Á föstudaginn var opnuð listasýning í nýju húsnæði Íslenska gámafélagsins að Koparsléttu 20. Sýningin er yfirlit yfir möguleika á áframhaldandi nýtingu hráefnis, þar sem úrgangi hefur verið breytt í verðmæti á listrænan og hagnýtan hátt.
Fjöldi fólks lagði leið sína á opnunina á föstudaginn. Þar fræddust gestir um möguleika á endurvinnslu ýmissa hráefna, fóru í sýndarferð um flokkunarskemmur á Kalksléttu og hlustuðu á fyrirlestur um mikilvægi og möguleika á endurvinnslu á Íslandi í dag.
Þær Bríet Sigtryggsdóttir, Erla Lind Guðmundsdóttir og Katla Margrét Jóhannesdóttir, nemar í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands, settu sýninguna upp.
Sýningin beinir sjónum okkar að íslenskum hönnuðum og fyrirtækjum sem vinna með endurnýtanlegan efnivið og stuðla þar með að bættu hringrásarhagkerfi á Íslandi.
Sýningin er hluti af samvinnuverkefni Íslenska gámafélagsins, Laufsins, Vodafone og Deloitte, þar sem markmiðið er að aðstoða fyrirtæki á Íslandi að byrja að vinna markvisst að sjálfbærnimálum.