fbpx
Fimmtudagur 09.janúar 2025
Fréttir

Baldur: Hefði mikil áhrif á Íslandi ef Bandaríkin beita hervaldi á Grænlandi – Myndu taka yfir hafnir og flugvelli

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 9. janúar 2025 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, segir að það myndi hafa mikil áhrif hér á landi ef Bandaríkjamenn myndu beita hervaldi til að ná Grænlandi á sitt vald.

Donald Trump, sem tekur við völdum í Hvíta húsinu síðar í þessum mánuði, hefur látið hafa eftir sér að hann útiloki ekki að beita hervaldi til að ná völdum yfir Grænlandi og Panama. Trump virðist vera fúlasta alvara því þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann viðrar þá skoðun sína að Bandaríkin þurfi að ná Grænlandi á sitt vald.

Íslensk stjórnvöld megi þakka fyrir

Baldur fer yfir málið í athyglisverðri grein á Facebook-síðu sinni þar sem hann veltir þeirri spurningu upp hvort Ísland sé mögulega í hættu vegna ásælni Trumps á Grænlandi.

Í greininni segir Baldur að líklegt sé að Trump sé að reyna að skapa sér samningsstöðu þegar kemur að því að semja um aðgang að auðlindum og hernaðaraðstöðu á Grænlandi.

Sjá einnig: Leggur til að Ísland falbjóði sig Trump

„Mikil samkeppni er orðin um sjaldgæfa málma í heiminum og hann ætlar að tryggja Bandaríkjamönnum þar á meðal Elon Musk aðgang að auðlindum sem leynast undir Grænlandsísnum. Bandaríkin þurfa á þessum málmum að halda í framtíðinni ætli þeir sér að eiga roð í kínversk stjórnvöld. Trump hefur með ummælum sínum þegar tekist að styrkja verulega samningsstöðu Bandaríkjanna ef marka má ummæli utanríkisráðherra Dana sem segir að semja megi um þessi mál við þau,“ segir Baldur.

Hann nefnir einnig að vitað sé að Trump óttast verulega aukin efnahagsleg og hernaðarleg umsvif Kína í heiminum. Bendir hann á að skilaboð forsetans verðandi til grænlenskra og danskra stjórnvalda séu afdráttarlaus. Bandaríkin muni ekki líða neitt samkrull þeirra við Kína.

„Pence varaforseti Trump gerði slíkt hið sama í opinberri heimsókn sinni til Íslands þegar hann lýsti því yfir að Ísland myndi ekki taka boði Kína um að taka þátt í Belti og braut verkefninu – án þess að formleg opinber ákvörðun hafi verið tekin um það af íslenskum stjórnvöldum. Íslensk stjórnvöld lögðu í kjölfarið alla nánari samvinnu við Kína á hilluna,“ segir Baldur og bætir við að íslenskum stjórnvöldum muni ekki leyfast aukin samvinna við Kína meðan Trump dvelur í Hvíta húsinu. Raunar megi íslensk stjórnvöld þakka fyrir að Bandaríkin skipti sér ekki af fríverslunarsamningi við Kína en svo gæti vel farið.

Sjá einnig: Frakkar vara Trump við vegna Grænlands – Tekið verði hart á Bandaríkjamönnum

Tækju yfir flugvelli og hafnir hér á landi

„Í öðru lagi má telja ólíklegast að Bandaríkin undir forystu Trumps beiti hervaldi til að sölsa undir sig Grænland. Þau þurfa þess ekki. Danir hafa þegar gefið út að þeir muni semja við Bandaríkin,“ segir Baldur en tekur þó fram að annað kunni að koma á daginn fari grænlensk stjórnvöld að halla sér að Kína. Færi svo að kæmi til hinnar ólíklegu stöðu að Bandaríkjaher taki yfir Grænland megi allt eins gera ráð fyrir að hann tæki um leið yfir flugvelli og hafnir hér á landi. Óvíst sé hversu lengi það stæði yfir, segir Baldur, en að minnsta kosti meðan á aðgerðum á Grænlandi stendur.

„Hver hefði trúað þessum ólíklegasta möguleika fyrir nokkrum dögum? Hvað er til ráða,“ spyr Baldur sem endar grein sína á þessum orðum:

„Það hefur ekki verið mikilvægara en frá hápunktum kalda stríðsins að efla efnahagslega, diplómatíska og hernaðarlega samvinnu við Norðurlöndin, önnur Evrópuríki, Evrópusambandið og Bandaríkin. Kristrún og Þorgerður Katrín þurfa báðar að ná tali af verðandi kollegum sínum í Bandaríkjunum fyrir mánaðamót.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt