Megn óánægja virðist hafa verið undanfarið meðal íbúa á Seltjarnarnesi og í vesturbæ Reykjavíkur með verslun Hagkaupa á Eiðistorgi. Segja þeir verslunina töluvert lakari en aðrar Hagkaupsverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Vöruúrval sé lélegt og mikið sé um að matvörur í versluninni, ekki síst grænmeti, séu ónýtar. Umræðan fór ekki framhjá framkvæmdastjóra Hagkaupa sem lofar bót og betrun.
Rætt var um verslunina í íbúahópi Vesturbæinga á Facebook. Málshefjandi var fjölmiðlakonan Þóra Kristín Ásgeirsdóttir sem starfað hefur undanfarin ár sem upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar:
„Hefur einhver velt fyrir sér af hverju lélegasta Hagkaupsverslun landsins þjónar Vesturbæ og Nesi? Það er alveg ótrúlegt hvað það virðist vera mögulegt að reka þessa verslun illa, iðulega lélegt grænmeti, gleymist að panta inn vörur dögum saman. Á laugardaginn keypti ég súrdeigsbrauð og snúð í bakaríinu og þegar ég kom heim sá ég að bakkelsið var frá því deginum áður. Hagkaup í Garðabæ er tildæmis frábær verslun, svo ekki sé talað um í Kringlunni. Af hverju er staðið svona illa að þessu útibúi ár eftir ár.“
Fleiri landsþekktir íbúar hverfisins tóku undir þessi ummæli. Gerður Kristný rithöfundur lýsti óánægju með villandi auglýsingar í versluninni:
„Svo er fríhafnarafsláttssnyrtivöruauglýsingu stundum skellt í gluggann til að bjóða upp á það sama og í hinum Hagkaupsbúðunum án þess að neinar snyrtivörur séu í raun til, nema þá helst tannkrem og bómullarskífur.“
Höskuldur Kári Schram fréttamaður á RÚV segir starfsmenn verslunarinnar lítið hafa sinnt ábendingum hans um það sem betur mætti fara:
„Fer reglulega þangað út af nálægð til að kaupa eitthvað smotterí sem vantar. Aldrei stórinnkaup enda er verðlagningin sturluð. Sirka 15 til 30 prósent dýrari en Krónan og Bónus. Oft verið að selja vörur sem eru á síðasta söludegi eða hreinlega útrunnar. Hreinlæti virðist líka mæta afgangi. Í nóvember benti ég starfsmönnum á að mjólk væri að leka út um allt í kæli. Mjólkurfernur sem láku. Kælirinn hefur enn ekki verið þrifinn þremur mánuðum seinna og þar má sjá gula myglu á hillum. Mjög sérstakt.“
Jónína Leósdóttir rithöfundur hefur sams konar sögu að segja og Höskuldur Kári:
„Ég hef margoft farið með myglað grænmeti inn í „búrið“ til verslunarstjórans en það virðist engu breyta þótt kvartað sé yfir ónýtu grænmeti, melónubitum sem orðnir eru að graut o.s.frv. Svo er enginn raki á kryddjurtum (basilíku t.d.) svo þessi dásamlega vara eyðileggst fljótt í búðinni. Það var ótrúlegt að koma svo inn í Hagkaup í Garðabæ um daginn – eins og annar heimur. M.a. mjög vel hugsað um grænmetið og ávextina.“
Þóra Kristín tekur undir þessi ummæli Jónínu sem svarar á móti með því að segja að ástandið í versluninni sé sérstaklega slæmt fyrir hana sem grænmetisætu:
„Einmitt. Þetta er svo skrítið. Það er eins og eigendur verslunarinnar gefi bara skít í þennan borgarhluta.“
„Kannski fer öll orka vaktstjóranna í að redda starfsfólki svo enginn tími er í yfirsýn og lagfæringar. Ætli það sé ekki hröð starfsmannavelta í búð þar sem iðulega vinna margir ungir krakkar? Mér finnst áhugaleysi og kæruleysi lýsa best ástandinu í deildinni fremst í búðinni – en þar sem ég er grænmetisæta skiptir sú deild mig miklu. Í Garðabæ var sérstök sælkeradeild með alls kyns salötum og gúmelaði sem aldrei sést á Eiðistorgi.“
Fleiri taka undir þessar umkvartanir en umræðan fór ekki framhjá Sigurði Reynaldssyni framkvæmdastjóra Hagkaupa og í athugasemd við færslu Þóru Kristínar heitir hann því að ástandið í versluninni á Eiðistorgi verði bætt:
„Takk fyrir þessar ábendingar, við tökum þeim alvarlega. Við viljum gera betur alla daga og nú brettum við upp ermar á Nesinu.“