fbpx
Miðvikudagur 12.febrúar 2025
Fréttir

Mennta- og barnamálaráðherra í mál við ríkið og krefst rúmlega tíu milljóna króna

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 12. febrúar 2025 10:00

Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, nýskipaður mennta- og barnamálaráðherra, og eiginmaður hennar, Hafþór Ólafsson, standa í ströngu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en aðalmeðferð er í máli þeirra gegn ríkinu þar sem þau krefjast endurgreiðslu á meintum fyrndum vöxtum sem greiddir voru Arion banka við nauðungarsölu á húsi hjónanna árið 2017.

Hinn 19. apríl 2017 var fasteign þeirra hjóna seld nauðungarsölu að beiðni Arion banka hf.  Frumvarp að úthlutun söluandvirðis lá fyrir hinn 18. desember 2017 og gerði frumvarpið ráð fyrir að Arion banki fengi 60 milljónir króna upp í tvo veðskuldabréf á 1. og 2. veðrétti en innifaldar í þeirri fjárhæð voru 4.173.515 kr. í eftirstæða dráttarvexti vegna veðbréfsins á 1. veðrétti.

Ásthildur og Hafþór málsins mótmæltu frumvarpinu og kom þá ný sundurliðun frá bankanum sem var ólík upphalegri kröfulýsingu. Í nýju sundurliðuninni var höfuðstóll lánanna lægri en krafist var eftirstæðra krafna, þ.m.t. eftirstæðir óverðtryggðir vextir Seðlabanka Íslands.

Stefnendur telja að hluti þessara vaxta hafi verið fyrndur og því hafi sýslumaður átt að vísa kröfu um þá frá. Það hafi hann ekki gert og bankinn því fengið ofgreitt sem nemur 10,6 milljónum króna.

Í kjölfarið báru stefnendur málið undir dómstóla en í þeim málarekstri reyndi ekki á fyrningu vaxtanna. Stefnendur kláruðu allar kæruleiðir en málinu lauk svo með sátt við bankann. Í þessu máli er látið reyna á málsástæðu um fyrningu sem ekki hefur áður verið leyst úr.

Lögmaður hjónanna í málinu er Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður en hann tók við málinu hvað varðar þetta dómsmál eftir að upp úr slitnaði með stefnendum og fyrri lögmanni þeirra.

Löng barátta

Barátta hjónanna við Arion banka hefur staðið yfir allar götur frá haustinu 2016 er beiðni um nauðungarsölu á húseign þeirra barst frá Arion banka. Þá þegar mótmæltu þau útreikningum bankans á vöxtum.

Sættir hafa náðst við bankann en eftir stendur krafa stefnenda varðandi meinta fyrnda, ofgreidda vexti.

Mikil upphæð fyrir venjulegt fólk

Ásthildur gaf aðilaskýrslu fyrir dómi og svaraði spurningum.

Lögmaður hennar spurði hana út í aðdraganda málsins. Hún greindi frá því að húseign hennar hefði verið seld á uppboði árið 2017. Eftir söluna hafi tekið við úthlutunargerð í desember 2017. „Okkur var gefinn hálfur mánuður yfir jól og áramót til að bregðast við úthlutunargerðinni.“ – Segir hún að ekki hafi verið gert ráð fyrir fyrningu vaxta í úthlutunargerðinni upp á 10,7 milljónir króna. Hafi sýslumaður kosið að hunsa ábendingar um þetta.

„Það er ekkert grátt svæði í kringum fyrnda vexti. Annaðhvort eru þeir fyrndir eða ekki,“ sagði Ásthildur, og benti jafnframt á að sýslumaður hafi skyldu til að taka tillit til fyrningu vaxta að eigin frumkvæði, en það hafi hann ekki gert.

„Ég get alveg samþykkt að fólk geri mistök en þegar búið er að benda á mistökin þá er þetta einbeittur brotavilji,“ sagði hún.

Ásthildur og maður hennar unnu fyrst sigur í héraði en Landsréttur vísaði málinu frá og Hæstiréttur taldi hagsmunina of litla til að vilja taka málið fyrir. Ásthildur benti hins vegar á að þetta væri mikil upphæð fyrir venjulegt fólk.

