Fjölmargir minnast Björgólfs í Morgunblaðinu í dag og er sonur hans, Björgólfur Thor, í þeim hópi. Hann minnist föður síns með mikilli hlýju og segir að hann hafi verið höfðingi í elstu merkingu þess orðs: sem foringi ættbálks og örlátur maður.
„Hann var bæði örlátur og greiðvikinn og leituðu ótal manns aðstoðar hans þegar kom að ráðum eða nauð. Hann leysti glaður úr vanda þessa fólks með visku sinni eða gjafmildi,“ segir Björgólfur Thor sem sjálfur kveðst hafa furðað sig á þeim fjölda ókunnugs fólks sem komið hefur að honum í gegnum tíðina til að deila slíkum frásögnum.
„Þetta var einn fjölmargra eiginleika sem gerðu mig stoltan af því að geta kallað þennan yndislega stóra karakter, sem gustaði af hvert sem hann kom; pabba. Að alast upp með hann sem fyrirmynd var í senn gefandi og veitti mér gífurlegan innblástur inn í framtíðina.“
Björgólfur Thor segir í grein sinni að faðir hans hafi hvatt hann til mennta en einnig til að leita lengra og freista þess að blómstra í stærra umhverfi á alþjóðavettvangi.
Hann rifjar svo upp náið samstarf þeirra í viðskiptum og viðurkennir að stundum hafi þeir tekist á um ýmsa hluti. „Ávallt leystum við þó úr því með því að vera sammála um að vera ósammála, enda virðing okkar og væntumþykja, hvor fyrir öðrum ætíð óyggjandi,“ segir Björgólfur Thor meðal annars.
Í lok greinar sinnar segir Björgólfur Thor að hann hafi aldrei kynnst manneskju sem átti auðveldar með að hrífa fólk með sér.
„Í þeim efnum mun ég aldrei komast með tærnar þar sem hann var með hælana; en hann mun alltaf vera mér innblástur. Ég hugsa oft til þessa og finn þá að innst inni er ég ennþá sami litli strákurinn sem lítur upp til pabba síns með aðdáun og stolti. Þannig muntu ávallt lifa í minningum mínum, elsku pabbi.“