fbpx
Laugardagur 01.febrúar 2025
Fréttir

Haukur ákærður fyrir manndrápstilraun gegn leigubílstjóra sem braut á ungri stúlku – „Þarna eru lögreglumenn að ljúga upp á borgara“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 1. febrúar 2025 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haukur Ægir Hauksson, 36 ára gamall tveggja barna faðir, hefur lifað betri tíma en undanfarin misseri. Hann hefur setið í fangelsi síðan í apríl árið 2024 er hann var handtekinn vegna rannsóknar hins svokallaða Sólheimajökulsmáls sem höfðað var gegn 18 sakborningum og varðaði fíkniefnainnflutning, sölu og dreifingu, og skipulagða brotastarfsemi. Síðastliðið haust var Haukur dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir sína hlutdeild í málinu, dóm sem Haukur telur allt of harðan enda hafi hann þar verið sakfelldur fyrir ákæruatriði sem aldrei hafi verið sönnuð á hann.

En ekki nóg með það. Utan Sólheimajökulsmálsins hefur Haukur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps vegna atviks sem átti sér stað aðfaranótt laugardagsins 11. mars 2023, er Haukur lenti í hatrömmum átökum við erlendan leigubílstjóra sem hafði brotið kynferðislega gegn dóttur kærustu hans. Haukur telur þann málatilbúnað vera fullkomlega fráleitan enda byggi hann m.a. á ósannindum í lögregluskýrslu og gangi gegn sönnunargögnum í málinu úr búkmyndavélum lögreglu. Um hafi verið að ræða sjálfsvörn.

„Ég er enginn engill en ég vil bara taka út refsingu fyrir það sem ég hef raunverulega gert af mér, ekki fyrir upplognar sakir og vitleysu,“ segir Haukur í viðtali við DV sem tekið var í gegnum síma en hann hringdi í blaðamann úr landlínunúmeri á Litla-Hrauni. Í símtalinu fór Haukur ítarlega í gegnum atvikið sem leiddi til þess að hann var ákærður fyrir manndrápstilraun.

Hringdi grátandi úr leigubíl

„Ég var með fyrrverandi kærustu minni heima hjá mér þegar dóttir hennar hringir í mig úr einhverjum taxa, hún hafði verið úti að skemmta sér, og spurði hvort mamma sín væri hjá mér, hún hafði þá verið að reyna að hringja í hana. Ég spyr hvort hún vilji koma og hún spyr um heimilisfang. Ég heyri að hún er drukkin og bið um að fá að tala við bílstjórann sem tekur við símanum. Ég reyni að segja honum heimilisfangið og fá hann til að slá það inn í GPS-tæki sem bílstjórar eiga að hafa. Hann talaði mjög bjagaða ensku og enga íslensku og var greinilega ekki með neitt GPS-tæki. Það tók um fimm mínútur að segja honum til vegar en þá tekur stúlkan aftur við símanum og er grátandi. Móðir hennar kveikir á því að það er eitthvað að og hleypur út á bílaplan til að bíða eftir þeim þar. Eftir stutta stund er sambandið rofið og ég fæ síðan hringingu frá kærustunni minni og hún biður mig um að koma beint út á bílaplan.“

Haukur mætti stúlkunni grátandi í tröppunum og vísaði henni inn í íbúðina hans. Síðan fór hann til fundar við kærustuna og leigubílstjórann úti á plani.

