fbpx
Fimmtudagur 09.janúar 2025
Fréttir

Kristinn segir ríkisstyrktar þakkir Foster hafa tæmt Kvikmyndasjóð – „Rausnarskapur Íslendinga var svo mikill“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 8. janúar 2025 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, veltir fyrir sér bandarísku sjónvarpsþáttunum True Detective: Night Country, sem teknir voru upp hérlendis. Segir Kristinn rausnarskap Íslendinga svo mikinn að Kvikmyndasjóður hafi greitt ríflega fjóra milljarða til framleiðslunnar með þeim afleiðingum að sjóðurinn sé tæmdur og lítið eftir fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn til að búa til íslenskar bíómyndir.

„Þegar Jodie Foster leikkona tók á móti Golden Globe verðlaununum í fyrradag sem besta leikkona ársins fyrir hlutverk sitt í True Detective: Night Country sendi hún sérstakar þakkir til Íslendinga í ræðu sinni – en þáttasería HBO var tekin upp á Íslandi. Þakkirnar beindust líklegast mest að því að íslenskir skattgreiðendur borguðu drjúgan hluta af launum hennar fyrir hlutverk lögreglukonunnar í seríunni. Í heildina greiddi Kvikmyndamiðstöð ríflega fjóra milljarða til framleiðslunnar og gerði það að verkum að sjóðir miðstöðvarinnar tæmdust, svo lítið sem ekkert er til skiptana fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn til að búa til íslenskar bíómyndir. Rausnarskapur Íslendinga var svo mikill við að ríkisstyrkjum framleiðslu sjónvarpsefnis í Hollywood – fyrir allan peninginn,“

segir Kristinn í færslu sinni á Facebook.

Hvaða þættir eru þetta?

Þáttaröðin True Detective: Night Country er fjórða þáttaröð True Detective, sem hver og ein segir sjálfstæða sögu með nýjum leikarahópi. Þáttaraðirnar hafa allar hlotið lof áhorfenda og gagnrýnenda, þær fyrsta og fjórða mesta lofið, og rakað inn verðlaunum á hinu ýmsu hátíðum. Jodie Foster fékk verðlaun sem besta leikkonan í aðalhlutverki í stakri þáttaröð á Golden Globes verðlaunahátíðinni síðastliðinn sunnudag. Meðleikkona hennar, Kali Reis var tilnefnd sem besta aukaleikkonan og þáttaröðin sem sú besta.

Þáttaröðin var tilnefnd til sex verðlauna á EMMY-hátíðinni síðastliðinn september og hlaut Foster verðlaunin sem besta leikkonan í stakri þáttaröð. Þakkaði hún íslenskum starfsmönnum frá True North og öðrum sem komu að þáttaröðinni fyrir gott samstarf og sagði einfaldlega „Takk fyrir“ á góðri íslensku. Á Golden Globes þakkaði hún einnig Íslendingum fyrir en lét enskuna duga í þetta sinn.

Spyr hvort Íslendingar hafi greitt helminginn af framleiðslu einnar dýrustu þáttaraðar síðasta árs

Kristinn segir í færslu sinni að erfitt sé að fá tölur til að ganga upp í dæminu. Segir hann að þegar framleiðandinn, sjónvarpsstöðin HBO „bankaði upp á báðu þeir um að fá endurgreiðslu á kostnaði sem félli til við framleiðsluna á Íslandi og hækkun á því hlutfalli úr 25% í 35%. Þeim var tekið opnum örmum og endurgreiðsluhlutfallið snarlega hækkað upp með flýtimeðferð á Alþingi. Þá var nefnt í fréttum að áætlaður framleiðslukostnaður seriunnar yrði 60 milljónir dollara. Í fréttum víða á netinu er þessi tala ennþá nefnd sem heildarkostnaður við gerð sjónvarpsseríunnar en 60 milljónir dollara eru jafnvirði 8,4 milljarða króna. Nú mætti ætla að menn hafi gert ráð fyrir því að endurgreiðsla úr íslenska ríkissjóðnum færi aldrei yfir 35% af þeirri tölu – og væntanlega eitthvað undir, því einhver hluti framleiðslukostnaðar hlýtur að hafa fallið til í Bandaríkjunum. En ríflega 4 milljarða króna greiðsla úr ríkissjóði en nú talsvert yfir þeirri tölu enda stappar nærri að vera 30 milljónir dollara eða tæpur helmingur af því sem serían á að hafa kostað í heild – sem sagt um 60 milljónir dollara. Varla voru íslenskir skattgreiðendur að borga helminginn af framleiðslu seríunnar, eða hvað?“ spyr Kristinn.

„Ef til vill er framleiðslukostnaður sagður 60 milljónir dollara AÐ TEKNU TILLITI til rausnarlegs framlags frá íslenskum skattgreiðendum. Þá hefur Ísland borgað 1/3 af heildarkostnaði sjónvarpsseríunnar að því gefnu að nánast allur framleiðslukostnaður féll til hér á landi eða i það minnsta á EES svæðinu. Sem er erfitt að trúa.“

Í frétt Movieweb frá 22. desember 2024 þar sem fjallað er um 10 dýrustu sjónvarpsþáttaraðir þess árs er True Detective: Night Country í 9. sæti og framleiðslukostnaður sagður 60 milljónir dala. (Til gamans má geta að önnur þáttaröð The Lord of the Rings: The Rings of Power er í fyrsta sæti listann með framleiðslukostnað upp á 58 milljónir dala per þátt, alls átta þættir.)

