Átta ára gamall drengur á reiðhjóli var hætt kominn í Seljahverfi síðastliðinn sunnudag. Litlu munaði að ekið hefði verið á hann en drengnum tókst að stökkva af hjóli sínu rétt áður en ekið var yfir það. Faðir drengsins telur mikilvægt að minna ökumenn á að með hækkandi sól fer börnum fjölgandi í umferðinni. Ennfremur vill hann brýna fyrir ökumönnum að þeim ber að tilkynna um alvarleg atvik á borð við þetta.
Ragnar Ingimundarson, faðir drengsins, birti eftirfarandi pistil um málið í íbúahópi á Facebook á sunnudag:
„Átta ára sonur okkur lenti í því leiðinlega atviki í dag að litlu munaði að ekið hefði verið á hann, þar sem hann og vinur hans voru að hjóla yfir gatnamót Hálsasels og Hjallasels. Til allrar hamingju tókst honum að stökkva af hjólinu rétt áður en ekið var yfir hjólið hans og slapp hann því til allrar hamingju ómeiddur. Hjólið er hins vegar ónothæft og þarfnast viðgerðar.
Í kjölfarið stöðvaði ökumaður bifreiðina og steig farþegi út, athugaði stuttlega með drengina en steig síðan aftur upp í bílinn sem ekið var af vettvangi, án þess að tilkynna atvikið eða reyna að hafa sambandi við foreldra eða forráðamenn.
Þetta gerðist milli klukkan 13:30 – 14:00 í dag og hefur atvikið verið tilkynnt til lögreglu. Ef einhver varð vitni að þessu má sá hinn sami hafa samband í PM, en best væri að heyra frá ökumanninum og ræða þetta mál og leysa án frekari eftirmála.
Með þessu vil ég einnig minna ökumenn á að með hækkandi sól og auðum götum fjölgar börnum í umferðinni, bæði hjólandi og gangandi, sem taka þarf sérstakt tillit til.“
Ragnar segir í samtali við DV að ekki vaki fyrir honum að leita sökudólga né úthrópa nokkurn vegna atviksins. Hins vegar beri ökumönnum að tilkynna um alvarleg atvik, sem og að sýna sérstaka aðgæslu vegna barna í umferðinni:
„Mér þætti vænt um að vakin væri athygli ökumanna á því að börnum í umferðinni fjölgar nú, samhliða hækkandi sól og hlýrra veðri. Ég hef frásögnina eftir átta ára syni mínum og vini hans, auk þess sem augljós ummerki eru á hjólinu, þar sem framhjólið er ónýtt og mögulega framgafallinn líka. Af frásögn hans að dæma gerðist þetta þegar bílnum var beygt upp Hálsasel og ljóst að um algjört óviljaverk var að ræða. Finnst samt rétt að koma því að, að ökumenn eiga að sjálfsögðu alltaf að tilkynna atvik sem þessi. Mér finnst í lagi að greina frá atvikinu, en án þess þó að verið sé að leita af einhverjum sökudólg eða það sé gert í einhverjum upphrópunarstíl, en benda frekar sérstaklega á þessi tvö atriði sem ég nefndi hér að ofan, varðandi fjölgun barna í umferðinni og að ökumenn tilkynna atvik sem þessi.“