fbpx
Þriðjudagur 11.febrúar 2025
Fréttir

Sættu sig ekki við að Matvælastofnun kærði ekki mann sem sást sparka í hryssu

Ritstjórn DV
Mánudaginn 10. febrúar 2025 16:30

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Matvælaráðuneytið hefur vísað frá tveimur kærum sem snerust um þá ákvörðun Matvælastofnunar að kæra ekki mann, til lögreglu fyrir dýraníð, sem sást á myndbandi sparka í höfuð hryssu. Í öðru tilfellinu var um að ræða kæru frá þremur dýraverndunarsamtökum sem kærðu málið upphaflega til lögreglu en í hinu einstakling sem sá myndskeiðið í kvöldfréttum Stöðvar 2 þegar greint var frá ákvörðun stofnunarinnar um að leggja ekki fram kæru.

Myndbandið var tekið í ágúst 2023 en hryssan var þá í blóðtöku vegna blóðmerarhalds. Dýraverndunarsamtök birtu myndskeiðið í heimildarmynd sinni um blóðmerarhald á Íslandi. Í myndbandinu sést maður sparka í höfuð hryssunnar.

Í ágúst síðastliðnum greindu Vísir og RÚV frá að Matvælastofnun myndi ekki leggja fram kæru á hendur viðkomandi þar sem athæfi mannsins eins og það sæist í myndbandinu væri ekki nægilega alvarlegt til að réttlæta kæru. Vildi dýralæknir hjá stofnuninni meina að í myndbandinu sæist maðurinn ekki glögglega sparka í höfuð hryssunnar og hafi hann snert höfuðið hafi viðbrögð hryssunnar bent til að það hafi ekki verið fast. Erfitt er hins vegar að átta sig á hvers vegna dýralæknirinn sagði það ekki sjást nógu vel í myndbandinu að maðurinn hafi sparkað í hryssuna en í myndbandinu sést það skýrt og greinilega að hann sparkaði sannarlega í höfuð hryssunnar en myndbandið má sjá í frétt Vísis.

Skjáskot úr myndbandinu. Skjáskot/Vísir.

Ættu ekki aðild

Samtökin sem kærðu málið upphaflega kærðu niðurstöðu Matvælastofnunar til matvælaráðuneytisins strax daginn eftir að greint var frá henni í fjölmiðlum. Stofnunin tjáði samtökunum að þau gætu ekki kært ákvörðunin þar sem þau ættu ekki aðild að málinu. Beindu samtökin því þá til ráðuneytisins að taka málið upp að eigin frumkvæði.

Ráðuneytið áréttaði við samtökin að þau ættu ekki aðild að málinu og litið væri á erindi þeirra sem ábendingu fremur en formlega kæru en samtökin andmæltu því.

Samtökin leituðu þá til umboðsmanns Alþingis og eftir samskipti þess embættis við ráðuneytið voru samtökin upplýst um að kæra þeirra yrði tekin til formlegrar meðferðar. Í kjölfarið komu samtökin á framfæri ýmsum viðbótargögnum.

Sá myndbandið

Í hinu kærumálinu virðist hafa verið um að ræða einstakling sem sá myndbandið í fréttatíma Stöðvar 2 þar sem greint var frá ákvörðun Matvælastofnunar. Krafði viðkomandi Matvælastofnun skýringa og óskaði í kjölfarið eftir því við matvælaráðuneytið að það hlutaðist til um ákvörðunina. Vísaði einstaklingurinn til þess að stofnunin ætti að gæta að velferð og heilbrigði dýra. Í svari sínu til viðkomandi ítrekaði Matvælastofnun þá niðurstöðu að málið væri ekki nægilega alvarlegt til að verðskulda kæru til lögreglu.

Ráuneytið tjáði einstaklingnum að hann ætti ekki aðild að málinu en erindið var tekið til formlegrar kærumeðferðar eftir sams konar ábendingar frá umboðsmanni Alþingis og í máli samtakanna.

Eigi aðild

Samtökin andmæltu því í kæru sinni að þau ættu ekki lögformlega aðild að málinu. Vísuðu þau m.a. í Árósasamninginn sem Ísland er aðili að en samningurinn kveður m.a. annars á um þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Þau vísuðu einnig til þess að þar sem þau hefðu kært málið upphaflega ættu þau svo sannarlega aðild að því. Hefðu þau ekki aðild ætti enginn aðild að málinu og þá væru dýrin réttlaus. Vildu þau einnig meina að vítavert væri að Matvælastofnun hefði tjáð þeim að ekki væri hægt að kæra málið.

Í sinni kæru sagði einstaklingurinn það óforsvaranlegt af Matvælastofnun að kæra ekki meðferðina á hryssunni. Ljóst væri að umrædd hryssa hefði verið þolandi dýraníðs og það hafi verið hans hagsmunir að taka afstöðu með dýrum í neyð og mótmæla þessari afstöðu stofnunarinnar sem hefði algjörlega brugðist.

Ekki endilega aðili þótt kært sé

Í niðurstöðu matvælaráðuneytisins um kæru samtakanna segir að tilkynning til lögreglu eða annarra stjórnvalda um brot á lögum skapi tilkynnanda ekki sjálfkrafa stöðu sem málsaðili. Viðkomandi verði aðeins málsaðili ef hann eigi beinna, sérstakra eða lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Ráðuneytið segir einnig Árósarsamninginn ekki gilda með beinum hætti um velferð dýra og þar sé ekkert minnst á aðild dýraverndunarsamtaka að slíkum málum. Samtökin eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu eingöngu vegna stöðu sinnar sem dýraverndunarsamtök.

Ráðuneytið segir samtökin ekki hafa sýnt fram á að þau ættu verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og því er kæru þeirra vísað frá á þeim grundvelli að þau eigi ekki aðild að málinu.

Hvað varðar kæru einstaklingsins segir það hagsmunina sem hann hafi vísað í, af því að taka afstöðu með dýrum í neyð, vera almenna og ekki hafa skapað honum stöðu sem málsaðili.

Eins og í tilfelli samtakanna segir ráðuneytið hagsmuni sem sprottnir séu af lífsskoðunum ekki skapa aðilastöðu í stjórnsýslumálum. Kæru einstaklingsins var því einnig vísað frá á þeim grundvelli að viðkomandi væri ekki aðili að málinu.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

195 ökumenn stöðvaðir í Ofurskálareftirliti

195 ökumenn stöðvaðir í Ofurskálareftirliti
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Ógnarástand í Breiðholtsskóla: „Það eina sem dóttir mín er að læra núna er að vera þolandi ofbeldis“

Ógnarástand í Breiðholtsskóla: „Það eina sem dóttir mín er að læra núna er að vera þolandi ofbeldis“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Opinber skrifstofa lokuð í þrjár vikur á meðan eini starfsmaðurinn er í fríi

Opinber skrifstofa lokuð í þrjár vikur á meðan eini starfsmaðurinn er í fríi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón bendir á rangfærslur í málflutningi Einars

Jón bendir á rangfærslur í málflutningi Einars
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir ríkið víst eiga rétt á að krefja óskráða flokka um endurgreiðslu

Segir ríkið víst eiga rétt á að krefja óskráða flokka um endurgreiðslu