Nítján konur eru í fangelsi á Íslandi í dag og hafa þær aldrei verið fleiri. Flestar eru erlend burðardýr.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Afstöðu, félagi fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun.
Af konunum nítján eru aðeins fjórar íslenskar. Hinar eru frá ýmsum löndum og flest allar svokölluðu burðardýr, sem haldið er fyrir smygl á fíkniefnum. Í einhverjum tilfellum er grunur um mansal, það er að þær hafi ekki átt neitt val um að smygla efnunum til Íslands.
„Flestar konurnar munu fá lágan dóm og ættu í raun að getað tekið dóminn út í samfélagsþjónustu en þær fá það ekki eins og íslensku konurnar og eru því mismunað á því úrræði vegna þjóðernis,“ segir í tilkynningu Afstöðu.
Sextán konur eru vistaðar í fangelsinu á Hólmsheiði og þrjár í opnu úrræði að Sogni.
Að mati Afstöðu gætu fleiri konur farið í opið úrræði en fá það ekki vegna plássleysis. Aðeins er pláss fyrir þrjár konur í opnum úrræðum en fjörutíu og einn karl.