Staðan á Vesturlandi hefur verið erfið að undanförnu og segir Einar í viðtali í Morgunblaðinu í dag að blæðingarnar sem slíkar séu ekki helsta vandamálið heldur þær bylgjur og hvörf sem myndast þegar ekið er með blá ljós á seinna hundraðinu með sjúkling í bílnum.
„Maður man náttúrulega ekki alltaf eftir öllum hvörfum í veginum og þegar það gerist þá erum við með sjúklinginn fljúgandi,“ segir hann við Morgunblaðið í dag.
Einar er gagnrýninn á stöðuna og segir að frostlyfting sem ekki gengur til baka sé ástæðan fyrir bylgjunum og hvörfunum. „Og vandamálið heldur áfram að vaxa á sama tíma og ekki fæst nema þriðjungur af þeim peningum sem í vegakerfið er innheimt með margs konar gjöldum til ríkisins,“ segir hann.