fbpx
Fimmtudagur 20.febrúar 2025
Fréttir

Vilja fund með lögreglustjóra vegna fimm ára tafa á kæru ÁTVR – „Hvað í ósköpunum geti skýrt þessa ótrúlegu töf“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 17. febrúar 2025 18:00

Árni vill fund með Höllu Bergþóru vegna tafa málsins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breiðfylking forvarnarsamtaka hefur óskað eftir fundi með Höllu Bergþóru Björnsdóttir, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, til að ræða um tafir á máli ÁTVR gegn netverslunum með áfengi. Í júní verða fimm ár síðan málið var kært.

„Fyrir okkur vakir að fá umræðu um hvað í ósköpunum geti skýrt þessa ótrúlegu töf. Á öllum stigum virðist hægagangurinn vera með ólíkindum, bæði þegar kemur að rannsókn máls og eftir að rannsókn lýkur og málið fer til ákærusviðs,“ segir Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ, félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu sem eru ein af samtökunum í breiðfylkingunni. Árni segir að engin svör hafi borist frá lögreglunni enn þá.

Hreyfist lítið

ÁTVR kærði netverslanir með áfengi í júní árið 2020. Síðan þá hefur að minnsta kosti ein verslunin hætt starfsemi en tugir bæst við. Í dag eru þær í kringum 30 talsins.

Þann 27. mars í fyrra ítrekaði ÁTVR kæruna með bréfi til Ríkissaksóknara sem bað svo um svör frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 28. maí. Í svarbréfi lögreglustjóra þann 10. júní sagði að rannsókn væri að ljúka hjá rannsóknardeild en beðið væri eftir greinargerðum frá Skattinum, sem yrðu líklega komnar í þeirri viku.

Þann 28. september í fyrra var svo greint frá því í fjölmiðlum að rannsókninni væri lokið og að málið hefði verið sent til ákærusviðs. Ekki lægi fyrir hvenær það yrði afgreitt þaðan. Síðan hefur ekkert frést af málinu.

Ekki flókið mál

Aðspurður um hvort hann telji að verið að sé að svæfa málið segist Árni ekki vilja fullyrða það. Heldur ekki hvort að orð stjórnmálamanna um lögmæti netsölu áfengis hafi haft áhrif á framgang þess. En Jón Gunnarsson, Bjarni Benediktsson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannesson eru á meðal þeirra ráðherra sem hafa rætt um hana á undanförnum árum.

Sjá einnig:

Kæra Hagkaup til lögreglu fyrir netsölu áfengis – „Þetta eru jafn flókin brot og einföld umferðarlagabrot“

„Maður getur látið hugann reika í allar áttir en í okkar huga er þetta ferli ekki mjög flókið,“ segir Árni. Ekki þurfi mikinn mannafla til að rannsaka og taka ákvarðanir í máli eins og þessu. „Þetta ætti að vera eins og lögfræðiálit, að einhverjir lögspekingar fari yfir það hvort starfsemin í samræmi við það sem okkar lög og reglur segja eða er þetta fyrirkomulag í mótsögn við annað. Svo sem regluverk EES eða hvað það nú getur verið.“

Verði að fara lögformlega leið

Í þessu máli, sem hafi verið í næstum hálfan áratug í vinnslu, komi fram sinnuleysi gagnvart því fyrirkomulagi sem Íslendingar hafi haft. Það er ákveðið félagslegt taumhald á áfengissölu.

„Ef það er í samfélaginu samkomulag um að við viljum hafa þetta öðruvísi. Að salan sé markaðsvædd. Þá verður það að fara í gegnum löggjafarvaldið. Þá kollvörpum við þessu fyrirkomulagi. Það er ekki endilega það sem ég er hrifinn af en það er alla vega hin rétta leið í samfélagi eins og okkar,“ segir Árni.

Nýlega kom út skýrsla Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) þar sem meðal annars var fjallað um fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi og tafirnar á kæru ÁTVR gagnvart netsöluaðilum. Árni segist vera mjög ánægður með þessa skýrslu. Hún sýni líka að það sé verið að fylgjast með málinu úti í heimi.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Fékk net í skrúfuna og var dreginn í land

Fékk net í skrúfuna og var dreginn í land
Fréttir
Í gær

Tenerife-ferð Hjálmars endaði öðruvísi en til stóð – „Öllu þessu fólki á ég líf að gjalda og er óendanlega þakklátur“

Tenerife-ferð Hjálmars endaði öðruvísi en til stóð – „Öllu þessu fólki á ég líf að gjalda og er óendanlega þakklátur“