Þrjár ungar konur voru áreittar kynferðislega af yfirmanni sínum í grunnskóla, aðstoðarskólastjóranum, konu um sextugt. Lítið var gert úr kvörtunum kvennanna, litið á atvikin sem grín, konan hefði verið drukkin og mikil meðvirkni var með henni á vinnustaðnum. Konurnar hættu á endanum allar störfum í skólanum, en eftir könnun Reykjavíkurborgar á málinu sneri aðstoðarskólastjórinn aftur til sinnar vinnu, án nokkurra eftirmála fyrir hana.
Fjóla Dögg Blomsterberg, Heba Líf Ásbjörnsdóttir og Stefanía Vilborg Sigurjónsdóttir sögðu sögu sína í Kveik í kvöld. Í þættinum er einnig rætt við Andra Val Ívarsson, lögmann BHM, Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, forstjóra Vinnueftirlitsins, og Jennýu Þórunni Stefánsdóttur lögfræðing hjá Sameyki .
Konurnar hófu allar störf í grunnskóla í Reykjavík haustið 2019, Fjóla sem námsráðgjafi, Heba sem þroskaþjálfi og Stefanía sem stuðningsfulltrúi. Þær höfðu ekki starfað lengi í skólanum þegar yfirmaður þeirra, aðstoðarskólastjórinn, áreitti Hebu Líf kynferðislega á jólahlaðborði starfsmanna 2019.
„Ég var í síðum kjól sem var með svona klauf sem náði rétt fyrir ofan hné. Hún var mjög upptekin af því að vita hvort ég væri í nærfötum undir kjólnum. Þetta gerist svona þrisvar, fjórum sinnum. Hún er alltaf eitthvað að taka í klaufina og fá mig til að koma. Svo á endanum rífur hún kjólinn upp á mjöðm og athugar hvort ég sé í nærbuxum undir kjólnum.“
Á vorskemmtun starfsmanna skólans 2021 komu Stefanía og önnur kona, báðar um tvítugt sem störfuðu sem stuðningsfulltrúar, til Fjólu Daggar. Þær sögðust ekki geta verið lengur á samkomunni þar sem aðstoðarskólastjórinn væri stöðugt að áreita þær. Heba Líf var þarna hætt störfum við skólann en mætti á skemmtunina til að hitta vinkonur sínar.
„Það var smá sjokkerandi að koma í eitthvað svona vinnustaðapartí þar sem hálfókunnug stelpa er einhvern veginn að biðja um hjálp,“ segir Heba Líf.
„Ég var búin að verða fyrir áreiti frá henni, verða vitni að kynferðislegri áreitni og eiga í mjög erfiðum samskiptum. Bara mjög óeðlilegt valdaójafnvægi í samstarfi mínu við þær,“ segir Fjóla Dögg um aðstoðarskólastjórann og teymi sem þær unnu saman í dags daglega. Á þessari starfsmannaskemmtun áreitti konan hana kynferðislega með því að þukla tvívegis á brjóstum hennar á dansgólfinu.
„Ég upplifi þetta athæfi hennar sem hana að ítreka yfirburðastöðu hennar gagnvart mér. Mér fannst hún vera að niðurlægja mig fyrir framan samstarfsfólk,“ segir Fjóla Dögg.
Konurnar segja menninguna á vinnustaðnum hafa verið þannig að lítið væri gert úr atvikunum, hegðun aðstoðarskólastjórans hafi verið þekkt, sögur af hegðun hennar undir áhrifum áfengis hafi náð langt aftur í tímann og að gert hafi verið lítið úr þessu innan starfsmannahópsins – hlutunum snúið upp í grín.
Eftir atvikið fór Fjóla í fyrirfram ákveðið leyfi, ætlaði að snúa aftur í skólann en hætti við það. Ákvað hún að deila með stéttarfélagi sínu ýmsum atvikum og hegðun á vinnustaðnum, sem hún hafði haldið utan um. Í kjölfarið fór ferli af stað og konurnar þrjár tilkynntu nokkur tilvik áreitni og kynferðislegrar áreitni aðstoðarskólastjórans til Reykjavíkurborgar.
Stefanía vann enn í skólanum á meðan ferlið var í gangi, en fór í veikindaleyfi og hætti síðan störfum.
Formleg tilkynning var send til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sumarið 2022 og óskað eftir fundi með sviðinu, sem var haldinn um sjö vikum síðar. Tæplega fjórum og hálfum mánuði eftir að tilkynningin barst lágu niðurstöður borgarinnar fyrir í lok árs 2022.
