Jón Viðar Jónsson, einn þekktasti gagnrýnandi þjóðarinnar, er ekki búinn að gleyma árás Reykjavíkurborgar á Borgarskjalasafnið, en hann segir eina manneskju hafa staðið í fæturna í því máli og sú sé vel að því búin að verða næsti borgarstjóri.
Borgarráð samþykkti vorið 2023 að leggja Borgarskjalasafn niður með vísan í hagræðingu. Þessi ákvörðun var harðlega gagnrýnd og skildi marga eftir í sárum.
Jón Viðar skrifar nú á Facebook að hann hafi opinberlega barist gegn þessu skemmdarverki og þar fylgst náið með framgöngu borgarfulltrúa. Þar hafi Sanna Magdalena Mörtudóttir tekið afdráttarlausa afstöðu með safninu. Það sé svona fólk sem er treystandi að stýra borginni enda borgarbúar komnir með nóg af þeim sem hafa gert það undanfarið.
„Mér líst afar vel á að Sanna verði næsti borgarstjóri. Þegar Dagur B. sýndi innræti sitt, að ekki sé minnst á menningarstigið (reyndar ekki í fyrsta sinn sem hann gerði það) og hóf sína fólskulegu árás á Borgarskjalasafnið, eina elstu og mikilvægustu stofnun Reykjavíkur, var ég einn í þeim velskipaða hópi sem barðist opinberlega gegn skemmdarverkinu og fylgdist því náið með framgöngu borgarfulltrúa. Sanna setti sig vel inní málið, tók afdráttarlausa afstöðu með safninu og skrifaði vandaða greinargerð um það. Svo er hún vel máli farin og kemur ágætlega fyrir í ræðustól og viðtölum. Það er svona fólk sem ég treysti til að stýra borginni. Við höfum fengið nóg, og það miklu meir en nóg, af hinu.“