Ásthildur benti á að í öllu ferlinu hafi þau hjónin aldrei fengið úrskurð um fyrnda vexti, ekki heldur frá endurúthlutunarnefnd, en þar setti Arion banki sem skilyrði að vextir væri óbreyttir. Segir Ásthildur að Arion banka hafi verið afhentir peningar sem í raun tilheyrðu þeim hjónum og þessir peningar muni aldrei verða endurheimtir frá bankanum. En brotið hafi verið á þeim. Skaðinn sem þau hafi orðið fyrir sé miklu meiri en sem nemur þessum 10,7 milljónum. Þau hafi þurft að taka aðrar ákvarðanir en ella og m.a. þurft að breyta lánum á óhagstæðan hátt.

Segir Ásthildur að ef sýslumaður hefði gert það sem hann átti að gera þá hefði ekki orðið þetta tjón. Sýslumaður hefði átt að taka tillit til fyrningu vaxta sem hann hafi ekki gert. Það sé mjög alvarlegt mál. Þess vegna beina þau kröfum sínum í málinu til ríkisins.

Benti ráðherrann á að venjulegt fólk verði að geta treyst kerfinu sem eigi að vinna fyrir fólk en ekki fjármálastofnanir.

Ásthildur segir að Arion banki hafi breytt útreikningum í nokkur skipti í kjölfar athugasemda þeirra, breytti forsendum og fært tölur á milli dálka, en ekki tekið mark á athugasemdum þeirra.

Segir hún að kerfið hafi fengið fjölmörg tækifæri til að leiðrétta mistökin. Í staðinn séu mistökin varin fram í rauðan dauðann. Segist hún ekki hafa getað sætt sig við þetta ranglæti, að kerfið verji eigin mistök með kjafti og klóm.

„Þetta er prinsippmál,“ segir Ásthildur og þar skipti peningarnir ekki mestu máli þó að vissulega vilji hún fá þá til baka.

Hún benti á að réttlætið væri dýrt og eftir að hún var kjörin á Alþingi hafi hún fremur haft efni á því að sækja málið áfram heldur en í starfi kennara, sem var hennar fyrra starf. Staða hennar sem formaður Hagsmunasamtaka heimilanna frá árinu 2017 hafi líka gefið henni aðgang að aðstoð og ráðgjöf sem hún hefði annars ekki fengið.

„Við vorum algjörlega búin á því, andlega og fjárhagslega,“ sagði hún en málið hefur tekið mikið á þau hjón og kostað mikla baráttu.

Ásthildur segir að það sem eftir standi í málinu sé að sýslumanni hafi borið að taka tillit til fyrningu vaxta en hann gerði það ekki, brást skyldu sinni. „Það er mjög súrt að hugsa til þess,“ sagði hún.

Hafþór, eiginmaður Ásthildar, sagði fyrir dómi að þau hjón hafi orðið fyrir miklum skaða þar sem úthlutunargerðin var röng, ekki var tekið tillit til fyrningu vaxta. Við það tjón bætist kostnaður af húsaleigu, vinnutap og álag vegna málaferlanna.

„Það gerir sér enginn grein fyrir því sem ekki hefur lent í þessu hvers konar álag þetta er fyrir fjölskyldu,“ sagði Hafþór.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Telur ólíklegt að Jón Þröstur hafi fyrirfarið sér

Telur ólíklegt að Jón Þröstur hafi fyrirfarið sér
Fréttir
Í gær

Þorgrímur: „Hvenær höf­um við hug­rekki til að segja: hingað og ekki lengra?“ – Þetta er það sem við verðum að gera

Þorgrímur: „Hvenær höf­um við hug­rekki til að segja: hingað og ekki lengra?“ – Þetta er það sem við verðum að gera
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Varalesari rýnir í hvað Taylor Swift sagði eftir baulið

Varalesari rýnir í hvað Taylor Swift sagði eftir baulið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Donald Trump óvæginn: „Sú eina sem átti verra kvöld en Chiefs var Taylor Swift“

Donald Trump óvæginn: „Sú eina sem átti verra kvöld en Chiefs var Taylor Swift“