Töluvert hefur verið fjallað um málið að undanförnu en forsagan er sú að Danól ehf. flutti inn pitsuost með íblandaðri jurtaolíu og var hann flokkaður í 21. kafla tollskrárinnar sem ber engan toll. MS og Bændasamtökin mótmæltu þessu og fór svo að varan var flokkuð í 4. kafla tollskrárinnar sem ber háan toll.
Um var að ræða belgískan ost og kvartaði belgíski framleiðandinn til framkvæmdastjórnar ESB. Varð þetta til þess að Ísland var sett í fyrsta sinn á lista yfir viðskiptahindranir sem ríki utan ESB beita útflytjendur innan sambandsins. Um þetta var til dæmis fjallað í tilkynningu Félags atvinnurekenda á dögunum.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hefur nú birt í samráðsgátt stjórnvalda áform um lagasetningu sem myndi gera það að verkum að osturinn skilgreinist sem tollfrjáls, en við þessu hafa til dæmis Bændasamtökin varað við.
Það gerir Guðni einnig sem gegndi meðal annars embætti landbúnaðarráðherra. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag segir hann:
Nú skrifa ég þér þessar línur af því að þú kannt fræðin betur en flestir og komnar eru upp deilur við ESB út af skilgreiningu á ostum sem snýr að öllum EES-þjóðunum Íslandi, Noregi og Sviss. Um er að ræða 85% mjólkurost með jurtafeiti. Spurningin er undir hvort flokkast osturinn, mjólk eða jurtaríkið? Þú veist jafnvel og undirritaður að 45% vín er sterkt vín, að bjór og hvítt og rautt er léttvín, hvað þá 85% mjólkurostur, hann hlýtur að vera frá landbúnað,” segir Guðni sem segir að niðurstaða málsins geti haft mikil áhrif.
„Verði niðurstaða þín röng tapa tíu til fimmtán bændur á Íslandi vinnu sinni við að framleiða mjólk að talið er. Og ef þú gerir mistök munu heildsalar gera kröfu um að þú farir rangt að á fleiri sviðum í þinni embættisfærslu. Ég treysti þér þar til annað kemur í ljós, Daði Már.“
Guðni vísar svo í nýlegan dóm héraðsdóms sem kvað upp að innflutti osturinn ætti að bera 30% toll. Þessu hyggst Daði Már breyta með lagasetningu.
„Það er skylda hvers manns, og ekki síst stjórnmálamanna, að gæta að hagsmunum okkar allra. Þeir felast hvað sterkast í því að verja markaðs- og framleiðsluhagsmuni þjóðarinnar sem og atvinnutækifæri okkar. Það er ekki tilviljun ein að okkur stærri lönd, og sambönd þeirra, verji fyrst og fremst markaðs- og framleiðsluhagsmuni sinna þjóða og þá verðmætasköpun sem þeim fylgir,” segir Guðni og bætir við að nú sé mál að linni.
„Þessari sneypuför sem fólgin er í vegferðinni um þennan pizzaost verður að ljúka. Málflutningur þeirra sem sótt hafa að stofnunum ríkisins í gegnum dómstóla er borinn fram í – að menn halda – fleytifullri fötu sannleikans. En það er ekki svo – fatan heldur engu og allt lekur úr aftur og aftur eins og forðum. Botninn er suður í Borgarfirði!“