NFL stjörnurnar Travis Kelce og Patrick Mahomes eru á meðal fórnarlamba bíræfins þjófagengis sem herjaði á heimili þekktra íþróttamanna í Bandaríkjunum. Sjö hafa verið ákærðir í málinu.
Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN greinir frá þessu.
Sjö menn frá Síle hafa verið ákærðir fyrir víðtækan þjófnað á heimilum þekktra íþróttamanna í Bandaríkjunum. Talið er að þeir hafi stolið verðmætum sem nema að minnsta kosti 2 milljónum Bandaríkjadala. Það er um 280 milljónum íslenskra króna.
Samkvæmt ákæruskjalinu hefur þjófagengið herjað á leikmenn í NFL (amerískur ruðningur) og NBA (körfubolti) deildunum. Hafi þeir brotist inn á heimili leikmanna á meðan þeir voru að spila og látið greipar sópa. Fyrsta innbrotið sem vitað er um var í október á síðasta ári og það síðasta í desember.
Sjömenningarnir heita Pablo Zuniga Cartes, Ignacio Zuniga Cartes, Bastian Jimenez Freraut, Jordan Quiroga Sanchez, Bastian Orellano Morales, Alexander Huiaguil Chavez og Sergio Ortega Cabello. Þeir eru á aldrinum 20 til 38 ára gamlir.
Verði þeir fundnir sekir gætu þeir átt yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsisdóm. Á meðal gagna málsins er ljósmynd sem fjórir af þeim tóku af sér með þýfi úr heimili eins íþróttamannsins, Bobby Portis. Þar á meðal nokkuð af armbandsúrum.
Téður Portis er körfuboltaleikmaður sem leikur með liðinu Milwaukee Bucks. Heimili hans var rænt 2. nóvember.
Þekktustu leikmennirnir sem hafa orðið fyrir barðinu á þjófagenginu síleska eru NFL stjörnurnar Patrick Mahomes og Travis Kelce. En sá síðarnefndi er þó reyndar þekktari fyrir samband sitt við poppstjörnuna Taylor Swift heldur en afrek inni á vellinum. Báðir leika þeir með liðinu Kansas City Chiefs. Heimili þeirra voru rænd í október síðastliðnum. Einnig var heimili annarrar NFL stjörnu, Joe Burrow hjá Cincinnati Bengals, rænt.
Áður en gengið var gómað hafði alríkislögreglan í Bandaríkjunum varað atvinnuíþróttamenn við því að líklega væri um skipulega brotastarfsemi að ræða. Ránin sem hefðu verið framin hefðu verið ákaflega vel skipulögð og úthugsuð.
Þjófarnir höfðu vaktað heimili íþróttamannanna í aðdraganda innbrotanna, bæði í eigin persónu og með tæknibúnaði. Þá höfðu þeir fylgst með leikskipulagi og hegðun leikmannanna, til dæmis á samfélagsmiðlum. Hafi þeir vitað hvar á heimilum þeirra verðmæti var að finna.
Við innbrotin sjálf notuðu þeir tæknibúnað til að slökkva á WiFi og öryggiskerfum, huldu öryggismyndavélar og notuðu dulbúninga. Engu að síður létu hinir fingralöngu Sílemenn góma sig með sjálfuna sem fylgir þessari frétt.