Sveitarstjórn Kjósarhrepps er harðorð í garð nágranna sinna í Hvalfjarðarsveit sem hyggjast byggja upp höfn og iðnaðarsvæði í Galtalæk við Hvalfjörð. Segja Kjósamenn að nágrannarnir beri ekki umhyggju fyrir Hvalfirði sem náttúruperlu og að markvisst vinni þeir að því að byggja upp mengandi iðnað þar.
Þetta kemur fram í umsögn sem skilað var inn til Skipulagsstofnunar vegna auglýsingar Hvalfjarðarsveitar um aðalskipulagsbreytingu á jörðinni Galtalæk.
Galtalækur er neðan Þjóðvegar 1 og er í dag skilgreint sem landbúnaðarland en er samliggjandi Grundartangasvæðinu. Jörðin er 127 hektarar en áætlað er að byggja upp iðnaðarsvæðið á 80 hekturum. Það er vörugeymslur, geymslusvæði, léttur iðnaður, þjónustusvæði og þúsund metra höfn með viðlegukanti. Þar eigi að geta lagt að bæði stór flutningaskip og skemmtiferðaskip. Alls 33 athafnalóðir.
Í frétt Skessuhorns um fyrirhugaða uppbyggingu kemur fram að það séu feðgar sem kenndir séu við félagið Skagaverk séu eigendur að jörðinni. En það er rútufyrirtæki á Akranesi. Sveitarstjórn samþykkti skipulagsbreytinguna 22. janúar síðastliðinn.
„Hvalfjörðurinn er náttúruperla skammt frá höfuðborgarsvæðinu sem áríðandi er að standa vörð um,“ segir í umsögn sveitarstjórnar Kjósarhrepps. „Hvalfjörðurinn er djúpur fjörður, sem gengur inn af Faxaflóa, með lífríkum grunnum vogum og víðáttumiklum leirum. Fjörulengjan þar skartar mjög fjölbreyttum vistkerfum sem nú þegar eru í mikilli hættu vegna mengunar sem skapast vegna starfseminnar á Grundartanga.“
Í gegnum tíðina hafi Hvalfjörður verið útivistarparadís höfuðborgarbúa og annarra landsmanna sem koma til að tína krækling og njóta útiveru. Þá séu einnig einstakar laxveiðiár í Kjósarhreppi sem byggi á laxagöngu úr firðinum.
Í gegnum tíðna hafi náttúruunnendur barist fyrir tilverurétti Hvalfjarðar sem náttúruparadísar en það hafi verið við ofurefli að etja.
„Nágranna sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit hefur ekki borið sömu umhyggju fyrir firðinum og markvisst í samstarfi við Faxaflóahafnir, unnið að því að skipuleggja mengandi starfsemi Hvalfjarðarsveitar megin í firðinum sem óhjákvæmilega hefur áhrif á lífsgæði íbúa Kjósarhrepps og annarra sem sækja hann heim,“ segir í umsögninni.
Lýsa Kjósarmenn miklum áhyggjum af aukinni skipaumferð um fjörðinn, sem sé töluverð fyrir vegna starfseminnar á Grundartanga og stórskipahafnarinnar þar. Þaðan berist mengun í formi brennisteinsdíoxíðs og nituroxíðs. Til dæmis hafi árið 2023 verið losuð 712 tonn af nituroxíðsamböndum í Grundartangahöfn. Það sé jafn mikið og öll umferðin á höfuðborgarsvæðinu. Flest skip séu enn þá knúin af skipagasolíu og því þýði fleiri skip meiri mengun.
„Sveitarstjórn Kjósarhrepps leggst alfarið gegn allri skipulagningu við fjörðinn sem með beinum eða óbeinum hætti hefur neikvæð áhrif á lífríki fjarðarins og telur að nú sé komið nóg,“ segir í umsögninni.
Kjósarmenn eru ekki þeir einu sem eru ósáttir við áætlanir Hvalfjarðarsveitar við Galtalæk. Í Morgunblaðinu var fjallað um að forsvarsmenn Faxaflóahafna skilji ekki hvað sveitarstjórninni gangi til.
Gunnar Tryggvason hafnarstjóri sagði að Grundartangahöfn hafi verið byggð upp í 40 ár og töluvert sé af uppbyggingarmöguleikum eftir. Ekki sé skynsamlegt að raska öðru svæði þegar Grundartangi sé ekki fullnýttur.