RÚV fjallaði um málið undir lok október í fyrra, þar kom meðal annars fram að sá kostnaður sem féll til hér á Íslandi var rúmir ellefu milljarðar og endurgreiðslan úr ríkissjóði nam því rúmum fjórum milljörðum. Um nærri tveggja ára verkefni var að ræða, HBO hóf að kanna tökustaði á Reykjanesi og Akureyri í febrúar 2022 til að finna landslag sem hægt væri að tengja við Alaska.

Hver er landkynning True Detective: Night Country?

Kristinn bendir á að á vef Kvikmyndamiðstöðvar segi að skilyrði fyrir endurgreiðslu sé eftirfarandi: „…að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu á listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa.“

„Þessi framleiðsla Night Country uppfyllir ekkert af fyrstu skilyrðunum. Það er myrkur hávetur í allri seríunni. Ekkert sem viðkemur sögu Íslands bregður þar fyrir, engin íslensk menning er þar kynnt né heldur nokkur íslensk náttúra. Það helgast ef til vill að því að Jodie Foster er að leika lögreglukonu í Alaska í Bandaríkjunum og ef einhverri sögu og menningu bregður þar fyrir, er það sú sem sprettur frá frumbyggjum í Alaska. Þetta verkefni er því lítill stuðningur við íslenskan túrisma en vel kann að vera að hún örvi vetrarferðir til Alaska.“ 

Í frétt RÚV kemur fram að Lilja Alfreðsdóttir menningarráðherra og Leifur Dagfinnsson, forstjóri True North, hafi átt fund með háttsettum aðilum frá HBO í febrúar árið 2022. Í kjölfarið sendi Lilja Leifi viljayfirlýsingu sem er dagsett 16. mars 2022. Í henni kemur fram að það sé vilji Lilju og stjórnvalda að hækka endurgreiðsluna fyrir stór verkefni sem hingað koma úr 25 prósentum í 35 prósent. Reikni hún með að frumvarp með slíkri endurgreiðsluprósentu verði að lögum í janúar 2023. Þann 22. mars lagði Lilja síðan minnisblað fram á ríkisstjórnarfundi um þessi áform sín.

Tveimur dögum síðar barst Lilju bréf frá Jay Roewe, háttsettum forstjóra hjá HBO, þar sem hann fór þess á leit að HBO yrði það loforð að 35 prósent af framleiðslukostnaði True Detective verði endurgreiddur þótt frumvarp ráðherrrans verði ekki að lögum. Í bréfi sínu sagði Roewe að til þess að tökur á þáttaröðinni yrðu að veruleika hérlendis þurfi HBO að ráðast í uppbyggingu á innviðum í íslenskri sjónvarps- og kvikmyndagerð. Þessum auka tíu prósentum verði að mestu leyti varið í þá uppbyggingu. Þáttaraðirnar njóti mikilla vinsælda, mikið verði lagt í markaðssetningu á þáttunum og ekki megi gleyma þeim áhrifum sem þáttaröðin geti haft á ferðaþjónustu og því að ríkissjóður fái skatttekjur af launagreiðslum leikara eins og Jodie Foster.

Jay Roewe

Til að gera langa sögu stutta þá var frumvarpið lagt fram á Alþingi 20. maí 2022, en ekki í janúar 2023. Frumvarpið flaug í gegn, þáttaröðin var tekin upp hérlendis og er sú eina hingað sem hefur nýtt sér þessa lagabreytingu.

Velta má því upp eins og Kristinn gerir hver er landkynning þáttanna fyrir hinn almenna áhorfenda. Þættirnir eiga ekki að gerast hérlendis heldur í Alaska og ekkert sést sem bendir til Íslands. Vissulega hefur Jodie Foster verið dugleg hvar sem hún kemur fram í viðtölum og vinnur verðlaun að hrósa landinu og íslenska starfsfólkinu í hástert og verður það að teljast mikilvæg landkynning að ein þekktasta og virtasta leikkona heims mæri okkur svo mikið.

