Er allt í steik með fjármál Reykjavíkurborgar eða eru hörmungafréttir um meinta óráðsíu borgarinnar stórlega ýktar? Skoðanir á þessu eru skiptar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki legið á þeirri skoðun sinni að fjármál borgarinnar megi muna fífil sinn fegri eftir að flokkurinn missti þar völdin í hendur Samfylkingar og vina.
Tilraunir hafa verið gerðar til að hrekja þessar meintu fjármálahrakfallasögur en slíkar varnarræður eru jafnóðum tættar í sundur. Gott dæmi um þetta átti sér stað á dögunum. Hagfræðiprófessorinn Gylfi Magnússon birti fyrir helgi færslu á Facebook þar sem hann sagði umræðuna um fjármál höfuðborgarinnar ansi þokukennda. Hann ákvað að ráðfæra sig við gervigreindina til að fá óháð mat. Gervigreindin rakti að samkvæmt skuldastöðu A-hluta sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins árið 2022 var Reykjavík engan veginn verst sett með 112% skuldahlutfall og þar með aðeins Kópavogsbær sem stóð sig betur með 111%. Hvað varðaði skuldir á hvern íbúa sama ár var staðan sú sama. Reykjavík kom næstbest út á eftir Kópavogi með 1.247 þúsund króna skuld á hvern íbúa. Hvað varðaði veltufjárhlutfall kom borgin best út með hlutfallið 1,07 en veltufjárhlutfall yfir 1,0 bendir til að sveitarfélag hafi nægilegt laust fé til að standa undir skammtímaskuldum. Þar kom Kópavogur verst út með hlutfallið 0,35, en Reykjavík var eina sveitarfélag höfuðborgarsvæðisins sem komst yfir 1,0.
Gylfi tók fram að hann hefði ekki sannreynt þetta svar gervigreindarinnar, en það gerði blaðamaður enda vísaði gervigreindin í umfjöllun Heimildarinnar frá 15. maí 2023, og fer gervigreindin rétt með þær tölur sem þar koma fram.
Varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Helgi Áss Grétarsson, hefur svarað þessari færslu Gylfa með aðsendri grein hjá Vísi í dag. Þar bendir Helgi á að Gylfi situr í stjórn Orkuveitur Reykjavíkur og hafi auk þess starfað sem ráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á árunum 2009-2013. Helgi segir sérstakt að Gylfi, sem hafi sjálfur burði í að rýna fjárhagsstöðu sveitarfélaga, hafi leitað til gervigreindar. Helgi rekur að það sé óumdeilt að langtímaskuldir A-hluta borgarinnar, sem er sá hluti sem er rekinn fyrst og fremst fyrir skattfé, séu of háar og til þess fallnar að valda búsifjum í formi hárra afborgana lána og vaxta. Sem hlutfall af eigin fé hafi skuldirnar verið 164,8% af eigin fé í september 2024. Þetta hlutfall var 43,1% í árslok 2014.
„Þessi þróun, ein og sér, gefur til kynna hversu mikil óráðsía undanfarinn áratug hefur verið í rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar undir forystu Samfylkingarinnar.“
Helgi segir enga ástæðu til að ætla að rekstur A-hluta borgarinnar taki jákvæðum breytingum undir stjórn þess meirihluta sem nú sé að taka við borginni. Þvert á móti megi reikna með því að frekar halli undan fæti „enda hefur það jafnan verið reynslan af hreinum vinstri-stjórnum. Helsta framlag væntanlegs meirihluta verður sjálfsagt í því fólgið að bæta og fjölga kryddum í skuldasúpu Reykjavíkurborgar.“
Brynjólfur Gauti Guðrúnar Jónsson, doktorsnemi í tölfræði við Háskóla Íslands, gerir athugasemdir við málflutning Helga. Hann skrifar á Facebook:
„Helgi Áss Grétarsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, skrifaði skoðanagrein um fjárhag Reykjavíkurborgar. Mér datt í hug að hjálpa honum að setja tölurnar í samhengi.“
Brynjólfur birtir mynd sem sýnir nákvæmlega þær tölur sem Helgi vísaði til, langtímaskuldir sem hlutfall af eigin fé, bæði fyrir A-hluta sem og fyrir A og B-hluta saman. Þar sést aftur á móti að Reykjavíkurborg er ekkert verr stödd en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Björn Leví Gunnarsson, fyrrum þingmaður Pírata, deilir færslu Brynjólfs og segir hana sýna að annaðhvort kunni Sjálfstæðismenn ekki að greina gögn, eða þeim sé hreinlega alveg sama um hvað gögnin segja. Það sé óvíst hvor skýringin sé verri.
„Dæmi um það hvernig fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kunna ekki á gögn, eða er alveg skítsama hvað gögnin segja. Ég veit eiginlega ekki hvort er verra, viljandi blekking eða augljós heimska.“