„Kærastan mín sat frammi í bílnum og ég settist aftur í. Hún tjáði mér að bílstjórinn hefði þuklað á dóttur hennar. Hún sagði: „Dóttir mín myndi aldrei brotna niður og segja eitthvað svona ef það væri ekki satt.“ Bílstjórinn þvertók fyrir allt en við sögðumst ætla að hringja á lögregluna. Þá brotnar hann niður, fer að grenja og segir: „Ok, ok, I did it, sorry, sorry.“ Hér er rétt að hafa í huga að hann vildi alls ekki fá lögregluna á vettvang því hann var á skilorði sem hann var þarna að brjóta. Skýrslan yfir honum var tekin á Litla-Hrauni því það var farið með hann beint þangað. Þegar hann viðurkennir þetta fyrir okkur þá snappar kærastan mín og slær í áttina að honum. Hún er 60-70 kg og honum stafaði engin ógn af henni. Hann lemur til hennar á móti og ég fer að veita honum högg úr aftursætinu til að að fá hann til að hætta að berja hana. Síðan stökkvum við báðir út úr bílnum og þá æpir kærastan mín að hann sé að sækja eitthvað undir sætið, ég verði að passa mig.“

Bílstjórinn mundaði trékylfu og sló Hauk bylmingshöggi í ennið sem bólgnaði upp. Auk þess beit bílstjórinn hann í lærið. Haukur náði hins vegar taki á manninum og þeir féllu niður á jörðina og þar segist Haukur hafa haldið honum í hálstaki sem hann ýmis herti eða slakaði á, eftir því hvort bílstjórinn var að brjótast um eða hafa sig hægan. Á meðan hringdi kærastan í lögregluna sem kom á vettvang nokkrum mínútum síðar.

Segir lögregluskýrslu fulla af ósannindum

Haukur segir að þegar hann hafi séð blikkandi lögregluljósin nálgast hafi hann treyst sér til að sleppa tökum á bílstjóranum og hann hafi því verið með hendur á lofti þegar lögreglumenn þustu að. Í lögregluskýrslu er hins vegar fullyrt að hann hafi þá haft bílstjórann í hálstaki og erfiðlega hafi reynst að losa takið. Þetta segir Haukur vera ósannindi eins og fleira í lögregluskýrslu sem var gerð um málið.

„Ég og kærastan mín fórum inn í lögreglubíl til að gefa skýrslu, dóttir hennar er uppi í íbúð hjá mér og ætlar að kæra gaurinn fyrir kynferðislega áreitni. Ég fór að fara upp í íbúð til að skipta um föt og þvo mér um hendurnar. En eftir smástund er komið þangað heilt lögreglulið sem tilkynnir mér að ég sé handtekinn. Við það verð ég mjög ósáttur en þeir segjast þurfa að fá fötin sem ég var í en ég segi þeim að þeir megi ekki koma inn. Þeir vaða samt þarna inn á skónum og róta í dótinu mínu en tekst samt ekki að finna fötin mín. Sjálfur gat ég ekki fundið þau heldur, mundi ekki hvar ég hafði sett þau, kannski var ég vankaður eftir höfuðhöggið sem mér hafði verið veitt.“

Haukur segir því ranglega haldið fram að hann hafi verið ógnandi við lögreglu. „Rólegur en ógnandi, skrifa þeir. En það er algjörlega rangt. Ég var ekki að ógna neinum, ég var bara óánægður með vinnubrögð lögreglu og lét það í ljós. Ég sagði: „Er það svona sem þið komið fram við perrana í þessu landi?“ Þegar þeir henda mér inn í klefann segja þeir: „Ég ætla að vona að þú gerir þér grein fyrir því, Haukur minn, að þessi maður liggur ennþá þungt haldinn á gjörgæslu.“ Síðan loka þeir og læsa.“

Segir hann að bæði hann og móðir stúlkunnar hafi verið handtekin og stúlkan hafi þurft að gefa skýrslu ein á lögreglustöðinni. Daginn eftir var parið síðan látið laust, að lokinni skýrslutöku.

