarpi til áðurnefndra breytingarlaga nr. 16/2018, sem og eldra frumvarpi til breytinga á 1. mgr. 194. gr., sbr. lög nr. 61/2007, verður ekki annað ráðið en að ávallt þurfi til að koma einhver sú ólögmæta nauðung í skilningi 1. mgr. 194. gr. að gerandi í það minnsta notfæri sér yfirburðaaðstöðu gagnvart þolanda til að koma fram kynferðislegum vilja sínum og að þolandi sé varnarlaus gagnvart þeim vilja. Er ekkert slíkt fram komið í þessu máli, svo haldbært sé. Að því gættu og með vísan til 108. og 109. gr. laganna um meðferð sakamála ber að sýkna ákærða af nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.“
Ákæruvaldið gerði í áfrýjun til Landsréttar athugasemd við þessa lagatúlkun Héraðsdóms en hún felur í sér að ekki hafi verið um ólögmæta nauðung að ræða við brotið. Landsréttur er sammála ákæruvaldinu og telur að maðurinn hafi gerst þarna sekur um ólögmæta nauðung og þar með nauðgun.
Maðurinn neitaði jafnframt ákæru um að hafa beitt aðra stúlku margsinnis kynferðislegri áreitni á nokkurra mánaða tímabili. Sú stúlka glímir við þroskahömlun en ákærði átti í ástarsambandi við móður hennar. Stúlkan leit á hann sem stjúpföður sinn um 8-9 mánaða skeið. Á grundvelli framburðar brotaþola og sérhæfðra vitna þótti sök hans sönnuð, en þetta er orðað svo í dómnum:
„Það er álit dómsins að framburður brotaþola sé stöðugur og trúverðugur um sakarefni máls og að hún hafi fyrir dómi greint á einlægan og hófstilltan hátt frá því sem
hún varð fyrir í samskiptum við ákærða. Framburður brotaþola er studdur endursögn Q, U og R dóttur hennar, sem og vætti T móðurömmu brotaþola og vætti V félagsráðgjafa sem ræddi við brotaþola strax eftir heimkomu frá Spáni og þekkir betur en margir til brotaþola. Þegar við þetta bætist að ekkert haldbært er fram komið í málinu sem skýrt gæti af hverju brotaþoli bæri rangar og upplognar sakir á ákærða og hefði til þess þá greind að geta haldið stöðugum en röngum framburði þykir sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa og óháð neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í II. kafla ákæru og þar þykir rétt heimfærð til refsiákvæða.“
Héraðsdómur hafði dæmt manninn í tveggja ára fangelsi en Landsréttur þyngdi dóminn í þriggja og hálfs árs fanglesi. Var hann jafnframt dæmdur til að greiða 13 ára stúluknni 2 milljónir króna í miskabætur og stjúpdóttur sinni 1,2 milljónir króna.
Dóma Landsréttar og héraðsdóms í málinu má lesa hér.