fbpx
Mánudagur 10.febrúar 2025
Fréttir

Morðin í Neskaupstað: Réttarhöld hafin yfir Alfreð Erling sem kýs að tjá sig ekki

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 10. febrúar 2025 09:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Réttarhöld eru hafin í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir Alfreð Erling Þórðarsyni, 46 ára gömlum manni, sem ákærður er fyrir morð á hjónum á áttræðisaldri í Neskaupstað  21. ágúst árið 2024.

Alfreð er sakaður um að hafa myrt hjónin á heimili þeirra og beitt hamri. Hjónin hlutu umfangsmikla og alvarlega áverka á höfði í árásinni, þar á meðal ítrekuð brot á höfuðkúpum og áverka á heila og smærri áverka á öðrum hlutum líkama. Þau létust bæði af völdum áverka á höfði.

Fjórir aðilar gera einkaréttarkröfur í málinu um miskabætur upp á 12 milljónir króna fyrir hvert og eitt.

Alferð Erling er einnig ákærður fyrir vopnalagabrot, fyrir að hafa haft hníf með 15 cm löngu blaði í vörslu sinni við Kaupvang á Egilsstöðum.

Eftir morðið á hjónunum flýði hann burtu á bíl þeirra en hann var handtekinn á bílnum á Snorrabraut í Reykjavík daginn eftir.

Átti að vera í nauðungarvistun þegar morðin voru framin

Alfreð Erling hefur lengi strítt við alvarlegan geðrænan vanda, haft miklar ranghugmyndir og í þrígang verið úrskurðaður í nauðungarvistun á innan við ári. Var hann úrskurðaður í tólf vikna nauðungarvistun þann 6. júní, um tveimur og hálfum mánuði áður en harmleikurinn í Neskaupstað átti sér stað.

Var heimild til að vista hann til 29. ágúst en í umfjöllun Morgunblaðsins um málið kemur fram að kunnugir segi að sést hafi til hans á Austurlandi seinni hluta júlímánaðar.

Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að atvik sem átti sér stað á Egilsstöðum í maí í fyrra hafi leitt til vistunar hans. Þá var Alfreð Erling handtekinn í miðbænum eftir að hann ógnaði fólki og lögreglu með hnífi. Mun hann hafa talið lögregluna hluta af samsæri um að ráða sig af dögum.

Í umfjöllun Morgunblaðsins er rætt við Engilbert Sigurðsson, yfirlækni á geðþjónustu Landspítalans, en hann segir gjarnan mikið álag á geðdeild. Oftast sé mikil pressa á að útskrifa fólk til að hægt sé að leggja aðra bráðveika einstaklinga inn. Bendir hann á að mun færri rými séu fyrir sjúklinga á geðdeild samanborið við nágrannalönd okkar.

Þéttsetinn dómsalur

Dómur í málinu er fjölskipaður og meðdómendur eru Tómas Zoega geðlæknir og Barbara Björnsdóttir héraðsdómari. Dómsformaður er Hákon Þorsteinsson.

Dómsalur var þéttsetinn en meðal áheyrenda voru aðstandendur látnu hjónanna frá Neskaupstað.

Alfreð Erling mætti í dómsal í fylgd lögreglumanna, Hann var klæddur sokka frá Landspítalanum, inniskó, svartar gallabuxur og vínrauða hettupeysu. Alfreð Erling var fölur og veiklulegur en hæverskur í yfirbragði.

Alfreð færðist undan því að gefa skýrslu í málinu og vísaði til skýrslu sem hann hefði gefið hjá lögreglu. Hann óskaði þess að vera ekki viðstaddur aðalmeðferð málsins.

Dómari spurði hann hvort hann vildi koma einhverju sérrstöku á framfæri, t.d. varðandi líðan sína og geðrannsókn en Alfreð Erling afþakkaði það.

Saksóknari ítrekaði fyrirspurn um hvort Alfreð Erling vildi tjá sig um sakarefni og afþakkaði hann það. Var ákveðið að hann tæki sæti í vitnastúlku og gögn borin undir hann.

Saksóknari spurði hvort hann vildi breyta einhverju eða bæta við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann var spurður um tengsl sín við hin látnu og sagðist hann þekkja til þeirra. Aðspurður sagði hann að hann hefði ekki komið á heimili hjónanna í nokkur ár áður en kom að dánardegi þeirra.

Saksóknari spurði Alfreð Erling hvort hann vildi eitthvað fara yfir sín andlegu veikindi og kaus hann að gera það ekki.

Tómas Zoega meðdómari spurði hann hvernig hann skýri að hann vilji ekki tjá sig frekar um málið en hann hefur gert í lögregluskýrslu. Sagði hann að hann teldi málavexti liggja skýrt fyrir. Tómas spurði hann hvort hann hefði lesið gögnin yfir og sagðist hann hafa lesið eitthvað af þeim. Hann sagði þetta vera mikið af efni en sagðist samt hafa farið eitthvað yfir gögnin og ráðfært sig við verjanda sinn.

Í lögregluskýrslu í málinu hefur Alfreð Erling neitað að hafa banað hjónunum en sagst hafa komið að þeim látnum.

Alfreð Erling yfirgaf dómsalinn um það bil 15 mínútum eftir að þinghald hófst og var þá gert stutt þinghlé.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum
Vilja flagga alla daga
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

195 ökumenn stöðvaðir í Ofurskálareftirliti

195 ökumenn stöðvaðir í Ofurskálareftirliti
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Ógnarástand í Breiðholtsskóla: „Það eina sem dóttir mín er að læra núna er að vera þolandi ofbeldis“

Ógnarástand í Breiðholtsskóla: „Það eina sem dóttir mín er að læra núna er að vera þolandi ofbeldis“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Opinber skrifstofa lokuð í þrjár vikur á meðan eini starfsmaðurinn er í fríi

Opinber skrifstofa lokuð í þrjár vikur á meðan eini starfsmaðurinn er í fríi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón bendir á rangfærslur í málflutningi Einars

Jón bendir á rangfærslur í málflutningi Einars
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir ríkið víst eiga rétt á að krefja óskráða flokka um endurgreiðslu

Segir ríkið víst eiga rétt á að krefja óskráða flokka um endurgreiðslu