fbpx
Miðvikudagur 12.febrúar 2025
Fréttir

Lög ekki brotin þegar Ástráður var skipaður

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 12. febrúar 2025 12:30

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Guðmundur Ingi Guðbrandsson þáverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra hafi ekki brotið jafnréttislög þegar hann skipaði Ástráð Haraldsson ríkissáttasemjara árið 2023.

Aldís Guðný Sigurðardóttir lektor og forstöðumaður MBA náms við Háskólann í Reykjavík kærði skipun Ástráðs í nóvember 2023 en í ágúst 2024 kvartaði lögmaður hennar opinberlega yfir því hversu langan tíma meðferð málsins tæki hjá nefndinni.

Sex sóttu um embættið þegar það var auglýst. Auk Ástráðs og Aldísar sóttu ein kona og þrír karlar um. Aðeins Ástráður og Aldís voru boðuð í viðtöl og að þeim loknum taldi hæfnisnefnd þau bæði mjög vel hæf til að gegna embættinu. Í álitsgerð nefndarinnar kom fram að Ástráður hefði meiri reynslu af og þekkingu á sáttastörfum í vinnudeilum sem settur ríkissáttasemjari um skeið. Sömuleiðis taldi nefndin Ástráð hafa dýpri og meiri þekkingu á vinnumarkaði en Aldís, meðal annars vegna setu sem dómari í Félagsdómi. Í ljósi þess taldi hæfnisnefndin að hann væri betur til þess fallinn að gegna embætti ríkissáttasemjara.

Í kjölfarið fóru bæði Aldís og Ástráður í viðtal til Guðmundar sem skipaði loks Ástráð.

Lítið gert úr henni

Aldís kærði skipanina meðal annars á þeim grundvelli að hún hafi verið hæfasti umsækjandinn og að niðurstöður hæfnisnefndarinnar hefðu verið ómálefnalagar og að ekki hefði verið sýnt fram á að annað en kyn hefði ráðið því hver var skipaður. Sagði hún að við meðferð málsins hafi vísvitandi verið gert lítið úr hæfni, reynslu og þekkingu hennar á íslenskum vinnumarkaði en að sama skapi meira úr reynslu Ástráðs á tilteknum sviðum umfram það sem efni hafi staðið til. Vildi hún einnig meina að í áltisgerð nefndarinnar hefði verið vikið frá hæfniskröfum í auglýsingu um embættið.

Í kæru Aldísar sagði sömuleiðis að enginn á Íslandi hafi viðlíka sérhæfingu og menntun og þekkingu á sérsviði samningatækni, sáttamiðlunar, úrlausnar deilumála og samskipta og hún. Gerði hún síðan ítarlegar athugasemdir við mat hæfnisnefndarinnar á reynslu hennar í samanburði við reynslu Ástráðs. Til að mynda kemur fram að nefndin hafi gert lítið úr reynslu Aldísar af störfum fyrir embætti ríkissáttasemjara en þeim mun meira úr starfi Ástráðs sem settur ríkissáttasemjari. Sömuleiðis hafi menntun hennar fallið betur að embættinu.

Engin mismunun

Ráðherrann andmælti því að eitthvað annað en hæfni hefði ráðið því að Ástráður hafi verið skipaður. Hann hefði að loknu heildarmati hæfnisnefndarinnar og eigin viðtölum við Aldísi og Ástráð komist að þeirri niðurstöðu að sá síðarnefndi væri hæfari til að gegna embætti ríkissáttasemjara. Matið hafi verið heildstætt, margþætt og hlutlægt og samkvæmt viðurkenndum aðferðum. Hann hafi einnig ráðgast við forsvarsmenn samtaka aðila vinnumarkaðarins og eftir þau samtöl hafi verið ljóst að Ástráður nyti trausts þeirra.

Guðmundur Ingi neitaði því einnig að vikið hefði verið frá hæfniskröfum auglýsingarinnar eins og Aldís hélt fram í sinni kæru. Sömuleiðis vísaði hann því á bug að lítið hafi verið gert úr hæfni og reynslu Aldísar. Hún hafi verið vel hæf til að gegna embættinu en hann hafi talið Ástráð hæfastan. Að mati Guðmundar hafði Ástráður yfirgripsmikla þekkingu á og reynslu af íslenskum vinnumarkaði og hafi í störfum sínum öðlast góða innsýn og þekkingu á starfi ríkissáttasemjara. Í mati hans hafi þekking á íslenskum vinnumarkaði og reynsla sérstakt vægi sem falli innan þess svigrúms sem ráðherra hafi við samanburð á umsækjendum um embættið.

Ekkert brot

Í niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála kemur fram að þar sem ekki sé mælt fyrir um hæfniskröfur í lögum sé það ráðherra að ákveða þær og innbyrðis vægi þeirra í ljósi þeirra þarfa sem hann telji nauðsynlegar að uppfylla til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir. Að hennar mati verði ekki betur séð en að þær hæfniskröfur sem Guðmundur gerði hafi verið málefnalegar.

Nefndin tekur ekki undir með Aldísi um að hæfniskröfum sem gerðar voru í auglýsingu um embættið hafi verið breytt þegar mat nefndarinnar var unnið.

Að mati nefndarinnar sýna gögn málsins ekki annað en að matið og samanburðurinn á Aldísi og Ástráði hafi byggt á málefnalegum forsendum. Nefndin tók ekki undir með Aldísi um að hún hafi átt að vera metin hæfari þegar kom að menntun. Segir kærunefndin að ekki hafi verið gerð krafa um tiltekna prófgráðu í auglýsingunni og almennt verði að leggja mat á hversu líklegt sé að menntun nýtist í starfi.

Kærunefnd jafnréttismála tekur heldur ekki undir það með Aldísi að mat hæfnisnefndarinnar á þekkingu hennar og reynslu hafi verið ómálefnalegt. Sömuleiðis tók nefndin ekki undir að spurningar Guðmundar Inga í viðtölum hans við Aldísi og Ástráð hafi ekki varpað ljósi á væntanlega frammistöðu Ástráðs í embættinu.

Er það því niðurstaða nefndarinnar að mat hæfnisnefndarinnar og val ráðherrans á Ástráði hafi verið málefnalegt og að Aldísi hafi ekki verið mismunað á grundvelli kyns hennar. Þar með hafi ekki verið brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Kennari fékk nóg af umræðunni um verkföll og opinberaði launin – Feiknaviðbrögð komu á óvart

Kennari fékk nóg af umræðunni um verkföll og opinberaði launin – Feiknaviðbrögð komu á óvart
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Særindi og dramatík á Alþingi – Segir Sigurð Inga hafa verið leiddan í gildru

Særindi og dramatík á Alþingi – Segir Sigurð Inga hafa verið leiddan í gildru
Fréttir
Í gær

„Hann snýr sér við og nær þessari einu stungu á versta stað“

„Hann snýr sér við og nær þessari einu stungu á versta stað“
Fréttir
Í gær

Sættu sig ekki við að Matvælastofnun kærði ekki mann sem sást sparka í hryssu

Sættu sig ekki við að Matvælastofnun kærði ekki mann sem sást sparka í hryssu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilja flagga alla daga

Vilja flagga alla daga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Morðin í Neskaupstað: Hryllileg aðkoma lögreglumanna – „Það voru blóðslettur upp um alla veggi“

Morðin í Neskaupstað: Hryllileg aðkoma lögreglumanna – „Það voru blóðslettur upp um alla veggi“