„Ég hugsaði bara með mér að ég ætlaði að gleyma þessu máli. Ég vissi að hann yrði ákærður fyrir kynferðislega áreitni og ég ákvað að kæra hann ekki. En einu ári seinna þegar búið er að handtaka mig út af þessu Sólheimajökulsmáli þá tilkynna þeir mér að þeir ætli að ákæra mig fyrir tilraun til manndráps gegn þessum manni. Ég fæ allar skýrslur um þetta kvöld, það sem þeir telja vera lífshættulegt ástand var einhver súrnun í blóði, hann er sagður hafa verið meðvitundarlaus á gjörgæslu sem er mjög furðulegt. Í skýrslunni sem var tekinn af honum á Litla-Hrauni segir hann að maður hafi komið og ráðist á sig, lagst ofan á hann og byrjað að kyrkja hann, reynt að drepa hann. Hann segir að honum hafi fundist að hann næði ekki andanum en þegar kom löggan kom fannst honum hann byrja að geta andað aftur. Svo varð hann meðvitundarlaus. En það sést í búkmyndavélum að þegar fyrsti lögreglumaðurinn er að hlaupa að mér þá er ég ekki að kyrkja hann, ég er með hendur upp í loft, sat þarna rólegur. Ef hann segist hafa getað andað aftur þegar lögreglan er að koma þá þýðir það að ég hef sleppt af honum tökum en svo er hann allt í einu meðvitundarlaus. Meðvitundarleysi er mælt í 15 stigum þar sem 3 þýðir meðvitundarlaus. Uppi á gjörgæslu er hann að mælast í 11 eða 12 og hann er að bregðast eðlilega við öllum sársaukamörkum. Maðurinn vissi að lögreglan var að koma á svæðið og hann var á skilorði. Hann reynir allt til að komast burt en um leið og löggan kemur þá lokar hann augunum og lætur sig falla mjúklega til jarðar. Hann er ekki skaðaður eftir þetta. Þeir vilja meina að ég hafi reynt að svipta hann lífi í sjö mínútur. En saksóknari á að vita að þetta er ekki satt.“

Haukur telur að hann hafi verið ákærður gegn betri vitund ákæruvaldsins og í andstöðu við gögn málsins úr búkmyndavélum lögreglu. „Lögregluskýrslan um þetta er full af ósannindum. Þarna eru lögreglumenn bókstaflega að ljúga upp á borgara. Og þeir halda því bara áfram, þeir halda sinni vinnu og geta gert þetta áfram.“

Leigubílstjórinn var sakfelldur fyrir kynferðisbrot

Leigubílstjórinn sem í hlut átti er sýrlenskur maður á sextugsaldri. Hann heitir Mohamad Weti og hefur verið á Íslandi síðan 2016. Hann hefur margoft brotið lög hér á landi. Hann var dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir að brjóta kynferðislega gegn dóttur kærustu Hauks þetta kvöld og með brotinu rauf hann þriggja ára skilorð og þarf að afplána eftirstöðvar eldri refsingar.

„Saksóknari vill meina að þessi maður hafi verið stærsta fórnarlamb kvöldsins.“

Málið gegn Hauki hefur verið þingfest en ekki er komin dagsetning á aðalmeðferð. Í ákærunni kemur fram að Mohamad Weti gerir kröfu á hendur Hauki um miskabætur upp á þrjár milljónir króna. Í ákærunni er Haukur sagður hafa komið Mohamad í lífshættulegt ástand sem birtist í meðvitundarskerðingu, krömpum og blóðsúrnun.

Segist ranglega sakfelldur fyrir skipulagða brotastarfsemi

Haukur segist telja að þessi manndrápsákæra hafi upphaflega komið til svo hægt væri að halda honum lengur í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar Sólheimajökulsmálsins. Gæsluvarðhald verði að endurnýja reglulega og þetta hafi verið notað til að réttlæta áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum.

„Sólheimajökulsmálið er síðan annar brandari,“ segir hann en þar var hann sakfelldur fyrir fíkniefnainnflutning og skipulagða brotastarfsemi og dæmdur í fimm ára fangelsi. Haukur var meðal annars sagður viðriðinn innflutning á 2,2 kg af kókaíni sem flutt var til landsins með skemmtiferðaskipinu Aidasol. Haukur tók við efnunum úr hendi annars manns sem flutti þau með skipinu og kom þeim fyrir. Hann segist hins vegar ekki hafa komið að skipulagningu innflutningsins á efnunum.

