„Ég sat í sófanum heima að kvöldi þegar yfir mig helltist sú tilfinning að ég hreinlega bugaðist. Tárin runnu fram og ég mátti mín lítils. Þannig sat ég fram á nóttina og gerði mér þá strax grein fyrir að ég væri kominn á stað í lífinu þar sem ég ætti ekki að reyna einn að vaxa út úr vandanum, heldur leita mér aðstoðar.“
Strax daginn eftir upplýsti hann yfirmann sinn, Grím Hergeirsson lögreglustjóra, um stöðu mála og var þá kominn í veikindaleyfi.
„Strax í kjölfarið sendi ég tölvupóst til samstarfsfólks míns um hvað væri að. Taldi slíkt vera mjög mikilvægt svo engin leyndarmál væru í gangi,“ segir Oddur meðal annars í viðtalinu.
Það getur tekið mikið á að vera í lögreglunni, ekki síst sem yfirmaður en Oddur er fráfarandi yfirlögregluþjónn á Selfossi. Þar áður starfaði hann í 18 ár á Vestfjörðum. Hann hefur gengið í gegnum ýmislegt sem lögreglumaður á þessum tíma og má þar nefna snjóflóð, banaslys í umferðinni, andlát, sjálfsvíg og alvarleg veikindi.
Í viðtalinu segir Oddur að allt sé þetta mál sem hafi reynt á hann en ef til vill meira en hann taldi sjálfur.
„Mér fannst ég kunna þetta allt og geta. En svo hrundi eitthvað, án þess að neitt eitt hafi valdið því,“ segir Oddur meðal annars í viðtalinu sem má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.