Samúel Jói Björgvinsson hlaut í dag þriggja og hálfs árs fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Tvíburabræðurnir Elías og Jónas Shamsudin fengu hvor um sig tveggja og hálfs árs dóm í sama máli. Vísir.is greinir frá.
Mennirnir voru sakaðir um að hafa í félagi um nokkurt skeið fram til 2. október 2024 geymt tæplega 3 kg af MDMA kristöllum og tæplega 1.800 MDMA töflur í skrifstofuhúsnæði að Bæjarlind 2 í Kópavogi. Efnin voru ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.
Miðvikudagskvöldið 2. október 2024 komu sakborningarnir í húsnæðið til að sækja efnin en lögreglan hafði áður skipt kristöllunum út fyrir gerviefni.
Einn sakborninganna, Elías Shamsudin, er margdæmdur brotamaður. Lögregla hefur lengi fylgst með honum en það kom fram í frétt Stöðvar 2 og Vísis árið 2022 að lögregla hefði hlerað síma hans um 100 sinnum. Hins vegar láku úrskurðir um heimildir til hlerunar á síma hans til hans og vissi því Elías af því að verið væri að hlera hann.
Elías hefur brotasögu allt frá 15 ára aldri, fyrir þjófnað, fjárdrátt, hraðakstur, fjársvik, eignaspjöll, líkamsárás og fíkniefnabrot, meðal annars fíkniefnainnflutning.