fbpx
Laugardagur 15.febrúar 2025
Fréttir

Bæjarstjóri segir fólk fresta læknisheimsóknum – „Það hafa ekki allir getu eða fjárráð til að verka bílana sína eftir svona ferðalag“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 14. febrúar 2025 16:30

Bæjarstjórn Grundarfjarðar er búin að fá nóg. Myndir/Tómas Freyr Kristjánsson/Grunarfjarðarbær.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðar, segir að Snæfellingar hafi fengið nóg vegna ástandi þjóðveganna og bikblæðinga.

„Ástand þjóðveganna okkar hefur sjaldan verið verra,“ segir Björg í færslu á samfélagsmiðlum. „Vegirnir eru okkar lífæðar, nauðsynlegir grunninnviðir svo við getum stundað vinnu, sótt skóla og tómstundir, ferjað fólk og vörur, flutt verðmætin sem hér verða til, nýtt okkur þjónustu sem komið hefur verið fyrir á höfuðborgarsvæðinu og margt fleira.“

Tilefnið er nýleg tilkynning um hættustig vegna bikblæðinga víða á Vesturlandi. Hafa meðal annars þyngri bílum verið bannað að aka um ákveðna vegi.

Björg segir að vegirnir séu líflínur, þegar alvarleg veikindi eða slys verði er líf fólks í höndum þjálfaðs heilbrigðisstarfsfólks, sjúkrabíla og búnaðar. Hins vegar séu þessar líflínur vanhirtar og laskaðar.

„Slæmir og ónýtir vegir, holóttir, ósléttir, sem ata tjöru á bíldekkin, svo akstur verður hættulegur. Hvernig fer neyðarakstur fram á slíkum „vegum“?“ spyr Björg.

Dýrt spaug

En þetta snýst ekki aðeins um öryggi sjúkrabíla heldur flutningabíla, skólabíla, rúta, ungra ökumanna, ferðamanna og allra hinna.

„Sum okkar þekkja holurnar og brotnu kantana, vitum hvar þarf að hægja á, passa sig – aðrir ekki,“ segir hún og reifar að íbúar hafa nú verið að birta ófallegar myndir af vegunum. „Fólkið okkar hefur þegar orðið fyrir umtalsverðu fjártjóni; bikaðir bílar, brotnar rúður, beyglaðar felgur. Tafir. Tjöruþvottur. Tjónaskýrslur. Sjálfsábyrgð. Þungatakmarkanir, sem þýðir minni farmur, sem þýðir fleiri ferðir, sem þýðir meiri kostnaður.“

Vegna frétta af hættustigi vegna bikblæðinga veigri fólk sér við því að vera á ferðinni, sleppir að fara með bílinn í skoðun eða slær af læknisferðir. Þetta snýst um peninga. „Það hafa ekki allir getu eða fjárráð til að verka bílana sína eftir svona ferðalag. Nóg var nú fyrir samt,“ segir hún.

Rennur ofan í niðurföllin

Nefnir hún að nú sé verið að hreinsa bik af vegunum, tjöru sem sé óhreinasta olíuafurðin. Fleiri hundruð tonnum sé ýtt út í vegkanta. Efni sem var klætt ofan í vegina fyrir örfáum mánuðum. Spyr hún um umhverfisáhrifin af þessu. Olían renni niður í niðurföllin ásamt sprittinu sem losar hana.

„Auðvitað viljum við ekkert auglýsa þetta of mikið, hampa veikleikum svæðisins sem setja mínus í bókhald búsetugæðanna, draga úr líkum á því að fólk vilji búa hér – treysti sér til þess,“ segir Björg. „En það er löngu komið að þeim tímapunkti að ástandið auglýsir sig sjálft. Hrópar á athygli!“

Álykta á hverjum fundi

Segir hún að innviðaskuldin sé há og að í samgönguáætlun sé litlar vegabætur fyrir svæðið í kortunum nema eftir áratug eða svo. Sem betur fer sé áætlunin ekki farin í gegnum þingið því að henni þurfi að breyta.

„Í mörg ár hafa bæjarstjórnir, einar sér og saman, rætt og ályktað um bágborið ástand þjóðveganna á okkar svæði. Bréf hafa verið skrifuð, fundir setnir, ástand metið, samtöl tekin, myndir birtar, fjölmiðlum svarað – og allt síðan endurtekið,“ segir Björg og nefnir að bæjarstjórn Grundarfjarðar hafi ákveðið að álykta á hverjum einasta fundi þar til bragarbót er unnin á. „Ein ályktun er kannski ekki mikið, en það er yfirlýsing. Ákall. Um að fólkið okkar sé búið að fá nóg!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Framkvæmdastjóri Colas ómyrkur í máli um íslenska vegakerfið – „Svo er sérfræðingurinn hissa á ástandinu“

Framkvæmdastjóri Colas ómyrkur í máli um íslenska vegakerfið – „Svo er sérfræðingurinn hissa á ástandinu“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Gamli formaðurinn ánægður með Einar – „Hann er flestum stjórnmálamönnum fremri“

Gamli formaðurinn ánægður með Einar – „Hann er flestum stjórnmálamönnum fremri“
Fréttir
Í gær

Brimbrettafólk vann orrustuna en stríðinu um Þorlákshafnarhöfn er hvergi nærri lokið

Brimbrettafólk vann orrustuna en stríðinu um Þorlákshafnarhöfn er hvergi nærri lokið
Fréttir
Í gær

Segir fimm 12 ára drengi halda Breiðholtsskóla í heljargreipum

Segir fimm 12 ára drengi halda Breiðholtsskóla í heljargreipum