Óráðsía sem Lilja fyrrum ráðherra beri ábyrgð á

Fjölmargir hafa látið sér líka við færslu Kristins, deilt henni og/eða tjáð sig í athugasemdum. Finnst mörgum þetta brjálæði, della, klúður sem Lilja Alfreðsdóttir fyrrum menningarráðherra beri ábyrgð á, bruðl og óráðsía og þar fram eftir athugasemdunum. Þór Saari fyrrum þingmaður segir:„Fékk ekki Lilja Alfreðsdóttir selfí af sér með Jódí? Það ætti nú að vera nóg. Úff! Þvílík della.“

Nokkrir tjá sig sem tengjast málinu, þar á meðal Atli Bergmann, sem segir verkefnið vissulega hafa skilað peningum í ríkiskassann og honum verkefnum í ferðaþjónustu:

„Þetta verkefni HBO skilaði rúmum 7,5 milljörðum í kassan og það í dollurum,.. það eitt og sér er magnað. Auk þess að ég og hundruð verktaka, leikara, tækniliðs og stór hluta íslensks kvikmyndagerðafólks höfðum atvinnu af auk gífurlega góðrar og dýrmætrar reynslu sem svo sannarlega veitir ekki af fyrir okkar innlendu kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð. Ps ; ég hef fengið túristatúra bæði vegna Night Country og Game of Thrones og það þrátt fyrir að þær senur ætti ekki að gerast á Íslandi.“

Kristinn segir verkefnið hafa skilað íslensku kvikmyndagerðarfólki miklu

Kristinn segir einmitt í færslu sinni seinni hluti skilyrða fyrir endurgreiðslu vissulega til staðar. Íslenski kvikmyndatæknigeirinn hafi fengið „mikla reynslu, þekkingu (og peninga) og naut efalítið góðs af því að tæpa af brunni HBO þegar kemur að „þekkingu á listrænum metnaði“. Það er svo spurning hvort ekki hefði mátt örva þann listræna metnað með því að láta íslenska græjufólkið bara fá beint þessa fjóra milljarða.

Svo finnst íslenskum kvikmyndagerðarmönnum efalítið dálítið súrt í broti að þeir fá enga aura til þess að efla og örva sinn listræna metnað, þar sem HBO hefur þurrausið alla sjóði. Þeir geta ef til vill beðið Jodie Foster að koma og stappa í þá stálinu. Á eigin kostnað.“

Í frétt RÚV í október kom fram að starfsmannafjöldinn við verkefnið var um og yfir sex hundruð manns en með aukaleikurum um sextán hundruð. Allar fjárhagsáætlanir tóku mið af því að geta brugðist við veðri og vindum auk þess sem HBO vildi að COVID-reglum væri fylgt með sýnatökum og tilheyrandi inngripum. Tökudagarnir voru 125, þar af 56 að nóttu til og tökuliðið líkti sjálfu sér við sirkuslest þegar það kom til Dalvíkur með allt sitt hafurtask. Verkefnið var alla jafna rætt um stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar.

Segja Kristinn fara með rangt mál

Nokkrir benda á að Kristinn fari einfaldlega með rangt mál. Þar á meðal Kristján B. Jónasson sem segir: „Það er sérkennilegt að sjá hér greinilega vísvitandi farið með rangt mál frá manni sem dregur nú ekki af sér þegar honum finnst aðrir ekki gera það.“

Grímur Hákonarson kvikmyndaleikstjóri og handritshöfundur segir um færslu Kristins að hann og aðrir þurfi að gera greinarmun á Kvikmyndasjóði og rétti til endurgreiðslu:
„Það þarf að gera greinarmun á Kvikmyndasjóði annars vegar og endurgreiðslukerfinu hins vegar. Þetta er ekki það sama. Kvikmyndasjóður úthlutar styrkjum til innlendra verkefna en endurgreiðslurnar eru opnar öllum kvikmyndaverkefnum, innlendum sem erlendum, sem eru tekin upp hér á landi. Þessir 4 milljarðar sem True Detective fékk koma beint úr ríkissjóði en ekki úr Kvikmyndasjóði.“

Grímur Hákonarson

Grímur bendir á að það sé hins vegar rétt hjá Kristni að hækkunin á endurgreiðslunni um 10% hefur haft áhrif á innlenda framleiðslu, „því á sama tíma og endurgreiðslan var hækkuð í 35% voru framlög til kvikmyndasjóðs skorin niður. Það er einnig sennilegt að framleiðendur True Detective hafi beitt bókhaldsbrellum til að fá meira út úr íslenska ríkinu. Þarna vantar upp á regluverk, eins og á mörgum öðrum stöðum. Hugmyndin á bak við endurgreiðslukerfið er góð en framkvæmdina þarf að skoða.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Mátti saka fyrrverandi um nauðgun

Mátti saka fyrrverandi um nauðgun
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Milljónamæringur fær á baukinn: Sagðist tilbúinn að borga slökkviliðsmönnum „hvað sem er“ fyrir að verja heimili sitt

Milljónamæringur fær á baukinn: Sagðist tilbúinn að borga slökkviliðsmönnum „hvað sem er“ fyrir að verja heimili sitt
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Þorgerður Katrín um vopnakaup og stuðning við Úkraínu – „Þetta getur alveg eins gerst hér heima“

Þorgerður Katrín um vopnakaup og stuðning við Úkraínu – „Þetta getur alveg eins gerst hér heima“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Grænlendingar stefna á stórt skref í átt að sjálfstæði – Fá ekki stuðning allra danskra stjórnmálaflokka við það

Grænlendingar stefna á stórt skref í átt að sjálfstæði – Fá ekki stuðning allra danskra stjórnmálaflokka við það