fbpx
Föstudagur 21.febrúar 2025
Fréttir

Sakar framkvæmdastjóra Umbru um blekkingar og tilraun til að afvegaleiða umræðuna – „Til háborinnar skammar“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 19. febrúar 2025 12:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er alrangt og magnað að maður úr innsta hring íslenskrar stjórnsýslu vilji koma fram í fréttum og reyna að afvegaleiða umræðu og umfjöllun um þá grafalvarlegu stöðu sem að ríkir í ræstingageiranum“

Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um Viktor Jens Vigfússon, framkvæmdastjóra Umbru, þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins. Viktor ræddi við RÚV um mál fyrirtækisins iClean sem hefur meðal annars séð um ræstingar í Stjórnarráðinu og fleiri opinberum stofnunum. Viktor sagði Umbru ekki hafa verið meðvitaða um meint brot fyrirtækisins gegn starfsfólki þegar samningur við iClean var framlengdur. Efling hefur undanfarið bent á að iClean og fleiri ræstingarþjónustur hafi þrælað starfsfólki út og svikið það um laun. Til dæmis með því að fá starfsfólk til að skrifa undir undarlegar og illskiljanlegar breytingar á ráðningarsamningum og með því að þvinga það til að vinna undir svo miklu álagi að það hefur ekki tíma til að fara á salernið.

Viktor sagði við RÚV að Umbra hefði haft samband við Eflingu til að fá aðstoð við að kalla eftir launaseðlum og öðrum upplýsingum um starfsfólk sem hefur verið að ræsta fyrir hið opinbera. Efling vildi ekki veita þessar upplýsingar en tók þó fram að á tveggja ára tímabili hefðu 28 mál komið inn á borð Eflingar í tengslum við iClean. Ekki hafi þó komið skýrt fram hvort þessi mál vörðuðu starfsfólk sem vann fyrir Umbru. Því hafi Umbra framlengt samning um eitt ár enda hafði þjónustan gengið vel og engar upplýsingar fyrir hendi um að brotið hefði verið á því starfsfólki sem vann fyrir Umbru í gegnum iClean.

Sjá einnig: Segir hið opinbera mesta sökudólginn með útvistun verkefna

Birtir samskiptin

Sólveig Anna segir nú á Facebook að þetta sé alrangt hjá Viktori. Efling sendi Umbru minnisblað þar sem nefnd voru átta dæmi af þeim 28 málum sem Eflingu höfðu borist vegna iClean. Tekið var þar fram að það væri ljóst að fyrirtækið stæði sig illa í að fara eftir kjarasamningum og að virða réttindi starfsfólks. Efling ráðlagði Umbru að leita annað eftir þjónustu.

Sólveig Anna fylgdi minnisblaðinu eftir með því að senda tölvupóst viku síðar og benti á að Umbra gæti haft beint samband við hana til að fá frekari upplýsingar. Umbra svaraði og tók fram að málið væri í skoðun innanhúss. Eins sagði Umbra: „Við erum að sjá ýmislegt sem má betur fara og kemur niður á starfsfólki og gæði þrifa.“

Það var svo í febrúar sem Efling óskaði upplýsinga um hvort samningurinn við iClean hefði verið framlengdur. Umbra staðfesti að svo væri og sendi Sólveig Anna þá tölvupóst þar sem hún lýsti yfir vonbrigðum.

„Sæll, það er algjörlega ömurlegt að heyra – til háborinnar skammar satt best að segja. Þú talar um að áfram verði áhersla á lögbundin réttindi starfsfólks – að samningurinn við Iclean hafi verið framlengdur er sönnun á því að þau réttindi skipta engu máli.
Stórfurðulegt að þrátt fyrir upplýsingar frá Eflingu um kjarasamnings- og réttindabrot hafi niðurstaðan verið að halda áfram viðskiptum við fyrirtækið. Til hvers í ósköpunum var eiginlega verið að kalla eftir gögnum frá okkur?
Kveðja, Sólveig Anna.“

Ætti að biðjast afsökunar

Nú hafi Viktor „með ósvífnum hætti“ mætt í fjölmiðla og varpað fram þeirri mynd að Efling hafi ekki sent upplýsingar og þar með orðið til þess að samningurinn var framlengdur. Umbra hafi aldrei beðið um launaseðla. Efling hafi aðeins lýst yfir furðu að félagið hafi verið skráð í samning Umbru við iClean án þeirrar vitneskju og óskað eftir afriti af téðum samningi. Efling hafi upplýst að iClean fari ekki eftir kjarasamningum og lögum. Sólveig Anna hafi svo í þrígang boðist til að veita frekari upplýsingar.

Þetta mál og viðbrögð Umbru séu gott dæmi um áhugaleysi stjórnvalda gegn verkafólki. Viktor hafi reynt að blekkja og afvegaleiða umræðuna og ætti að skammast sín fyrir það.

„Öll framkoma Umbra og samskipti við Eflingu er enn ein augljós sönnunin á því áhugaleysi og þeirri þriðja flokks stjórnsýslu sem mætir vinnuaflinu og fulltrúum þess. Enn einu sinni sjáum við hið hripleka, mölétna og myglaða Pótemkín-tjald sem sett hefur verið upp til að reyna að gabba okkur og fá okkur til að trúa því að allt sé með felldu – tjald sem breytt er yfir þá ömurð sem að ríkir á íslenskum vinnumarkaði þegar kemur að stöðu, hagsmunum og tilveruskilyrðum vinnuaflsins.

Það væri ágætt ef að Viktor Jens skammaðist sín og bæðist afsökunar á því að reyna að blekkja og afvegaleiða umræðuna um svo grafalvarlegt málefni, og að hafa Eflingu fyrir rangri sök. En ef að ég veit eitthvað eftir þessi ár mín í verkalýðs-baráttunni er það að slík afsökunarbeiðni mun aldrei berast – í huga opinberrar yfirstéttar virðist yfirhylming og blekking iðulega verða fyrir valinu í samskiptum við alþýðuna frekar en leið samvinnu og virðingar. Það er skammarblettur á samfélagi okkar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mismiklar væntingar til nýrra ráðherra samkvæmt könnun

Mismiklar væntingar til nýrra ráðherra samkvæmt könnun
Fréttir
Í gær

Guðni segir að Daði megi ekki gera mistök: „Ég treysti þér þar til annað kem­ur í ljós, Daði Már“

Guðni segir að Daði megi ekki gera mistök: „Ég treysti þér þar til annað kem­ur í ljós, Daði Már“