Byggingarstjóri við framkvæmdir á íbúð í fjölbýlishúsi í Kópavogi hefur verið dreginn inn í ágreining íbúðaeigenda um framkvæmdir í húsinu. Sakar byggingarstjórinn einn íbúa í húsinu um ofbeldi og skemmdarverk. Lögregla var kölluð til á föstudag og laugardag þegar upp úr sauð á vettvangi í þessari annars friðsælu götu í Kópavogi.
„Hann henti í mig 25 kílóa sandpoka, krækti stól í mig, öskraði á mig, tók mig hálstaki, henti í mig kefli…ég passaði mig að gera ekki neitt og er ég þó sæmilega hraustur,“ segir byggingarstjórinn í viðtali við DV.
Fjallað var um ágreininginn í húsinu í DV haustið 2024, í tengslum við úrskurð Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Krafðist eigandi hluta hússins að framkvæmdir annars eiganda í húsinu yrðu stöðvaðar, en þær fólust meðal annars í því að rífa niður vegg og breyta neysluvatns- og hitalögnum. Vildi kærandinn í málinu að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar á meðan nefndin myndi kanna lögmæti þeirra. Ekki var orðið við kröfunni.
Framkvæmdirnar snúast um að færa til herbergi, rífa niður vegg og gera lítilsháttar breytingar á neysluvatns- og hitalögnum. Byggingarfulltrúinn gaf út byggingarleyfi 7. ágúst 2024. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdirnar væru of langt komnar til að hægt væri að stöðva þær. Barátta eigandans fyrir því að stöðva framkvæmdirnar virðist ekki bara hafa verið lögformleg, samkvæmt byggingarstjóranum hefur hann gripið til róttækari og ólöglegra aðgerða.
„Ég er starfandi byggingastjóri vegna breytinga á íbúð sem ungt par keypti og vildi láta gera upp. Ég var ráðinn byggingarstjóri yfir verkefninu síðasta sumar. Það hefur vægast sagt gengið á ýmsu síðan þá,“ segir byggingarstjórinn. Sérstakur styrr hefur staðið um gólfhitalagnir sem fólkið lét leggja.
„Nágranninn á neðri hæðinni hefur verið að reyna að stöðva framkvæmdir, taka verkfæri og henda út, svona skæruhernaður. Síðan gerist það í desember þegar pípari ætlaði að fara að leggja lagnir í gegnum skorsteininn, þá eru þau búin að láta steypa 1,4 m upp í skorsteininn, þannig að ekki vera hægt að fara með lagnirnar þarna niður samkvæmt teikningu. Síðan gerist það þarna í desember að það er kallaður til maður til að kjarnabora, að þá reyna þau að stöðva verkið. Lögregla kom á vettvang, fyrst tveir lögreglumenn og síðan tveir í viðbót og loks kom varðstjórinn vegna þess að lögreglan vissi ekki hvað þau myndu gera.“
Byggingarstjórinn segir að honum hafi síðan lent saman við þennan íbúa 15. janúar. „Ég var þá mættur þarna á fund með verktaka sem var að taka að sér ákveðna verkþætti. Hann hótar mér þá öllu illu, öskrar á mig og hrækir á mig. Að þessu voru þrjú vitni.“
Lögmaður byggingarstjórans hefur sent manninum kröfubréf fyrir hönd hans vegna þessa atviks. Krefur hann manninn um afsökunarbeiðni, miskabætur upp á 250 þúsund krónur og lögmannskostnað 400 þúsund krónur. Samkvæmt byggingarstjóranum voru tvö vitni að atlögunni en þess skal geta að það er refsivert að hrækja á annan mann og getur það varðað bæði sektum og fangelsi. Verði maðurinn ekki við kröfum hans má hann eiga von á málshöfðun.
Ljóst er hins vegar að atvikið á föstudag er miklu alvarlegra enda um meinta líkamsárás að ræða. Var lögregla kölluð til og kærði byggingarstjórinn árásina.
„Um miðnætti braust hann inn í íbúðina á efri hæðinni og var hann þá handtekinn. Síðan gerist það í morgun [Ath. laugardagsmorgun] að einhver á hans vegum gerði tilraun til að brjóta niður burðarvirki í húsinu, þ.e.a.s. strompinn, en slíkt má ekki gera án byggingarleyfis. Lögregla kom aftur á vettvang og þessi maður var handtekinn.“
Virðist því sem lögregla hafi komið þrisvar á staðinn á innan við sólarhring.
DV hringdi í íbúann sem borinn er umræddum sökum og sagðist hann ekki vilja ræða við málið og sagðist ekkert kannast við lýsingar blaðamanns á málavöxtum. Stuttu síðar hringdi kona úr símanúmerinu sem blaðamaður hafði hringt í og var heitt í hamsi. Varaði hún blaðamann við því að fjalla um málið og rjúfa friðhelgi einkalífsins. Blaðamaður minnti konuna á að fjölmiðlafrelsi væri í landinu en hét henni að gætt yrði að persónuvernd við skrifin. Rauf konan þá símtalið án þess að kveðja.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gat ekki veitt upplýsingar um útköll lögreglu vegna málsins en símsvörun hjá lögreglu er mjög takmörkuð um helgar.
Byggingarstjórinn segir þessa lífsreynslu alla vera með ólíkindum. „Ég hef aldrei upplifað annað eins á öllum mínum starfsferli og ég hef aldrei heyrt um svona á Íslandi.“