fbpx
Þriðjudagur 11.febrúar 2025
Fréttir

Ómar stefnir ríkinu og krefst þess að áminningar verði ógildar – Spurði dómara hvaða starfsmann hann ætti að reka

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 11. febrúar 2025 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ómar R. Valdimarsson hæstaréttarlögmaður hefur stefnt íslenska ríkinu og krefst þess að felldar verði úr gildi tvær áminningar og ein aðfinnslu sem úrskurðarnefnd lögmanna veitti honum í kjölfar ummæla hans um málskostnað í hinu svokallaða Bankastrætismáli. Einnig var hann áminntur fyrir að mæta ekki í löglega boðað þinghald í málinu.

Ómar var verjandi sakbornings í málinu sem sakfelldur var fyrir tvær manndrápstilraunir og dæmdur í sex ára fangelsi. Ómar greinir frá því í stefnu sinni að málið hafi krafist gífurlegrar vinnu. Upphaflegur gagnapakki hafi verið nálægt 1.500 blaðsíðum auk mikill stafrænna gagna, t.d. myndbanda úr öryggismyndavélum. Undir rekstri málsins hafi síðan bæst við mikill fjöldi gagna, t.d. matsgerðir og greinargerðir. Ennfremur hafi aðalmeðferð málsins tekið sex vinnudaga. Segir Ómar að honum hafi fyrir þessa vinnu borið greiðsla að fjárhæð 17.898.408 kr. að meðtöldum virðiskaukaskatti. Dómari í málinu hafi hins vegar ákveðið að hann fengi aðeins rúmlega 40% af vinnunni greidda, eða 7.834.320 kr.

Ómar sendi í kjölfarið dómara málsins nokkuð hæðnisfullan tölvupóst þar sem hann sagði að þess væri greinilega vænst að hann ynni þegnskylduvinnu fyrir ríkið. Benti hann á að hann ræki lögmannastofu með sex starfsmönnum og spurði dómara hvaða starfsmann hann ætti að reka:

„Af þeim tíma sem varið var í málið, fæ ég 43,7% þeirra greidda. Restin er þá væntanlega hugsuð sem einhvers konar þegnskylduvinna fyrir ríkið? Nú er það svo, að ég rek litla lögmannsstofu sem er vinnustaður sex einstaklinga. Þau má sjá á heimasíðunni www.valdimarsson.is. Af þessu tilefni þarf ég að ákveða hvert þeirra ég á að reka fyrir jólin. Áttu kost á því að benda mér á þann starfsmann, sem best er til þess fallinn?“

Ómar sendi jafnframt tölvupóst á 26 lögmenn í málinu þar sem hann sagði dómarann í málinu hafa hýrudregið þá. Velti hann upp þeirri hugmynd að þeir myndu skrifa sameiginlegt bréf til dómstjórans í Reykjavík, þar sem ákvörðuninni yrði harðlega mótmælt. Umræddur póstur barst svo einhverra hluta vegna til varadómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur og var í kjölfarið skotið til nefndarinnar.

Þá var kvartað yfir því að Ómar hefði sent póst á dómstjóra réttarins, þegar hann var beðinn um að mæta í þinghald við dóminn, hvar hann spurði hvort hann fengi greitt fyrir þá vinnu eða ætti að gera það án endurgjalds. Í úrskurði nefndarinnar segir að sú háttsemi Ómars að senda dómara tölvupóst af því tagi sem hér um ræðir sé aðfinnsluverð.

Orðrétt segir í úrskurðinum:

„Varnaraðili, [B] lögmaður, sætir áminningu vegna þeirrar háttsemi að senda dómara við [A] tölvupóst, þann 25. nóvember 2023, með því efni sem þar kemur fram og nánar er lýst í úrskurði þessum, og þeirrar háttsemi að mæta ekki í löglega boðað þinghald í máli […] þann 27. nóvember 2023. Varnaraðili, [B] lögmaður, sætir áminningu vegna þeirrar háttsemi að senda 26 lögmönnum tölvupóst, þann 23. nóvember 2023, með því efni sem þar kemur fram og nánar er lýst í úrskurði þessum.“

Dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur vanhæfir

Sem fyrr segir hefur Ómar stefnt ríkinu og krafist þess að áminningar úrskurðarnefndar lögmanna verði felldar niður. Helstu röksemdir Ómars eru þær að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi ekki haft lögvarða hagsmuni í málinu. Héraðsdómur sé lögpersóna sem ekki geti haldið því fram að gert hafi verið á hennar hlut heldur hljóti slík upplifun að vera upplifn einstakra dómara sem þyrftu þá að koma slíkri kvörtun á framfæri í eigin nafni. Kvörtunin hafi hins vegar verið lögð fram í nafni dómstólsins. Þá telur Ómar að nefndin hafi brotið gegn tjáningarfrelsi hans fyrir að áminna hann fyrir að senda tölvupóst til annarra lögmanna, þar sem velt var upp því vart verður kallað annað en kjaramál lögmanna.

Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness þar sem dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur teljast vanhæfir í málinu. Fyrirtaka verður á morgun, miðvikudaginn 12. febrúar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Stefán Einar jós skömmum yfir kennara en var tekinn á teppið – „Eins og ofvirkur illa uppalinn skólastrákur“

Stefán Einar jós skömmum yfir kennara en var tekinn á teppið – „Eins og ofvirkur illa uppalinn skólastrákur“
Fréttir
Í gær

Trump vill fá úkraínskar náttúruauðlindir í staðinn fyrir hernaðaraðstoð – Verður að hafa hraðar hendur

Trump vill fá úkraínskar náttúruauðlindir í staðinn fyrir hernaðaraðstoð – Verður að hafa hraðar hendur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þess vegna ættirðu alls ekki að naga neglurnar – Sjáðu myndbandið

Þess vegna ættirðu alls ekki að naga neglurnar – Sjáðu myndbandið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Össur segir Stefán Einar hafa komið í veg fyrir meirihluta Sjálfstæðisflokks í borginni – Stefán svarar fullum hálsi

Össur segir Stefán Einar hafa komið í veg fyrir meirihluta Sjálfstæðisflokks í borginni – Stefán svarar fullum hálsi