Aðalmeðferð í máli sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur höfðað gegn Margréti Friðriksdóttur, fyrir ærumeiðingar gegn héraðsdómaranum Barböru Björnsdóttur, verður haldin fyrir luktum dyrum. Þetta hefur Jónas Jóhannsson héraðsdómari úrskurðað en Margrét er mjög ósátt við úrskurðinn og segir að honum verði áfrýjað til Landsréttar.
Ákært var vegna ummæla sem Margrét lét falla um dómarann á Facebook í kjölfar þess að hún var sakfelld fyrir hótanir gegn Semu Erlu Serdaroglu. Þeim dómi var síðan snúið við í Landsrétti og Margrét sýknuð. Í Facebook-færslunum kallaði Margrét dómarann „lausláta mellu“ sem hafi selt blíðu sína til að komast í sæti dómara. Margrét rakti síðan meint framhjáhald dómarans sem hún segir að hafi valdið usla innan Héraðsdóms Reykjavíkur.
Brotaþoli krafðist þess að þinghald í málinu yrðu lokað enda ætti umfjöllun um viðkvæm einkamál hennar ekki erindi til almennings. Á þetta féllst dómari í úrskurði en Margrét mótmælir úrskurðinum harðlega.
Dómari hefur veitt Margréti leyfi til að kalla eitt vitni fyrir dóminn en það er meintur ástmaður dómarans. Hún fær hins vegar ekki að kalla tvö önnur vitni fyrir, fyrrverandi eiginkonu hins meinta ástmanns, né fyrrverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur.
Margrét hefur birt yfirlýsingu á Facebook þar sem hún fer yfir málið. Þar staðhæfir hún að málið eigi erindi til almennings og þinghald eigi því að vera opið. Í færslunni segir Margrét meðal annars:
„Nú er svo komið að ákæruvaldið fer fram á lokað þinghald, og hafnar einnig að lykilvitni verði leidd fyrir dóminn og neita einnig að kalla eftir lykil sönnunargögn, þ.e. sálfræðiskýrslan og kvörtun dómaranna vegna framferðis dómaranna til dómstólasýslunnar, verði lagt fyrir dóminn.
Í gær sendi dómarinn Jónas Jóhannsson frá sér úrskurð um að það sé samþykkt. Dómarinn sem sagt samþykkir að ég fái ekki réttláta málsmeðferð, hafnar öllu því sem leitt getur til sýknu í máli þessu og afhjúpar ósannindi dómarans í skýrslutöku hjá lögreglu þar sem hún þykist ekkert kannast við málið og lætur að því liggja að sé úr lausu lofti gripið, þrátt fyrir betri vitund.
Það má svo ekki gleyma því að dómarinn ákvað sjálf að vekja athygli á þessu máli með því að kæra mig og ákæruvaldið fer áfram með málið, en reyna nú með öllum ráðum að koma í veg fyrir réttláta málsmeðferð.
Ég tel mig því knúna til að upplýsa um kjarna málsins hér, ég mun ekki sætta mig við slík vinnubrögð og úrskurður dómarans síðan í gær verður kærður til Landsréttar, því við teljum málið eiga fullt erindi eins og áður segir til almennings og varðar almannahag.
Að lokum er best að halda því til haga að ég minni á stjórnarskrárvarinn rétt minn til að tjá mig um málið og geri ég það á mína eigin ábyrgð.“