Réttarhöld standa nú yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir Alfreð Erling Þórðarsyni, 46 ára gömlum manni sem ákærður er fyrir morð á hjónum á áttræðisaldri á heimili þeirra í Neskaupstað.
Alfreð Erling kaus að tjá sig ekki um málavexti fyrir dómi og vísaði í framburð sinn í lögregluskýrslum. Þar hefur hann neitað sök en sagst hafa komið að hjónunum látnum.
Lögreglumenn sem komu á vettvang gáfu skýrslu í gegnum fjarfundabúnað. Meðal þeirra var ung lögreglukona sem starfar á lögreglustöðinni í Neskaupstað.
Hún segist hafa verið á vakt er hún fékk sms um sjúkrabílsútkall að húsi við Strandgötu í Neskaupstað. Er hún kom á vettvang voru þar fyrir þrír sjúkraliðsmenn og þrír tilkynnendur. Sagði hún að tilkynnendur á vettvangi hafi verið í miklu uppnámi. Mikið blóð var á vettvangi, m.a. í anddyri hússins. Sjúkraflutningamennirnir tilkynntu henni að hjónin væru þegar látin. Lágu þau inni á baðherbergi, var þar mikið blóð og áverkar á höfðum hjónanna. Eftir stutta stund kom rannsóknardeild lögreglunnar á vettvang.
„Þegar ég var að lenda voru að koma upplýsingar um að Alfreð hefði sést við húsið kvöldið áður og bíllinn væri horfinn. Þannig að við fórum strax í þá átt, að leita að bílnum,,“ sagði konan en Alfreð var handtekinn daginn eftir á bíl hjónanna, á Snorrabraut í Reykjavík.
Minnst var á skotvopn þegar lögreglan kom á vettvang og bað konan þá strax um heimild til að bera skotvopn. Sjúkraflutningamenn drógu þessa ályktun út frá blóðmagni á vettvangi.
Konan sagði ennfremur að blóð á vettvangi hafi ekki virst vera nýtt þar sem það var mjög dökkt.
Hún kom frekar að málinu varðandi að fylgjast með vettvangi og skrifaði hún frumskýrslu í málinu.
Tóma Zoega, geðlæknir og meðdómari í málinu, spurði lögreglukonuna hvernig hún gat metið að blóðið á vettvangi væri ekki nýtt. „Það var svo dökkt, það var ekki eldrautt heldur farið að dökkna,“ svaraði konan.
Annar lögreglumaður, sem starfar fyrir Akureyri, gaf einnig skýrslu í málinu, var þar um að ræða karlmann.
Sækjandi spurði hann um aðkomu hans að málinu. Segir hann lögreglu hafa fengið veður af því að búið væri að skjóta tvo aðila og var brugðist við því. Lagði hann af stað frá Akureyri til Neskaupstaðar. „Okkar hlutverk er að fara þarna og tryggja vettvang,“ sagði hann og gerðu þeir það.
Lýsti þessi lögreglumaður blóðugri aðkomu á vettvangi og lá blóðslóð frá anddyri og inn í íbúðina. Hin látnu voru inni á baðherbergi. Sagði hann þar hafa verið mikið blóð og ekki fögur aðkoma. Segir hann lögreglumenn þá hafa áttað sig á því að sennilega væri þetta ekki skotárás.
Á efri hæð hússins voru umbúin rúm og miklu snyrtilegra umhorfs en á neðri hæðinni. Aðspurður segir hann að vettvangurinn hafi í fyrstu líkst skotárás og segist hann skilja vel að fólk hafi talið ummerki vera eftir skotárás. „Það voru blóðslettur upp um alla veggi og vægast sagt ekki fögur aðkoma.“
Aðspurður sagði hann þrjá lögreglumenn frá Akureyri hafa komið á vettvang og tryggt vettvanginn.
Vitnaleiðslur í málin halda áfram í dag.