Tælenskir fjölmiðlar greina frá því að íslenskur ferðamaður hafi lent í slysi í borginni Pattaya á fimmtudag. Hafi hann fengið töluverða áverka á höfði eftir að hafa fallið beint á andlitið á járn sem stóðu upp úr gangstétt.
Greint er frá slysinu í Pattaya News, Khaosod og fleiri tælenskum miðlum.
Atvikið átti sér stað í miðborg Pattaya aðfaranótt fimmtudags, um klukkan 1:00 um nóttina, á gangstétt við götu sem kölluð er 2nd Road. Sjúkraliðar komu á vettvang eftir að tilkynning barst um illa haldinn mann á gangstéttinni. Blæddi mikið úr andliti mannsins og var gert að sárum hans á staðnum áður en hann var fluttur á spítala.
Ferðamaðurinn sagðist hafa verið á göngu og rekið fótinn í ræsisop, sem hafi verið falið undir laufi, með þeim afleiðingum að hann féll fram fyrir sig. Nálægt voru hættulegir málmstautar sem stóðu upp í loftið eftir að ljósastaur hafði verið fjarlægður.
Málið hefur vakið athygli á ótryggum aðstæðum á gangstéttum víða í Pattaya og Tælandi. Segja heimamenn að slæmt ástand gangstéttanna hafi verið viðvarandi vandamál árum saman.
„Við höfum séð marga ferðamenn slasast hérna,“ sagði einn heimamaður í viðtali við Khaosod. „Þessar aðstæður eru að skaða orðspor Pattaya sem ferðamannastaðar. Við þurfum að laga þetta áður en einhver slasast alvarlega,“ sagði einn verslunareigandi.