fbpx
Fimmtudagur 13.febrúar 2025
Fréttir

Síbrotamaðurinn Beggi litli, sem gerði garðinn frægan sem strokufangi um aldamótin, fær enn einn dóminn

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 13. febrúar 2025 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorbergur Bergmann Halldórsson, einnig þekktur sem Beggi litli, hefur enn og aftur hlotið óskilorðsbundin fangelsisbrot fyrir smáglæpi en Beggi litli hefur verið þekktur sem síbrotamaður á Íslandi í tæp 30 ár eftir að hann var fyrst sakfelldur árið 1997, þá aðeins 16 ára gamall. Hann vakti sérstaklega athygli um aldamótin þegar hann strauk ítrekað úr afplánun og gerði svo grín að lögreglunni fyrir að hafa ekki fundið hann á meðan hann faldi sig í kompu í Landssímahúsinu.

Þjófnaður:

Fyrir að hafa árið 2022, í félagi við þekktan aðila, brotist inn í bifreið á bifreiðastæði í Reykjavík með því að brjóta hliðarrúðu bifreiðarinnar og stolið þaðan Rayban sólgleraugum, tveimur Samsung spjaldtölvum, radarvara og 20 þúsund krónum.

Fyrir að hafa árið 2022, í félagi við þekktan aðila, brotist inn í bifreið í eigu fyrirtækis og stolið þaðan sláttuorfi og N1-korti.

Fyrir að hafa árið 2024 farið inn um glugga í húsnæði í Reykjavík og stolið rafmagnsreiðhjóli, reiðhjólatösku og hleðslulampa.

Fyrir að hafa stolið kjötvörum og tveimur samlokum, samtals að verðmæti um 17 þúsund krónur, úr verslun í Reykjavík.

Fyrir að hafa farið árið 2024 inn um ólæsta hurð að skrifstofu í Reykjavík og stolið þaðan Apple fartölvu, takkaskóm og iPhone farsíma.

Fyrir að hafa árið 2024 brotist inn í bifreið með því að brjóta glugga í framhurð og stolið þaðan skóm.

Fyrir að hafa farið, árið 2024, inn um opna hurð á starfsmannarými verslunar í Reykjavík og stolið þaðan svartri hliðartösku, Guess veski, greiðslukortum, ökuskírteini, kveikjuláslyklum og húslyklum.

Fyrir að hafa árið 2024 í Reykjavík stolið verðmætu rafmagnshjóli að verðmæti 1,5 milljón króna.

Fyrir að hafa árið 2024 farið inn um opna hurð í Reykjavík og stolið tveimur pörum af Nike Air Force-skóm og einu pari af Nike Jordan-skóm.

Fyrir að hafa árið 2024 rifið upp læsta hurð á bakhúsi í Reykjavík og stolið þaðan Canada Goose úlpu, Calvin Klein úlpu, Pele Che Coco leðurjakka og Tinds flíspeysu.

Gripdeild:

Fyrir að hafa árið 2024 tekið fimm bjórföskur í verslun í Reykjavík og gengið svo út án þess að borga.

Fyrir að hafa árið 2024 farið í verslun í Reykjavík, tekið tvo poka af harðfiski og fæðubótarefni og gengið út án þess að borga.

Fyrir að hafa gengið, árið 2024, út úr verslun í Reykjavík með vínfölsku án þess að borga.

Fyrir að hafa, árið 2024, tekið silfraðan jakka og fjórar húfur í verslun í Reykjavík og gengið út án þess að borga.

Eignaspjöll:

Fyrir að hafa árið 2024, fyrir utan verslun í Reykjavík, tekið upp auglýsingaskilti og kastað því í bifreið með þeim afleiðingum að sprunga myndaðist í framrúðu bifreiðarinnar og vélarhlíf beyglaðist.

Brot gegn lögreglulögum:

Fyrir að hafa í gistiskýli í Reykjavík árið 2024 óhlýðnast fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa húsnæðið, veitt mótspyrnu og reynt að sporna við handtöku.

