Stéttarfélagið Efling ber fyrirtækið Ræstitækni þungum sökum og sakar það um óvild og óviðeigandi framkomu í garð trúnaðarmanns Eflingar hjá Ræstitækni, M. Andreina Edwards Quero. Hefur fyritækið sakað Andreina um að veita starfsmönnum rangar upplýsingar og bannað henni að eiga bein samskipti við vinnufélaga sína um kjaramál. Einnig segir að Andreinu hafi verið bannað að sækja trúnaðarmannanámskeið, þvert á ákvæði kjarasamninga.
Í tilkynningu Eflingar til fjölmiðla um málið segir:
Í tilefni af sláandi viðtali við trúnaðarmann Eflingar, M. Andreina Edwards Quero, hjá fyrirtækinu Ræstitækni ehf. sem birtist í sjónvarpsfréttum RÚV þann 14. febrúar vill Efling stéttarfélag koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum.
Stjórnendur Ræstitækni hófu í mars 2024 óeðlileg afskipti af störfum Andreinu sem trúnaðarmanns og aðra framkomu sem sýndi henni óvild. Það lýsti sér m.a. svo:
Efling hefur ítrekað óskað eftir fundum með forsvarsmönnum Ræstitækni og gögnum um skipulag vinnunnar, án árangurs. Samtök atvinnulífsins hafa tekið að sér að svara fyrir fyrirtækið frá því í apríl 2024 og stutt afstöðu þess.
Hjá Ræstitækni starfa ríflega 30 Eflingarfélagar. Flestir eru frá Venesúela og margir þeirra tala einungis spænsku. Þeir keyra milli verkstaða og er gert að ljúka við þrif á allt að 13 mismunandi stöðum innan sama dags víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Fylgst er með þeim í gegnum GPS búnað. Starfsmenn hafa engan aðgang að salerni eða aðstöðu til að matast yfir daginn. Vinnudagur þeirra er þannig skipulagður að þeir fá ekkert matarhlé.
Starfsmenn Ræstitækni þurfa að ljúka verkum innan ákveðins tíma, oft á miklum vinnuhraða. Það kallast tímamæld ákvæðisvinna, sem greiða skal 20% hærra tímakaup fyrir. Enginn starfsmaður Ræstitækni fær greidd laun í samræmi við það.
Mælingar sem Efling lét erlendan sérfræðing vinna sýna að ómögulegt er að vinna þá vinnu sem Ræstitækni krefst á tilætluðum hraða. Vinnutaktur Andreinu á verkstað sem var mældur hefði þurft að vera 190, en eðlilegur vinnutaktur samkvæmt kjarasamningum er 100.
Í vinnuverndarúttekt sem gerð var á vinnustaðnum vegna Andreinu eftir að hún varð ófrísk segir að hún hafi „sjaldan tryggan aðgang að salerni“ og sé „því með einhvers konar skál út í bíl sem hún notar til þvagláta.“ Eigandi fyrirtækisins sagðist í frétt RÚV 14. febrúar ekki kannast við þetta, þrátt fyrir að fyrirtækið sjálft hafi pantað úttektina og sent hana til lögmanns Eflingar.
Í tilefni af sláandi viðtali við trúnaðarmann Eflingar stéttarfélags hjá fyrirtækinu Ræstitækni ehf. sem birtist í sjónvarpsfréttum RÚV þann 14. febrúar vill Efling koma á framfæri frekari upplýsingum um starfshætti fyrirtækisins og framgöngu þess við trúnaðarmann. Efling telur þessar upplýsingar eiga erindi við almenning og þá sem eiga eða hyggjast eiga í viðskiptum við fyrirtækið.
Maryuri Andreina Edwards Quero, 25 ára kona frá Venesúela, var skipuð trúnaðarmaður hjá Ræstitækni ehf. (áður þekkt undir nafninu Húsfélagaþjónustan ehf.) í byrjun febrúar 2024. Andreina hóf þegar að sinna hlutverki sínu sem trúnaðarmaður, m.a. með því að sækja trúnaðarmannanámskeið Eflingar í febrúar og mars 2024.
Eitt af fyrstu verkum Andreinu var að upplýsa vinnufélaga sína um kjarabætur og ný ákvæði kjarasamnings um störf ræstingafólks í samningi Eflingar og SA sem undirritaður var í byrjun mars 2024. Hún deildi kynningarglærum útgefnum af Eflingu í WhatsApp hópi sem hún hafði stofnað fyrir vinnufélaga sína til að ræða vinnutengd málefni. Ein af nýjungum samningsins voru skýrari ákvæði um tímamælda ákvæðisvinnu.
