fbpx
Miðvikudagur 12.febrúar 2025
Fréttir

Jón Þröstur var að undirbúa sig fyrir spennandi kafla í lífi sínu þegar hann hvarf skyndilega

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 12. febrúar 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Þröstur Jónsson, sem hvarf sporlaust í Dublin á Írlandi þann 9. febrúar, 2019, var að undirbúa sig fyrir spennandi kafla í lífi sínu þegar hann hvarf. Hann var sjálfum sér líkur í aðdraganda ferðarinnar og ekkert benti til þess að hann hafi skipulagt að vinna sér mein.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í frétt RÚV sem unnin er upp  úr hlaðvarpsþættinum Where is Jón?/Hvar er Jón? þar sem þau Anna Marsibil Clausen og Liam O‘Brian fara í saumana á hvarfi Jóns Þrastar.

Sjá einnig: Telur ólíklegt að Jón Þröstur hafi fyrirfarið sér

Meðal þess sem fram kemur í þættinum er að Jón Þröstur var með ýmislegt á prjónunum þegar hann fór í hina örlagaríku ferð til Dublin. Hann hafði til dæmis stutt við bakið á barnsmóður sinni, Nínu, sem var að ganga í gegnum skilnað og var spenntur fyrir því að eldri dóttir þeirra byggi meira hjá honum.

„Ég man að hann kom hingað tveimur dögum áður en hann fór og við ræddum framtíðina, hvernig Júlía myndi búa hjá honum og annað slíkt. Síðan fór hann bara,“ segir Júlía.

Þá var Jón Þröstur búinn að kaupa sinn eigin leigubíl rétt fyrir hvarfið og var búinn að greiða hann að fullu. Fram kemur í fréttinni að hann hafi ekið á svonefndu ekkjuleyfi í tæp þrjú ár þar sem hann leigði bílinn af ekkju annars leigubílstjóra.

Haft er eftir ekkjunni að Jón Þröstur hafi verið harðduglegur og góður bílstjóri og hafi fengið bílinn á góðu verði. Átti Jón í samskiptum við Samgöngustofu áður en hann hélt til Dublin þar sem hann spurði meðal annars hvort hann fengi ekki atvinnuleyfi til aksturs leigubíls við næstu úthlutun. Þetta gerðist daginn áður en Jón fór til Dublin.

Þann 1. apríl 2019 barst honum tilkynning um að leigubílaleyfið væri í höfn en þá hafði Jóns verið saknað í tæpa tvo mánuði.

Ýmsum kenningum hefur verið varpað fram um hvarf Jóns Þrastar og segir móðir hans að hann hafi jafnan fengið útrás fyrir tilfinningar sínar í einrúmi. Einhvers konar bráða-geðrofsástand gæti verið ein af skýringunum á bak við hvarf hans. Þá er rætt við Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjón í þáttunum sem telur að hann hafi annað hvort látið sig hverfa eða honum verið ráðinn bani. Taldi hann ólíklegt að hann hefði fyrirfarið sér en þó ekki útilokað.

Í þessari grein er fjallað um mögulegt sjálfsvíg. Þeim sem eiga um sárt að binda er bent á hjálparsíma Rauða krossins, 1717.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt