Þetta segir Guðmundur Víglundsson, tæknifræðingur og Hafnfirðingur, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar skrifar hann um áform Carbfix um að koma upp Coda Terminal á Völlunum í Hafnarfirði.
Um er að ræða afar umdeilt verkefni og hafa íbúar í Hafnarfirði látið til sín taka vegna málsins. Í stuttu máli gengur verkefnið út á að dæla miklu magni koltvísýrings í jörðu í Straumsvík og næsta nágrenni. Hafa íbúar lýst yfir áhyggjum sínum af óvissu varðandi verkefnið og hugsanlegra áhrifa á umhverfið.
Guðmundur segir að verkefnið hljómi eins og mikilvæg loftslagsaðgerð, en nýjar upplýsingar í málinu veki áleitnar spurningar um umfang verkefnisins, umhverfisáhrif og skort á gagnsæi í kynningu þess fyrir íbúum.
Vísar hann meðal annars í umfjöllun Heimildarinnar í janúar og segir að samkvæmt henni séu allt önnur áform hjá Carbfix varðandi Coda Terminal-verkefnið.
„Samkvæmt upplýsingum úr kynningargögnum Carbfix sem unnin voru af bandaríska bankanum Morgan Stanley fyrir væntanlega fjárfesta árið 2023 kemur fram að sækja eigi um nýtt umhverfismat árið 2026 þar sem hámarksmagn á niðurdældu koldíoxíði er ekki 3 milljónir tonna heldur 4,8 milljónir tonna,“ segir Guðmundur og bætir við að í sömu fjárfestagögnum komi fram að Coda Terminal í Hafnarfirði sé fyrsta af fjórum sambærilegum stöðvum sem Carbfix vill reisa á Íslandi. Verkefni séu þegar í undirbúningi í Þorlákshöfn, Helguvík og hugsanlega á Húsavík.
„Ef íbúar Hafnarfjarðar samþykkja verkefnið má búast við að það verði notað sem fordæmi fyrir önnur svæði. Spurningin er því ekki aðeins hvort Hafnfirðingar vilja þetta verkefni í sínu bæjarfélagi, heldur hvort Íslendingar almennt séu tilbúnir að samþykkja að milljónum tonna af CO2 verði dælt niður í jörðina víðs vegar um landið.“
Segir Guðmundur að Carbfix hafi verið að reyna að leyna bæjarstjórn og íbúa í Hafnarfirði því hver stærð Coda Terminal-verkefnisins er í raun.
„Ótti Hafnfirðinga er að raungerast þar sem draga á þá ákvörðun bæjarstjórnar á langinn að leyfa íbúum að kjósa, þar til niðurstaða Skipulagsstofnunar liggur fyrir. Nú liggja stjórnendur Carbifix á bæn um að þeir fái jákvætt umhverfismat og geti sagt Hafnfirðingum að þeir séu ekki umhverfisvænir ef þeir hafna verkefni sem stuðlar að því að stöðva hlýnun jarðar.“
Guðmundur hefur áður látið að sér kveða í umræðum um Coda Terminal og ítrekar hann spurningu sem hann hefur áður varpað fram: „Hvaða umhverfissinna dettur í hug að dæla snefilefnum sem eru ekkert annað en eitur undir íbúðarbyggð? Þá myndu þau aukast úr 15,6 tonnum í 25 tonn á dag.“
Guðmundur bendir á að nota eigi gríðarlegt magn a grunnvatni sem rennur frá Kaldárbotnum undir hrauni að ströndinni við Straumsvík og skapar eina af mikilvægustu aðstæðum fyrir hrygningarstöðvar í Faxaflóanum. Nefnir hann að ferskvatn sé nú þegar ein mikilvægasta auðlind fyrir líf á jörðinni. Þá bendir hann á að það magn rafmagns sem þarf í verkefnið sem og heita vatnið.
„Eitt það alvarlegasta í þessum nýju upplýsingum er að það er ekki einungis búið að leyna bæjarstjórn staðreyndum málsins, en hún hefur verið mjög hlynnt verkefninu frá upphafi, heldur er einnig reynt að afvegaleiða alla umræðu gagnvart íbúum Hafnarfjarðar. Við megum ekki láta fjárhagslega hagsmuni stórfyrirtækja og erlendra fjárfesta ráða för án þess að tryggt sé að umhverfið, samfélagið og börnin okkar séu ekki í hættu.“
Grein sína endar Guðmundur á þessum orðum:
„Íbúar Hafnarfjarðar og aðrir landsmenn eiga rétt á hreinskilinni umræðu og skýrum upplýsingum áður en tekin er ákvörðun sem getur haft áhrif á náttúru, samfélag og lífsgæði þeirra um ókomna tíð. Hver ber ábyrgðina ef eitthvað fer úrskeiðis? Carbfix talar um vöktun en hvað gerir vöktun þegar skaðinn er skeður? Gerum Ísland betra og gerum það saman.“