Aðstoðarskólastjórinn var talin sek um áreitni í þremur tilvikum gagnvart konunum, óviðeigandi eða óæskilega hegðun í tveimur, og um kynferðislega áreitni gagnvart þeim Fjólu Dögg og Hebu Líf. Eitt atvik taldist ekki staðfest.
Þarna virðist málinu hafa verið lokið af hálfu borgarinnar, að minnsta kosti gagnvart þolendum. Yfirmaðurinn sneri aftur til síns starfs.
Stéttarfélögin kröfðu borgina um upplýsingar um málið að lokinni rannsókn og vildu vita til hvaða aðgerða yrði gripið, en ekkert svar barst. Lögmaður BHM telur að Reykjavíkurborg hefði getað kært brotin.
„Í raun voru svörin á þá leið að þetta væri ekki nóg. Þetta þætti ekki nóg til að víkja henni úr starfi. Og þá set ég bara fram spurninguna: hvað er nóg? Þú veist, nokkur atvik af kynferðislegri áreitni, annarri áreitni, niðurlægingu og valdníðslu, ósæmilegri hegðun. Ef það er ekki nóg, hvað er nóg?“ segir Fjóla Dögg.
Eftir fund þolendanna þriggja með Reykjavíkurborg sendu lögfræðingar stéttarfélaganna skaða- og miskabótakröfur á Reykjavíkurborg. Borgarlögmaður hafnaði kröfunum.
Fjóla Dögg og Heba Líf kærðu kynferðislega áreitni aðstoðarskólastjórans til lögreglu.
„Ég hafði engan áhuga á því að kæra hana til lögreglu. Ég ætlaði aldrei að fara þá leið. Ég vildi afsökunarbeiðni. Ég vildi að enginn annar þyrfti að verða fyrir þessu og að það yrði komið í veg fyrir að svona hegðun myndi viðgangast áfram. En í staðinn fékk ég enga afsökunarbeiðni og hún fékk starfið sitt aftur; stjórnendastöðu yfir ungu fólki, börnum og ungmennum. Og við þá niðurstöðu gátum við ekki unað,“ segir Fjóla Dögg.
Þann 18. nóvember 2024 fékk aðstoðarskólastjórinn dóm. Konan, sem hafði samkvæmt gögnum málsins neitað flestum tilfellunum í könnunarferli Reykjavíkurborgar, þar á meðal kynferðislegri áreitni, játaði brotin gegn þeim Fjólu Dögg og Hebu Líf fyrir dómi.
Konan var dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða hvorri um sig 500.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum. Sökum dómsins fékk konan ekki starf sitt aftur.
„Það er bara ekki laust við að maður spyrji sig: Hefði þetta mál farið einhvern veginn öðruvísi og málsmeðferðin orðið önnur ef gerandinn hefði verið karlmaður?“ segir Andri Valur. „Maður kemst auðvitað ekki hjá því að velta fyrir sér hvort umburðarlyndið í þessu máli hafi verið meira af því að þarna er um að ræða konu í stjórnendastöðu,“ segir Jenný Þórunn.
„Ég á tvær dætur og ég hef engan áhuga á því að þær fari á vinnumarkaðinn og verði kannski fyrir broti eða slæmri framkomu, áreiti, kynferðisáreiti eða eitthvað svoleiðis, og tilkynna eins og þær eiga að gera – og að þetta sé það sem þær þurfi að gera. Að verða fyrir þessu ótrúlega óréttlæti,“ segir Fjóla Dögg. „Enginn tekur ábyrgð.“
Skólastjóri skólans vildi ekki veita Kveik viðtal vegna málsins og Reykjavíkurborg ekki heldur, en svaraði skriflega um verkferla borgarinnar og viðbrögð í málum sem þessum.
Í svörum borgarinnar segir meðal annars að í ákveðnum tilvikum kæri Reykjavíkurborg ofbeldi á starfsfólki sínu eða hótanir um alvarlegt líkamlegt ofbeldi; brot sem falli undir ákveðna grein hegningarlaga. Kynferðisbrot falli aftur á móti ekki þar undir.
„Af hálfu Reykjavíkurborgar hafa slík mál ekki verið kærð til lögreglu fyrir hönd starfsmanna fram til þessa. Mál það sem vísað er til í fyrirspurninni hefur ásamt sjónarmiðum um jafnræði og réttaröryggi gefið tilefni til rýningar á því verklagi og er það nú til endurskoðunar, meðal annars hvað þetta efni varðar.“
Horfa má á umfjöllun Kveiks hér.