Fyrir að hafa, eftir að hann kastaði auglýsingaskilti í bifreið, óhlýðnast fyrirmælum lögreglu og reynt að sporna við handtöku með því að flýja af vettvangi og á sama tíma haft í vörslum sínum eina töflu af Rítalín.

Brot gegn vopnalögum:

Fyrir að hafa árið 2024 fyrir utan veitingastað í Reykjavík haft dúkahníf í vörslum sínum.

Þorbergur játaði sök skýlaust. Fram kom í dómi að hann á langan sakferil að baki sem nær allt aftur til ársins 1997. Hann var síðast dæmdur í febrúar 2023 í 19 mánaða fangelsi fyrir ýmis brot. Að þessu sinni var hann dæmdur í 14 mánaða fangelsi og ekki þótti unnt að skilorðsbinda refsinguna í ljósi sakaferils. Gæsluvarðhald frá 1. nóvember dregst frá refsingunni. Hann þarf einnig að greiða verjanda sínum um 1,1 milljón að meðtöldum virðisaukaskatti.

Langur brotaferill Begga litla

Þorbergur var aðeins 18 ára gamall þegar fjölmiðlar fóru að fjalla um hann sem síbrotamann og hefur hann á þeim tæpu 30 árum síðan hann hlaut sinn fyrsta dóm verið sakfelldur fyrir gífurlegan fjölda hegningarlagabrota, helst þjófnað og önnur auðgunarbrot.

Árið 2009 greindi DV frá því að Þorbergur hefði framið 50 afbrot þrátt fyrir að vera á reynslulausn. Þá ræddi DV við Geir Jón Þórisson, þáverandi yfirlögregluþjón, sem sagði lögregluna ekki hafa heimild til að aðhafast vegna síbrotamanna. Lögregla gæti ekkert gert nema fá dómstóla til að úrskurða slíka menn í síbrotagæslu, en dómarar væru þó ekki hrifnir af slíku úrræði. Hann sagði vandann vera þann að þegar menn eru alvarlega veikir af fíkn þá fjármagni þeir fíknina gjarnan með brotum.

„Þetta er samfélagslegt vandamál og menn geta á örskömmum tíma safnað á sig ógrynni af dómsmálum. Það er keppt að því að koma málum þeirra sem fyrst fyrir dómstóla.“

Árið 2000 komst Þorbergur í fréttir eftir að hann strauk í annað sinn úr afplánun. Þá strauk hann frá fangavörðum við hús Héraðsdóms Reykjavíkur milli jóla og nýárs 1999. Þorbergur ræddi við DV þar sem hann furðaði sig á því hversu auðvelt það var að strúka. Hann faldi sig í Landssímahúsinu og varðist þar bæði lögreglumönnum og sérþjálfuðum sporhundum.

„Ég hélt það ætti ekki að vera hægt að komast svona undan,“ sagði Beggi við DV en lögregla leitaði hand í Landssímahúsinu en kompan, þar sem hann faldi sig í fjóra tíma. fór framhjá henni.

Hann sagði að markmiðið með því að strjúka hafi verið að halda upp á áramótin – það tókst honum. Málið varð þó til þess að saklaus þriggja barna móðir lenti í hremmingum. Lögreglan hélt hún væri Beggi litli, handtók hana og fékk hún að dúsa fjórar klukkustundir í haldi þar til hinn raunverulegi Beggi var handtekinn.

Þorbergur bætti svo þriðja strokinu við árið 2001 þegar hann vann það einstaka afrek að strjúka af Litla-Hrauni á mettíma. Hann sveiflaði sér yfir tvöfalda varnargirðingu á aðeins 10 sekúndum án þess að snerta gaddavírinn. Hann tók svo til fótanna og stefndi til Reykjavíkur en náðist þó á Eyrarbakka. Hann greindi frá afrekinu í bréfi sem hann sendi úr einangrun í kjölfar flóttatilraunarinnar og bað til keðju til allra sem hann þekkti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt