fbpx
Föstudagur 21.febrúar 2025
Fréttir

Staðan í Úkraínuviðræðunum – „Í raun hefur ESB málað sig út í horn í málinu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 19. febrúar 2025 18:00

Hilmar Þór Hilmarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samningaviðræður um lok Úkraínustríðsins eru hafnar og hafa fram til þessa verið án þátttöku Evrópuríkja og Zelenskys, forseta Úkraínu. Hafa bæði Evrópusambandið og ESB gagnrýnt það. Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, rýnir í þá flóknu stöðu sem hér uppi fyrir DV.

„Nú eru samningaviðræður hafnar milli Bandaríkjanna og Rússlands um endalok Úkraínustríðsins þar sem Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, og fulltrúar ESB hafa ekki sæti við samningaborðið. Þetta hefur verið gagnrýnt bæði af ESB og Zelensky sjálfum. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur svarað þessu þannig að þessir aðilar hafi átt sæti við samningaborðið í þrjú ár og að þeir hefðu geta samið auðeldlega fyrir löngu og að Úkraínumenn hefðu ekki átta að hefja þessi átök,“ rifjar Hilmar upp.

Hann bendir á að Trump sé væntanlega að vísa til átaka sem voru í Úkraínu áður en innrás Rússa hófst í febrúar 2022. „Þessi átök snérust meðal annars um jafnan rétt rússneskumælandi borgara í Austur-Úkraínu á tungumáli sínu og réttinn til að rækta sína menningu rétt eins og aðrir borgarar Úkraínu, sem hafa úkraínsku að móðurmáli. Mín skoðun hefur alltaf verið sú að vinir Úkraínu í Evrópu og Bandaríkjunum hefðu átt að hjálpa stjórnvöldum í Kiev að skilja þetta til að lægja öldurnar. Eftir að innrás Rússlands hófst í febrúar 2022 var Úkraínumönnum sagt af vestrænum leiðtogum að sigra Rússland á vígvellinum og við sjáum nú afleiðingarnar, sem Trump er að vísa til og hann gagnrýnir nú harðlega.“

Heppilegra hefði verið að stofna sambandsríki

„Úkraína varð sjálfstætt ríki 1991 þegar Sovétríkin féllu. Eins og Jack F. Matlock, síðasti sendiherra Bandaríkjanna í Sovétríkjunum, hefur bent á var Úkraína frá stofnun sem sjálfstætt ríki mjög skipt eftir tungumálum og menningarlega. Rússar og rússneskumælandi fólk bjó frekar í austurhluta Úkraínu en Úkraínumenn í vesturhlutanum. Við þessar aðstæður má segja að heppilegra hefði verði að stofna sambandsríki sem leyfði ákveðið sjálfræði vissra héraða í landinu, t.d. í Donbas. Þannig hefði verið auðveldara að tryggja frið og halda landinu saman. Matlock hefur bent á að stjórnarskrá Úkraínu gaf kjörnum forseta vald til að skipa alla æðstu stjórnendur í héruðunum (e. oblasti) í stað þess að láta þá sæta kosningu í hverju héraði eins og til dæmis er tilfellið í ríkjum Bandaríkjanna.“

Hilmar bendir á hörmulegt ástand efnahagsmála í Úkraínu allt frá því að landið varð sjálfstætt ríki. „Eftir sjálfstæði 1991 náði Úkraína sér aldrei á strik efnahagslega. Verg landsframleiðsla á mann var lægri árið 2021, áður en núverandi stríð hófst, en hún var þegar Úkraína varð sjálfstætt ríki 1991. Enginn hagvöxtur í 30 ár. Nú er hagkerfið hrunið. Árið 1991 voru íbúar Úkraínu 52 milljónir manna, árið 2021 um 41 milljón. Staðan er enn verri nú, sennilega innan við 30 milljónir. Sameinuðu þjóðirnar spá því að um næstu aldamót verði fólksfjöldi Úkraínu um 15 milljónir. Eftir sjálfstæði tapaði Úkraína mörgu af sínu yngsta og best menntaða fólki, hafði veikar stofnanir, spilling var útbreidd, eignum ríkisins rænt, og margt ungt fólk sá ekki framtíð í landinu.“

Hann segir að Úkraína hafi þurft á betri handleiðslu annarra ríkja að halda: „Land í þessari stöðu hefði þurft á handleiðslu að halda um hvernig best væri að fikra sig áfram í átt til bætts stjórnarfars og efnahags. Eystrasaltsríkin fengu slíka aðstoð frá Norðurlöndunum og því kynntist ég vel þegar ég vann hjá Alþjóðabankanum þar frá 1999 til 2003. Úkraína er auðlindaríkt land en framtíðin er ekki björt eftir það manntjón og eignatjón sem nú er orðið.“

Þátttaka Zelenskys skipti ekki öllu máli

„Donald Trump gæti líta verið að vísa til samningafundarins sem fór fram í Istanbúl í mars 2022, skömmu eftir að núverandi stríð hófst. Í fundargerð fundarins sem New York Times birti kemur fram að ESB aðild Úkraínu hafi komið til greina. Rússar gerðu hinsvegar kröfu um hlutleysi Úkraínu og að Úkraína færi ekki í NATO. Minna má á að það að sum ESB eru ekki í NATO eins og Austurríki, Írland og Malta,“ segir Hilmar en mörgum kann að vera þessi samningafundur gleymdur.

„Samningaviðræðum milli Úkraínu og Rússlands í Istanbúl lauk ekki með samkomulagi og því óvíst hver endanleg niðurstaða hefði orðið. Sumir vestrænir leiðtogar töldu að Úkraína yrði að vinna stríðið við Rússland á vígvellinum. Síðan hefur Úkraína tapað enn meira landi og með gríðarlegu mannfalli og eyðileggingu, sem leitt hefur til efnahagshruns. Það hefði vissulega verið erfitt að ljúka samningi í Istanbúl 2022 en það er enn flóknara nú.“

Hilmar telur að það skipti ekki miklu máli hvort Zelensky, forseti Úkraínu, taki þátt í samningaviðræðunum núna eða ekki. Jafnvel sé betra fyrir hann að standa utan viðræðnanna. Ennfremur hafi ESB málað sig út í horn í málinu með óábyrgum yfirlýsingum:

„Leiðtogar ESB og Evrópuríkja hafa áhyggjur og óttast að þeir verði ekki hafðir með í ráðum varðandi friðarsamninga um Úkraínu. Sumir leiðtogar ESB hafa talað ógætilega og í raun hefur ESB málað sig út í horn í málinu. Kaja Kallas, utanríkismála- og öryggisstefnustjóri ESB, og varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefur t.d. talað um að brjóta Rússland í mörg smáríki. Slík ummæli eru óábyrg. Staða ESB til að koma að málum er því veik. Hvort Zelensky er með í samningaviðræðum skiptir ekki miklu máli að mínu mati. Pútin vill ljúka þessu máli og koma á eðlilegri samskiptum við Bandaríkin. Pútin er því líklegri að gera tilslakanir við Trump en Zelensky. Aðalatriðið er að ESB og Zelensky komi sínum sjónarmiðum á framfæri við Bandaríkin. Trump hefur látið hafa eftir sér að hann hefði auðveldlega getað samið fyrir Úkraínu og að Úkraína hefði þá getað haldið nær öllu sínu landi án mannfórna eða eyðileggingu borga.

Það getur líka þjónað hagsmunum Zelensky að standa í hæfilegri fjarlægð frá núverandi samningaviðræðunum ef hann vill lifa þetta af pólitískt. Alþjóðasamskipti snúast um að velja skásta kostinn af slæmum kostum. Ef lausn málsins er í höndum Trumps þá beinist hugsanleg gagnrýni á málalok frekar að forseta Bandaríkjanna en Zelensky, forseta Úkraínu. Trump getur þolað þetta betur en Zelensky. Ég held að í þessu tilviki geti verði betra að ESB og Úkraína séu í aukahlutverki.“

Mikilvægt að semja fljótt

Hilmar bendir á að frekari landvinningar Rússa í Úkraínu myndu gera stöðuna enn erfiðari. Því sé mikilvægt að semja fljótt:

„Ef ekki tekst að semja fljótt er hætta á að Rússar haldi stríðinu áfram og nái lykilborgum eins og Odessa og Kharkiv sem væri enn afleitari staða en nú er uppi. Að mínu mati getur Úkraína svo aldrei orðið ríkt land nema ólíkir þjóðfélagshópar sem tala ólík tungumál með ólíka menningu geti lifað í sæmilegri sátt og átt bærileg samskipti við Rússland.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Var sakaður um barnaníð í skilaboðum til unnustu og nafnlausri færslu á Facebook – „Ég vil að þú vitir hvernig maður þetta er“

Var sakaður um barnaníð í skilaboðum til unnustu og nafnlausri færslu á Facebook – „Ég vil að þú vitir hvernig maður þetta er“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Alvarlegt umferðarslys á Þingvallavegi

Alvarlegt umferðarslys á Þingvallavegi
Fréttir
Í gær

Verkföll boðuð í Hafnarfirði og Fjarðabyggð

Verkföll boðuð í Hafnarfirði og Fjarðabyggð
Fréttir
Í gær

Þjófagengi herjaði á heimili íþróttamanna á meðan þeir voru að spila – Kelce og Mahomes á meðal fórnarlamba

Þjófagengi herjaði á heimili íþróttamanna á meðan þeir voru að spila – Kelce og Mahomes á meðal fórnarlamba