Í kjölfar þessa hófu stjórnendur fyrirtækisins óeðlileg afskipti af störfum Andreinu sem trúnaðarmaður. Í vikunni 18.-22. mars 2024 hafði aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækisins samband símleiðis við skrifstofu Eflingar og kvartaði yfir störfum hennar. Fullyrti hann að trúnaðarmaður væri að dreifa röngum upplýsingum til vinnufélaga sinna, án þess þó að geta skýrt nánar hvað í því fælist. Athugasemdir sneru m.a. að því að Andreina vakti athygli vinnufélaga sinna samningsákvæðum um tímamælda ákvæðisvinnu.
Þann 19. mars 2024 boðuðu yfirmenn fyrirtækisins Andreinu á sinn fund. Mætti hún þar þremur yfirmönnum sínum, þ.e. framkvæmdastjóra, aðstoðarframkvæmdastjóra og verkstjóra. Var Andreina þar látin sæta yfirheyrslu um hvað hún hefði tjáð vinnufélögum sínum um réttindamál þeirra, og gert að útskýra samskipti sín við þá.
Á fundinum var því haldið fram við Andreinu, án nokkurra sönnunargagna, að hún hefði veitt starfsfólki rangar upplýsingar. Var henni jafnframt sagt að hún ætti ekki að eiga bein samskipti við vinnufélaga sína um kjaramál þeirra, þar sem hún væri ekki „sérfræðingur“ í þeim málum og væri ekki „að vinna fyrir Eflingu“ eins og það var orðað. Henni var sagt að henni bæri að leita leyfis yfirmanna áður en hún ræddi við vinnufélaga sína. Öll þessi fyrirmæli fela í sér óeðlileg afskipti fyrirtækis af störfum trúnaðarmanns og ganga í berhögg við réttindi verkafólks á íslenskum vinnumarkaði.
Jafnframt sögðu yfirmenn við Andreinu að með því að senda vinnufélögum sínum upplýsingar um réttindamál væri hún að skaða starfsandann í fyrirtækinu. Var hún þannig beitt þrýstingi um að sinna ekki þeim verkefnum sem eru skylda og réttur hennar sem trúnaðarmaður að gera.
Nokkrum dögum síðar, föstudaginn 22. mars 2024, var svo Andreinu skipað af verkstjóra að standa upp fyrir framan hóp vinnufélaga sinna á starfsmannafundi og viðurkenna að hún hefði veitt þeim rangar upplýsingar um launakjör þeirra. Var henni fyrirskipað þetta án þess þó að hún hafi nokkurn tíma viðurkennt slíkt og án þess að neinar sannanir lægju fyrir um það.
Efling gerði skriflegar athugasemdir við ofangreint í tölvupósti til framkvæmdastjóra þann 26. mars 2024 og óskaði jafnframt eftir fundi með fyrirtækinu til að fara yfir framkvæmd fyrirtækisins á ákvæðum kjarasamninga. Ekkert varð af þeim fundi, en þess í stað tóku Samtök atvinnulífsins (SA) að sér að svara Eflingu fyrir hönd fyrirtækisins. Skrifleg samskipti við SA vegna málsins hófust 15. apríl.
Þann 17. apríl hélt Efling mánaðarlegt trúnaðarmannanámskeið, sem Andreina var boðuð á með venjubundnum hætti. Neituðu yfirmenn hennar að staðfesta heimild hennar til að sækja námskeiðið, sem er brot á réttindum trúnaðarmanns og ákvæðum kjarasamninga. Treysti hún sér ekki til að mæta á námskeiðið af ótta við afleiðingar fyrir atvinnuöryggi sitt. Synjun fyrirtækisins á rétti trúnaðarmannsins til námskeiðssetu fór fram með vitneskju Samtaka atvinnulífsins.
Í kjölfar þessa átti Efling ítrekaða fundi og samskipti við fulltrúa SA um starfshætti fyrirtækisins. Efling hefur óskað þess að fyrirtækið viðurkenni óviðeigandi framkomu gagnvart trúnaðarmanni og veiti staðfestingu um að slíkt endurtaki sig ekki. Þeim beiðnum var í engu sinnt.
Ræstitækni ehf. er með rúmlega 30 Eflingarfélaga á launaskrá, og starfa þeir við ræstingar hjá verkkaupum fyrirtækisins um allt Höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess. Sinna þeir þrifum m.a. í stórverslanakeðjum, hjá stóru fasteignafélögunum og allnokkrum opinberum stofnunum. Upprunaland flestra starfsmanna er Venesúela og starfa þeir undir verkstjóra sem þarlendur. Margir þeirra tala einungis spænsku.
