Einar hefur verið áberandi í fréttum þessa vikuna en sem kunnugt er sleit hann meirihlutasamstarfinu í borginni síðastliðinn föstudag.
Guðni, sem var varaformaður Framsóknarflokksins á árunum 2001 til 2007 og formaður Flokksins frá 2007 til 2008, mærir Einar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
„Einar Þorsteinsson borgarstjóri hefur nú sýnt að hann er flestum stjórnmálamönnum fremri, sannfæring ræður för. Hann hikar ekki við að fórna starfi og stundarframa þegar ekkert miðar í þeim áformum sem hann og flokkur hans hétu Reykvíkingum og þjóðinni í málefnum höfuðborgarinnar,” segir Guðni meðal annars.
Hann segir að þar hafi vegið stærst sú ábyrgð að standa með lífinu, frammi fyrir þeirri lífshættu sem flugáhöfnum og farþegum er búin á Reykjavíkurflugvelli.
„Þar vegur þyngst sjúkraflug með fólk í lífsáhættu þar sem ekki mínútur heldur sekúndur skipta máli. Takið eftir, oft er eins og flugvöllurinn í Vatnsmýrinni sé bara sjúkraflugvöllur landsbyggðarfólks. Reykvíkingarnir og höfuðborgarbúarnir skipta þúsundum sem eiga flugvellinum líf sitt eða ástvinar síns að launa,“ segir Guðni meðal annars.
Hann segir það mikla sorgarsögu hvernig stjórnmálamenn hafa látið „leiða sig út í hvert óhæfuverkið eftir annað til að slátra Reykjavíkurflugvelli með heimskulegum aðgerðum“ eins og hann orðar það.
„Þrengja miskunnarlaust að flugvellinum eins og annar flugvöllur sé innan seilingar, sem loksins er viðurkennt eftir ákvörðun Einars og umræðu hans og fleiri um flugvöllinn að er ekki til staðar og ekki í sjónmáli.“
Hann segir að nú liggi fyrir að í Hvassahrauni séu „glórulaus“ áform um vara- og neyðarflugvöll sem samt er haldið áfram með.
„Íþróttafélagið Valur hefur með miskunnarlausum ásetningi haldið áfram að sækja leyfi til að byggja blokkir til að eyðileggja flugvöllinn, og byggingarnar eru farnar að ögra með sviptivindum flugi á flugbrautinni þeirri einu sem opin er. Svo stendur til að þrengja svo um munar að flugvellinum með risablokkum í Skerjafirði, borgin með ráðherraleyfi sem ber að afturkalla.“
Hann heldur áfram að mæra Einar í grein sinni.
„Loksins tókst þér Einar Þorsteinsson, á neyðarstundu þegar aðflugi að flugvellinum, neyðarbrautinni, er lokað, að fá liðið í borgarstjórninni til að skipta um skoðun, já eða þora ekki annað en að taka sjúklinga fram yfir tré. Skógarhöggið er hafið og öll þessi tré eiga að fara og byggja útivistarsvæði með göngubrautum, birkitrjám og blómum.“
Guðni segir að augu manna séu að opnast.
„Forsætis-, umhverfis- og orkumálaráðherra eru gengin í lið með Einari og krefjast aðgerða. Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra hefur talað skýrast allra ráðherra fyrr og síðar, burt með trén. Margir eru sökudólgar í máli flugvallarins en einn mann ber þar hæst, hann ætti að spyrja í dagsbirtu hvaða skoðun hann hafi á hinni miklu neyðaraðgerð að höggva skóginn við þær aðstæður sem nú blasa við, eða lokun neyðarbrautarinnar? Og annarri enn mikilvægari neyðarbraut var áður fórnað og lokað.“
Hann óskar Einari að lokum til hamingju og segir að það sé stálvilji og virðingarvert að hverfa frá völdum og neita að bera ábyrgð þar sem „harmleikur getur átt sér stað á hverri stundu“ á skertum öryggisflugvelli Íslands í Reykjavík.
„Ég vildi ekki bera ábyrgð á þeirri stöðu. En þú lesandi minn?,“ spyr Guðni sem hvetur fólk svo til að lesa frásögn Björns Sigurðar Jónssonar sem segir að hann væri ekki á lífi í dag ef Reykjavíkurflugvöllur væri ekki þar sem hann er. DV fjallaði um málið í vikunni og má lesa umfjöllunina hér að neðan.
„Ef ég hefði verið tveimur mínútum seinna á ferðinni hefði það verið of seint“