„Eigandi efnanna bað mig í skilaboðasamskiptum um að pikka upp pakka fyrir hann sem eigi að koma á morgun. Það sé eitt og hálft kíló. Ég gerði mér alveg fulla grein fyrir hvað hann var að tala um. Hann spurði hvort ég gæti sótt þetta og splittað þessu upp í einingar fyrir hann, gegn greiðslu, að sjálfsögðu. Ég samþykki það og viðurkenndi það alveg fyrir dómi. Daginn eftir sæki ég gaurinn sem flutti efnin og það var ekki fyrr en hann er sestur inn í bíl hjá mér að ég fatta og spyr: Hvað, komstu með skipi? Ég vissi ekki rassgat um þetta, þannig séð. Og lögreglan veit að ég vissi ekkert um þetta. Og ég hélt að þetta væri 1,5 kg en svo kom í ljós að þetta voru 2,2 kg af kókaíni. Ég keyrði síðan heim til mömmu, ég ákvað að splitta efnunum heima hjá henni, hún var á Spáni og mín íbúð var í útleigu. Þegar ég legg þar fyrir utan þá koma einhverjir sérsveitarmenn í lögguleik og þeir handtaka mig með miklum látum, eins og ég væri að fara að drepa einhvern. Ég sagði samt við sjálfan mig að það væri skiljanlegt, þetta var stór aðgerð.“

Sá sem hafði veg og vanda af innflutningnum og flutti efnin með skemmtiferðaskipinu skuldaði eiganda efnanna 10 milljónir króna. Hann segist hafa verið neyddur í ferðina en Haukur segir það vera rangt. „Hann var ekki þvingaður í ferðina, þetta var ákvörðun sem hann tók sem fullorðinn maður. Hann var samþykkur því að fara í þessa ferð til að reyna að greiða niður þessa skuld, hann var ekki neyddur í neitt. En hann lætur þetta hljóma þannig og það er hann sem fer að tala við lögregluna um skipulagða brotastarfsemi, í annarri eða þriðju yfirheyrslu, og fer að nafngreina fólk sem dregst inn í þessi mál. Það verður þetta Sólheimajökulsmál. Hann sleppur með 19 mánaða dóm, gaurinn sem flutti inn efnin og tók þátt í öllu plottinu og var að vasast í ölu saman. Gaurinn sem átti væntanlega að hagnast mest á þessum innflutningi vegna þess að þetta átti að dekka stóran hlut af þessari skuld sem hann var búinn að koma sér í. Og hann sleppur við ákæru um skipulagða brotastarfsemi.“

Haukur fékk tveggja ára fangelsi fyrir sinn hlut í Aidasol-málinu en auk þess fékk hann þrjú ár fyrir skipulagða brotastarfsemi. Hann segir þann dóm stafa af því að hann var nefndur til sögunnar í skilaboðaspjalli tveggja kvenna sem aðili tengdur um 3 kg af fíkniefnum sem lögregla fann í húsleitum í heimahúsum. „Það voru skilaboð milli tveggja stelpna í þessum hópi, um að það hafi verið komið einhverjum lykli á mig og hægt sé að nálgast lykilinn hjá mér. Þetta er rosalega langsótt, bara af því einhver lykill var skilinn eftir heima hjá mér í einhverju samtali sem ég tók ekki þátt í og get ekki svarað fyrir. Við skulum hafa í huga að ég var í „blackout“ út af neyslu á þessu tímabili en þeir vilja meina að ég hafi haft aðgengi að þessum geymslum. Svo byrja ég að selja fíkniefni 2024 í tvo mánuði og það eru til skilaboð um það. Þá er það einhvern veginn dregið inn í þennan 18 manna hóp og kallað skipulögð brotastarfsemi.“