Starfsmenn Ræstitækni ehf. vinna við svokölluð „bílaþrif“ sem merkir að þeir keyra á fyrirtækisbílum milli verkstaða og er úthlutaður tiltekinn tími til að ljúka verki á hverjum stað. Dagsplön sem Efling hefur undir höndum sýna að á einum og sama deginum er starfsmönnum gert að ljúka við þrif samkvæmt ítarlegum verklýsingum á allt að 13 mismunandi verkstöðum víðs vegar um borgina.
Efling hefur jafnframt undir höndum skrifleg fyrirmæli til starfsmanna á spænsku þar sem þeim er gert ljóst að þeim beri ávallt að klára verklýsingu í heild á hverjum verkstað. Í sömu fyrirmælum kemur fram að fylgst er með ferðum bílanna í gegnum GPS búnað.
Starfsmenn hafa engan aðgang að salerni eða aðstöðu til neysluhléa yfir daginn meðan á vinnu stendur. Efling hefur undir höndum vinnuverndarúttekt sem gerð var á vinnustaðnum vegna Andreinu eftir að hún var ófrísk. Þar segir: „Andreina hefur sjaldan tryggan aðgang að salerni. Hún er því með einhvers konar skál út í bíl sem hún notar til þvagláta.“ Furðu sætir að eigandi fyrirtækisins þykist í fréttum 14. febrúar ekki kannast við þetta, þar sem umræddar upplýsingar koma fram í vinnuverndarúttekt sem fyrirtækið sjálft pantaði og sendi lögmanni Eflingar.
Þrátt fyrir að þurfa að ljúka fyrirfram skilgreindum og ítarlegum verkefnalista á hverjum verkstað innan þröngt skilgreinda tímamarka, sem er einkenni tímamældrar ákvæðisvinnu, fær enginn starfsmaður hjá Ræstitækni ehf. greidd laun í samræmi við það. Tímakaup í tímamældri ákvæðisvinnu eru samkvæmt kjarasamningum 20% hærra en reglulegt kaup, og á að koma í stað fyrir aukinn vinnuhraða og kaffihlé sem starfsmaður gefur frá sér.
Efling óskaði ítrekað eftir samvinnu fyrirtækisins um að kanna með svokallaðri „uppmælingu“ sem er vel þekkt verklag í ræstingageiranum hvernig vinnuhraða væri háttað. Fyrirtækið hefur, með stuðningi SA, neitað Eflingu um þær upplýsingar. Fyrir liggja tölvupóstsamskipti sem staðfesta þetta. Þess í stað hafa fyrirtækið og SA lýst því yfir að einhliða huglegt mat fyrirtækisins nægi sem sönnun fyrir eðlilegum vinnuhraða.
Í ljósi andstöðu Ræstitækni ehf. og SA við samvinnu um að mæla vinnuhraða hjá fyrirtækinu ákvað Efling að leita til dansks sérfræðings í uppmælingum. Var hann beðinn um að leggja mat á vinnuhraða á einum verkstað, atvinnuhúsnæði í Hafnarfirði, þar sem Andreina og vinnufélagar hennar þrifu reglulega. Til grundvallar lágu verklýsingar og dagsplön frá fyrirtækinu sjálfu, vitnisburður starfsmanna og grunnteikningar af umræddum verkstað.
Niðurstöður þessarar mælingar, sem Efling hefur móttekið í formi stuttrar skýrslu, eru að starfsmaður hefði þurft að vinna á vinnutaktinum 190, en eðlilegur vinnutaktur („staðalhraði“) er 100 samkvæmt samningi Eflingar og SA.
Ræstitækni ehf. hefur í a.m.k. 3 staðfestum tilvikum ákveðið að greiða starfsmönnum ekki lögbundið yfirvinnukaup að loknum 8 klukkustunda vinnudegi, heldur útvíkka dagvinnutímabil einhliða og án kjarasamningsbundins samþykkis í 8 og hálfa klukkustund fjóra daga vikunnar. Þessir starfsmenn hafa verið sviknir um yfirvinnuálag í samtals 2 klukkutíma á viku hverri allan sinn starfstíma.
Vinnudagur starfsfólks er jafnframt skipulagður þannig að starfsmenn fá ekkert matarhlé, og þess í stað einungis 10 mínútna og 20 mínútna pásu á milli þess sem þeir þrífa á staðsetningum í ólíkum póstnúmerum bæjarins innan sama dags. Starfsmenn fá enga aðstöðu til að hvílast eða nærast í þessum pásum, og gefur fyrirtækið ströng fyrirmæli um hvert starfsmenn megi fara í pásunum.
