Ónefndur Íslendingur furðar sig á því í færslu á samfélagsmiðlum hvers vegna viðkomandi ásamt maka sínum hafi fengið barnabætur þar sem þau hjónin séu svo tekjuhá. Segir umræddur einstaklingur að þau hafi enga þörf fyrir barnabætur.
Í færslunni skrifar umræddur einstaklingur:
„Finnst þetta tilfærslukerfi komið út í rugl. Hjón með 28.5m í árslaun fá barnabætur Er nema von að ríkissjóður sé rekinn með halla?“
Með færslunni er birt skjáskot af heimasvæði hjónanna á heimasíðu Skattsins. Á skjáskotinu má sjá að hjónin eiga þrjú börn og voru með samtals rétt yfir 28,5 milljónir króna í tekjur á síðasta ári. Samkvæmt skjáskotinu áttu þau að fá samtals um 169.500 krónur, eftir skerðingar vegna tekna, í barnabætur, en þó ekki alla upphæðina í einu.
Í athugasemdum við færsluna má sjá að skoðanir eru skiptar. Einn aðili spyr af hverju þau hjónin sem séu svona tekjuhá þurfi bætur. Málshefjandi svarar því þannig að ríkið líti svo á að þau þurfi þessar bætur en sú sé ekki raunin.
Til hvers?
Annar aðili bendir á að barnabæturnar sem hjónin fá séu frekar lágar miðað við það sem tíðkast í nágrannalöndunum. Til að mynda séu engar tekjuskerðingar í Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi. Með því að borga tekjuhærra fólki barnabætur sé verið að hvetja til barneigna, koma í veg fyrir að það skapist stétt þeirra sem vilji lifa alfarið á velferðarkerfinu og svo sé dýrt að eiga börn.
Málshefjandi svarar þessari athugasemd á þann hátt að annað hvort eigi ekki að skerða barnabætur vegna tekna eða greiða þær eingöngu til þeirra foreldra sem þurfi á þeim að halda.
Fleiri taka undir með að svona eigi ekki að fara með skattfé. Barnabætur eigi ekki að vera nema fyrir þau sem þurfi mest á þeim halda en aðrir minna á að svona sé þetta í nágrannalöndunum og það sé ekkert að þessu:
„Þetta er svona á öðrum Norðurlöndum, í raun mun minna skert en hér. Finnst þetta bara alls ekkert galið.“
Því er hins vegar andmælt í einu svari að það sé eðlilegt að fara að fordæmi Norðurlandanna í þessum efnum og betra sé að nota opinbert fé í eittthvað annað en að greiða svona tekjuháu fólki barnabætur:
„Bara af því hin Norðurlöndin gera eitthvað þýðir ekki að það sé rétt. Noreðmenn eiga líka skítnóg af peningum. Það er galið þegar fólk er sofandi á ganginum á spítalanum, og dómar glæpamanna fyrnast vegna plássleysis, og ríkið er rekið í bullandi tapi, en samt er fólk með laun vel yfir miðgildi að fá bætur.“
Annar aðili sem leggur orð í belg segist einnig hafa orðið afar hissa á því að hafa fengið barnabætur þar sem þau hjónin séu bæði þokkalega launuð.
Í einni athugasemd er lýst furðu yfir því að barnabætur séu hærri með yngri börnum þar sem dýrara sé að eiga eldri börn. Málshefjandi tekur undir það. Vísað er þar til dæmis í kostnað við tómstundastarf og að eftir því sem börnin eldist borði þau meira:
„Þetta verður bara dýrara og dýrara.“