fbpx
Laugardagur 15.febrúar 2025
Fréttir

Fetta fingur út í skipun Brynjars Níelssonar – „Í raun getur nefndin komist að nánast hvaða niðurstöðu sem er“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 14. febrúar 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynjar Níelsson, fyrrum þingmaður, hefur verið settur í embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur til eins árs. Þessi ákvörðun hefur valdið töluverðu fjaðrafoki, einkum sökum þeirrar afstöðu sem Brynjar hefur gjarnan tekið sér í opinberri umræðu hvað varðar kynferðisbrot, metoo-hreyfinguna og femínisma. Heimildin birti í dag bæði frétt og leiðara þar sem gerðar eru athugasemdir við skipun Brynjars.

Metið til tekna nú en ekki áður

Samkvæmt frétt Aðalsteins Kjartanssonar, hjá Heimildinni, þótti hæfnisnefnd, sem lagði mat á þrjá umsækjendur, það gera Brynjar hæfastan í embættið að hann hefði reynslu af pólitískum aðstoðarmannastörfum og reynslu frá því fyrir aldamótin af því að semja dóma sem fulltrúi borgarfógeta. Hann hafði þó minni menntun en aðrir umsækjendur. Eins þótti Brynjar hafa meiri reynslu af stjórnsýslu en aðrir og var þar talið  honum til tekna að hafa starfað fyrir borgarfógeta og setið sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, sem og sem sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Var reynsla Brynjars metin meiri en annars umsækjanda, Sindra M. Stephensen, sem hefur þó setið í kærunefnd útlendingamála, nefnd um dómarastörf, sem varamaður í áfrýjunarnefnd neytendamála og sem varaformaður í stjórn Persónuverndar. Til viðbótar hefur Sindri verið formaður nefndar sem metur lausn embættismanna frá störfum um stundarsakir og eins hefur hann starfað sem settur dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur síðan í apríl á síðasta ári. Hæfnisnefnd lagði þessa dómarareynslu Sindra að jöfnu við störf Brynjars hjá yfirborgarfógeta á árunum 1986-1991, en Heimildin rakti að þessi sama reynsla Brynjars var þó ekki talin honum til tekna árið 2012. Þá hafði Brynjar sótt um embætti héraðsdómara og hæfnisnefnd þótti áðurnefnd reynsla ekki jafngilda dómarastörfum að ráði.

Brynjar þótti þó hæfari þar sem hann hafði unnið lengur í stjórnsýslunni að aðalstarfi. Eins þótti hann hafa meiri stjórnunarreynslu þar sem hann hafði starfað sjálfstætt sem lögmaður í 22 ár og verið skipaður í stjórnir ýmissa félaga og fyrirtækja.

Eins og það sé alltaf verið að ljúga

Ritstjóri Heimildarinnar, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, rekur í leiðara sínum að Brynjar hafi ítrekað gert lítið úr kynferðisbrotum gegn konum í opinberri umræðu. Hann hafi gert lítið úr sálfræðimötum þar sem þolendur eru greindir með áfallastreitu, látið að því liggja að konur séu að ljúga til um kynferðisbrot í sumum tilvikum til að fela framhjáhald og að það sé jafn alvarlegt, ef ekki verra, að vera ranglega sakaður um nauðgun og að verða fyrir slíku broti.

„Enn einu sinni: Eins og það sé alltaf verið að ljúga,“ skrifar Ingibjörg og bendir á að fáir hafi jafnmikla reynslu af því að verja kynferðisbrotamenn en Brynjar. Leiðarinn hefst á upprifjun á máli lögmannsins Robert Downey sem var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn unglingsstúlkum en hlaut síðar uppreist æru. Þá var Brynjar formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem tók að sér málsmeðferðina hvað varðaði uppreist æru Róberts.

„„Það eru til alvarlegri brot heldur en þessi gagnvart börnum,“ sagði Brynjar Níelsson, þáverandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Þegar nefndin tók málsmeðferðina fyrir misbauð minnihlutanum framganga formannsins svo að eftir fundinn lýsti þingmaður vantrausti á hann. Meðal annars vegna þess að nefndarmenn voru látnir undirgangast trúnaðarskyldu um upplýsingar um málsmeðferðina, á þeim forsendum að í gögnum málsins væri að finna viðkvæmar heilsufarsupplýsingar. Það reyndist ekki rétt, en þá var það orðið of seint. Meirihluti nefndarinnar, undir formennsku Brynjars, gekk síðan út þegar gögnin voru lögð fram og neitaði að skoða þau. Eftir það var hann settur af sem formaður nefndarinnar.