Hann segir dóma í Sólheimajökulsmálinu vera fráleita. „Ég og hinn gaurinn í skipinu fáum fimm ára fangelsi en meintir höfuðpaurar í málinu fá fjögur ár hvor. Þetta er algjör sturlun sem viðgengst í íslensku réttakerfi, það á ekki að vera hægt að taka bara einhver fíkniefni í geymslu og segja að maður hafi tekið átt í skipulagðri brotastarfsemi.“

Átti tíu góð ár – „Vil komast þangað aftur“

Það er gott að tala við Hauk, hann er vingjarnlegur, skýr í tali og vel máli farinn. Hann hefur töluvert langan feril að baki sem rapptónlistarmaður og hefur skapað sér nafn í tónlistarheiminum. Hann á tvö börn sem eru rétt fyrir neðan unglingsaldur.

Hvaða augum lítur hann framtíðina og hvernig horfist hann  í augu við þann veruleika að hann er að afplána margra ára dóm og á frekari dóm á hættu?

„Við, ég og lögmaðurinn minn, vorum að reikna með tveimur árum eða minna. Ég vil taka ábyrgð á því sem ég gerði en mér finnst fimm ára fangelsi fyrir það sem ég gerði vera snargalið. Þetta eru ekki bara fimm ár af mínu lífi heldur líka af lífi barnanna minna sem gerðu ekkert af sér. Það er ekki bara verið að dæma mig í fangelsi því ég er einstæður faðir og þetta bitnar harkalega á börnunum mínum. Ég er til í að gangast við hlutum sem ég gerði en ekki einhverju miklu meira. Þarna er verið að gera það. Lögreglan veit alveg að ég var ekki partur af einhverri skipulagðri brotastarfsemi. Svo er bætt við þessari brjáluðu ákæru um manndrápstilraun.“

Haukur segir að fangelsi sé ekki góður staður en lætur þó ekki mjög illa af vistinni á Litla-Hrauni. Hann hafi eignast þar lítinn vinahóp sem lyndir vel saman. Landsréttur tekur líklega fyrir áfrýjun hans í Sólheimajökulsmálinu næsta sumar. Haukur vonast til að dómurinn verði mildaður verulega. Hann vonast jafnframt til þess að verða sýknaður af manndrápsákærunni.

„Okkar markmið er að ég gangi út héðan sem frjáls maður eftir Landsrétt og þurfi ekki einu sinni að fara á Vernd,“ segir hann en Haukur hefur setið inni núna samfleytt frá því snemma í apríl 2024.

„Varðandi lífið hérna inni þá er ég betur settur en margir hérna vegna þess að ég átti tíu góð ár edrú, frá því ég var 23 ára til 33 ára, og lifði þá bara rosalega góðu, heilbrigðu og heiðarlegu lífi. Ég stefni þangað aftur. Þetta er erfitt gagnvart börnunum mínum sem heyra eldri krakkana í skólunum, sem lesa kannski fréttirnar, tala um mig, eftir að ég hef verið útmálaður í einhverjum fjölmiðlum sem stórglæpamaður. Ég á alveg minn sakaferil og það vita allir að ég er enginn engill, en það er ekkert horft til þess að ég átti tíu ár edrú þar sem ég styrkti góð málefni og hjálpaði fólki,“ segir Haukur Ægir Hauksson, sem vill endurvekja góða edrútímann í lífi sínu og segist engan veginn standa undir því að kallast stórglæpamaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ólöf Tara er látin

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ógnaði ökumanni með hnífi við Dalshraun

Ógnaði ökumanni með hnífi við Dalshraun
Fréttir
Í gær

Flugslysið hörmulega: Ákvað að fara fyrr heim til að komast á stefnumót með kærastanum

Flugslysið hörmulega: Ákvað að fara fyrr heim til að komast á stefnumót með kærastanum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hatrammar ofsóknir bróður enduðu með ósköpum eftir falskar ásakanir um barnaníð

Hatrammar ofsóknir bróður enduðu með ósköpum eftir falskar ásakanir um barnaníð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Skúli býður sig fram til formanns VR

Þorsteinn Skúli býður sig fram til formanns VR