Föstudaginn 31. maí hélt trúnaðarmaður starfsmannafund í Félagsheimili Eflingar, þar sem hún hugðist greina frá fundi sínum með framkvæmdastjóra fyrirtækisins og bjóða vinnufélögum sínum aðstoð Eflingar við að kanna mál þeirra. Þann sama morgun var tveimur vinnufélögum hennar, þeim Edward Areaga og Andreu Rivas, sagt upp störfum, en þau eru bæði vinir Andreinu og höfðu tjáð sig um réttindi sín.
Verkstjóri ræstinga hjá Ræstitækni ehf. er frá Venesúela og meirihluti starfsmanna, sem sjálf eru flóttamenn frá Venesúela, talar eingöngu spænsku. Stjórnendur fyrirtækisins virðast leggja mikla áherslu á að starfsfólk haldi tryggð við verkstjórann og öll upplýsingagjöf til starfsfólks um launa- og réttindamál fer í gegnum hann. Fyrirtækið hefur í samtölum við Eflingu haldið því ítrekað á lofti að starfsfólki sé reglulega boðið upp á pitsur og grillmat á vinnutíma, sem svar við athugasemdum félagsins um starfshætti þess og spurningum um eftirfylgni kjarasamninga.
Andreina varð ófrísk um vorið 2024. Er leið á meðgönguna fór starfið að reynast henni erfiðara. Andreina var undir miklu líkamlegu og andlegu álagi sem hafði neikvæð áhrif á meðgönguna og hafði auk þess ekki aðgang að salernis- eða hvíldaraðstöðu. Andreina leitaði til yfirmanna sinna sumarið 2024 og óskaði eftir því að aðlaganir yrðu gerðar á vinnuskilyrðum og vinnutíma til þess að tryggja öryggi hennar og ófædds barns hennar.
Að fá slíkar aðlaganir er réttur þungaðra kvenna samkvæmt lögum nr. um fæðingar- og foreldraorlof nr. 144/2020. Í kjölfar aðkomu lögmanna Eflingar voru slíkar aðlaganir veittar en þær fólu einna helst í sér að Andreinu var veitt hádegishlé, sem hún gæti m.a. nýtt til þess að nálgast salernisaðstöðu. Þessar ráðstafanir voru þó ekki virtar auk þess sem þær dugðu ekki til þess að tryggja öryggi Andreinu.
Eftir að fyrirtækið hafnaði að grípa til frekari aðgerða til þess að tryggja öryggi Andreinu haustið 2024 komust framkvæmdastjóri Ræstitækni og lögmaður Eflingar að samkomulagi um að henni yrði veitt leyfi frá störfum og sótt um lengingu á fæðingarorlofi frá fæðingarorlofssjóði. Það er lögbundin skylda atvinnurekanda að veita slíkt leyfi frá störfum og standa að umsókn um lengingu fæðingarorlofs ef hann getur ekki gripið til frekari aðgerða til þess að tryggja öryggi þungaðs starfsmanns.
Ræstitækni ákvað hins vegar að virða ekki loforð sitt og neitaði að veita uppáskrift til þess að Andreina gæti hafið töku fæðingarorlofs fyrr. Fyrirtækið virti þannig lögbundnar skyldur sínar til þess að tryggja öryggi Andreinu og ófædds barns hennar að vettugi.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar: „Það er rangt sem er stundum haldið fram, að innflytjendur á íslenskum vinnumarkaði séu ekki meðvitaðir um réttindi sín. Fjölmargir Eflingarfélagar af erlendum uppruna vilja kynna sér réttindi sín, gera það og standa á þeim. Eins og sést í sláandi dæmi Ræstitækni ehf. þá eru það atvinnurekendur í samstarfi við SA sem meina fólki að kynna sér og standa vörð um réttindi sín. Ég dáist að hugrekki trúnaðarmanns okkar Andreinu að tala um þá framkomu sem hún varð fyrir og segja sannleikann um starfshætti fyrirtækisins.“
Viðar Þorsteinsson, fræðslu- og félagsmálastjóri Eflingar: „Andreina er í hópi öflugustu einstaklinga sem Efling hefur fengið í raðir trúnaðarmanna á síðustu misserum. Hún hefur upplýst vinnufélaga sína um réttindi þeirra af mikill samviskusemi og fylgst með því að farið sé eftir kjarasamningum. Þetta eru lögvarin hlutverk trúnaðarmanns. Með þessu kallaði hún yfir sig viðbrögð frá sínum atvinnurekanda sem ég get best lýst sem ofsóknum. Það er mikil skömm að þetta hafi verið gert með stuðningi Samtaka atvinnulífsins.“
Efling – stéttarfélag
16.2.2025