Síðar kom í ljós að Brynjar þekkti og hafði unnið mikið fyrir einn þeirra manna sem mælti með því að Róbert Downey fengi uppreist æru. Og báðir höfðu þeir, Brynjar og Róbert, unnið fyrir nektardansstaðinn Bóhem á sínum tíma.

„Af hálfu brotaþola hefur þessi málflutningur verið óþolandi, íþyngjandi og skert lífsgæði þeirra.“ Með þessum orðum lýsti faðir stúlkunnar áhrifunum af orðum Brynjars.“

Síðar kom á daginn að faðir Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, hafði mælt með því að Hjalti Sigurjón Hauksson fengi uppreist æru, en Hjalti hafði verið dæmdur fyrir að hafa brotið nær daglega gegn stjúpdóttur sinni í 12 ár.

Gagnrýnin ekki metin en Bridge tekið með í reikninginn

Ingibjörg rekur að þessi atriði hafi ekki komið til skoðunar hjá hæfnisnefndinni sem mat Brynjar hæfastan. Þess heldur var mikið týnt til svo hægt væri að rökstyðja hæfni Brynjars umfram aðra umsækjendur, svo sem að hann sé forseti Bridgesambands Íslands, hann hafi setið í áfrýjunardómstól KSÍ og í stjórnum knattspyrnu- og körfuknattleiksdeildar Vals.

Ingibjörg bendir á að samkvæmt rannsókn á störfum hæfnisnefndar væru vísbendingar um að körlum væri hampað á kostnað kvenna, svo sem við mat á vægi aukastarfa. Til dæmis þótti í einu tilviki þátttaka í óbyggðanefnd vega meira en þátttaka í úrskurðarnefnd um barnaverndarmál.

„Með öðrum orðum: Niðurstöður dómnefndar um hæfi dómara eru ekki óskeikular. Í raun getur nefndin komist að nánast hvaða niðurstöðu sem er.“

Ingibjörg segir að á sama tíma sé einmitt áhugavert að velta fyrir sér því sem hæfnisnefndin lítur framhjá. Eins og til dæmis það að Brynjar var settur af sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vegna framgöngu sinnar, eða það að almenningur stofnaði til undirskriftasöfnunar til að mótmæla skipun hans sem aðstoðarmanns dómsmálaráðherra.

Björn Leví Gunnarsson, fyrrum þingmaður Pírata, fjallar einnig um skipun Brynjars í færslu á Facebook í dag. Þar spyr hann: „Er góður dómari sá sem er ekki hæfastur, en er náskyldur æðstu valdamönnum?“.

„Nú ætla ég ekki að fella neinn dóm um þetta. Ég er bara að benda á tilvitnun í þennan blessaða dómara um sjálfan sig. Að gleypa æluna í staðinn fyrir að standa með eigin sannfæringu finnst mér einfaldlega vera góð heimild um að ég myndi ekki treysta honum sem dómara í máli gegn mér.

Þetta er bara mín persónlega skoðun. Fólki er frjálst að hafa aðra skoðun á þessu auðvitað. En dómari sem gleypir æluna til þess að þjónkast er ekki hæfur sem slíkur að mínu mati.“

Brynjar Níelsson skrifaði í dag á Facebook að þar sem hann er orðinn dómari hafi hann takmarkað málfrelsi hans á opinberum vettvangi sem og þátttöku í pólitísku starfi. Hann ætli að fara eftir þessum skráðu og óskráðu reglum. Hann minnist á gagnrýnina sem skipun hans hefur fengið en segir slíkar fullyrðingar blöndu af upplýsingaóreiðu og falsfréttum. Honum beri sem dómara að fara einungis eftir lögum í starfi sínu en ekki eftir eigin skoðunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Framkvæmdastjóri Colas ómyrkur í máli um íslenska vegakerfið – „Svo er sérfræðingurinn hissa á ástandinu“

Framkvæmdastjóri Colas ómyrkur í máli um íslenska vegakerfið – „Svo er sérfræðingurinn hissa á ástandinu“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Gamli formaðurinn ánægður með Einar – „Hann er flestum stjórnmálamönnum fremri“

Gamli formaðurinn ánægður með Einar – „Hann er flestum stjórnmálamönnum fremri“
Fréttir
Í gær

Brimbrettafólk vann orrustuna en stríðinu um Þorlákshafnarhöfn er hvergi nærri lokið

Brimbrettafólk vann orrustuna en stríðinu um Þorlákshafnarhöfn er hvergi nærri lokið
Fréttir
Í gær

Segir fimm 12 ára drengi halda Breiðholtsskóla í heljargreipum

Segir fimm 12 ára drengi halda Breiðholtsskóla í heljargreipum