Íslensk ferðaskrifstofa býður nú upp á heimsreisu með 12 viðkomustöðum og um 70 klukkustunda flugtíma. Verðið á mann er tæpar 8,5 milljón króna.
Ferðaskrifstofan Kólumbus auglýsti heimsreisuna um helgina en hún verður farin dagana 4. til 28. janúar árið 2026. Komið verður við á 12 stöðum í 10 löndum, flestum á suðurhveli jarðarinnar.
Verðmiðinn er 8.490.000 krónur á mann í tveggja manna herbergi. Það er 16.980.000 krónur fyrir par. Aukagjald fyrir gistingu í eins manns herbergi er 890.000 krónur. 50 sæti eru í boði þannig að ef vélin fyllist þá borga kúnnarnir samanlagt á bilinu 424,5 til 469 milljónir króna, eða hátt í hálfan milljarð.
Staðfestingargjaldið er 1 milljón króna og þarf að greiðast fyrir 1. mars næstkomandi. Eftirstöðvar þarf að greiða í þrennu lagi, það er dagana 20. apríl, 20. ágúst og 20. október.
Í verðinu eru innifaldar 14 flugferðir með einkaþotu, gisting á fínum hótelum, rútur til og frá flugvöllum og í skoðunarferðir sem og aðgöngumiðar ásamt leiðsögn, fullt fæði í flugi, morgunverður á hótelum og fæði sem tiltekið er í ferðalýsingu.
Fararstjóri er Sigurður K. Kolbeinsson, forstjóri Kólumbus, en hann kaus að tjá sig ekki um ferðina þegar DV leitaði eftir því.
Einkaþotan sem flogið er í er Boeing 757-200 þota Loftleiða, það er Magni TF-FIC sem er ein af þremur þotum í flugflota félagsins sem er hönnuð með lúxusinnréttingu. Sætunum er hægt að breyta í rúm með koddum og ábreiðum. Matur er séreldaður og drykkir í boði af bestu fáanlegu tegundum eins og stendur á heimasíðu Kólumbus.
Þann 4. Janúar verður flogið frá Keflavík til Grænhöfðaeyja, vestur af ströndum Afríku, þar sem dvalið verður í eina nótt. Þaðan er flogið til Rio de Janeiro í Brasilíu þar sem meðal annars verður farið í að Kristsstyttunni og á Copacabana ströndina.
Þann 8. janúar verður flogið til Argentínu þar sem er meðal annars boðið upp á tangósýningu og útsýnisferðir. 11. janúar er flogið til Santiago, höfuðborgar Síle á vesturströnd Suður Ameríku.
Eftir dvölina í Suður Ameríku er haldið út á breiður Kyrrahafsins og fyrsti viðkomustaðirnir eru Páskaeyja og Tahítí, þann 13. janúar. Þaðan er flogið til borgarinnar Auckland, á Norðureyju Nýja Sjálands tveim dögum seinna. Eyjálfudvölinni lýkur svo með þriggja daga stoppi í Sydney í Ástralíu þar sem meðal annars verður litið í hið fræga Óperuhús og Bondi ströndina.
Viðkomustaðir í Asíu eru tveir. Annars vegar verður flogið til borgríkiseyjunnar Singapúr þann 20. janúar. Tveimur dögum seinna er flogið til Sri Lanka, suðaustan af Indlandi og dvalið þar í þrjá daga.
Síðasti viðkomustaðurinn er Nairobi, höfuðborg Kenía í austanverðri Afríku. En þar verður meðal annars skoðaður Nairobiþjóðgarðurinn þar sem villt dýr ganga um. Að lokum er flogið til Keflavíkur þann 28. janúar, með stoppi í Munchen í Þýskalandi.