Töluvert uppnám varð við upphaf þingfundar á Alþingi í dag þegar Sigurður Ingi Jóhannsson þingmaður og formaður Framsóknarflokksins brást við ummælum Jóhanns Páls Jóhannssonar umhverfisráðherra í umræðum í gærkvöldi um stefnuræðu forsætisráðherra. Var Sigurður Ingi afar ósáttur við ummælin og sagði Jóhann Pál hafa sakað sig ranglega um lygar og krafðist þess að ráðherrann myndi viðurkenna það. Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins fullyrti að Jóhann og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefðu leitt Sigurð Inga í gildru og að lög um þingsköp Alþingis hefðu verið brotin.
Fór Sigurður Ingi fram á umræðu um fundarstjórn forseta þar sem hann vék að ummælum Jóhanns Páls en upptakan af umræðunum ber yfirskriftina „þingmaður ber af sér sakir“ á vef Alþingis sen verður að teljast óvenjulegt heiti á dagskrárlið.
Tilefni umræðunnar eru ummæli Jóhanns Páls í umræðum í gærkvöldi um stefnuræðu Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra. Í ræðu sinni í þeim umræðum gagnrýndi Sigurður Ingi Kristrúnu fyrir að minnast ekki á kjaradeilu kennara við ríki og sveitarfélög í stefnuræðunni. Það var hins vegar rangt þar sem Kristrún minntist sannarlega á deiluna í ræðunni. Sakaði Jónann Páll í kjölfarið Sigurð Inga um lygar. Í ræðu sinni sagði Jóhann Páll:
„Beit hann höfuðið af skömminni með því að ljúga því blákalt hérna að þingheimi að hæstvirtur forsætisráðherra hefði ekki ávarpað kennara í ræðu sinni, hefði ekki vikið að menntamálum eða ávarpað kennara þarna úti, sem hún gerði svo sannarlega.“
Sigurður Ingi útskýrði málið og sagðist hafa skrifað ræðu gærkvöldsins út frá þeirri útgáfu stefnuræðunnar sem send hafi verið þingmönnum og í þeirri útgáfu hafi ekkert verið minnst á kjaradeiluna. Henni hafi verið bætt inn í ræðuna áður en kom að flutningi hennar og án þess að þingmenn hafi verið látnir vita. Er hann raunar ekki fyrsti stjórnarandstöðuþingmaðurinn sem kvartar yfir þessu en mögulega hefur frestun stefnuræðunnar vegna veðurs einhver áhrif haft á þetta. Vísa þingmennirnir í ákvæði þingskaparlaga um að stefnuræðuna skuli senda til þingmanna tveimur sólarhringum áður en hún sé flutt og að þau ákvæði þýði að breytingar á ræðunni séu óheimilar eftir að hún hafi verið send þingmönnum.
Af ræðu Sigurðar Inga má ráða að hann sé sár út í Jóhann Pál:
„Ég sannarlega vísaði í útsenda ræðu. Ég tók eftir því að stefnuræða forsætisráðherra hafði breyst sem er nú breyting frá hefð. Þannig að ég vísaði sérstaklega í útsenda ræðu þegar ég vitnaði til þess að ekki hafi stafkrókur fjallað um verkföll kennara eða áhrif þeirra á börn.“
Sigurður Ingi sagði einnig að Jóhann Páll hefði ranglega haldið því fram að engin jarðgöng hefðu verið tekin í gagnið í ráðherratíð þess fyrrnefnda. Sömuleiðis hafi það ekki verið satt hjá Jóhanni Páli að engin virkjun yfir 10 megavöttum að stærð hefði verið tekin í notkun á þeim 7 árum sem síðasta ríkisstjórn, þar sem Sigurður Ingi var einn þriggja oddvita, var við völd.
Fór Sigurður Ingi því næst fram á að Jóhann Páll myndi viðurkenna að hafa borið hann röngum sökum.
„Ég fer fram á, frú forseti, að hæstvirtur ráðherra gangist við því að hafa borið mig röngum sökum í gær og hafa sakað mig um lygi þegar ég var ekki að ljúga.“
Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins tók þátt í umræðunni og tók upp hanskann fyrir Sigurð Inga. Sagði hún hann bersýnilega hafa verið leiddan í gildru af Jóhanni Páli og Kristrúnu og að þingskaparlög hefðu verið brotin:
„Hvernig er það? Er nýjum stjórnarmeirihluta algerlega fyrirmunað að bera virðingu fyrir einni einustu reglu sem er í þessu húsi, á Alþingi Íslendinga. Að breyta stefnuræðu er klárt brot á þingskaparlögum. Það er ástæða fyrir því og hún er meðal annars sú að það ógeðfellda atriði sem gerðist hér í gær, að háttvirtur þingmaður, Sigurður Ingi Jóhannsson, er leiddur í gildru og svo er öskrað á hann …“
Við þessi orð Hildar var hlegið í þingsalnum en óljóst er hver eða hverjir hlógu. Hún hélt ræðu sinni áfram:
„ … Af samflokksmanni þess sem hannaði gildruna, að hafa stigið ofan í hana.“
Sagði Hildur að það væri hlutverk Þórunnar Sveinbjarnardóttur forseta Alþingis að koma í veg fyrir slíkt athæfi og að vonandi yrði Þórunn forseti allra þingmanna en ekki eingöngu Samfylkingarinnar.