fbpx
Föstudagur 24.janúar 2025
Fréttir

Jón Þór ákærður fyrir manndrápstilraun á Vopnafirði – Áður dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn stúlkum á meðferðarheimili

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 8. janúar 2025 22:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Þór Dagbjartsson, 56 ára gamall maður frá Hámundarstöðum á Vopnafirði, hefur verið ákærður fyrir  stórfellt brot gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni. Ákært er vegna tveggja brota sem framin voru með stuttu millibili um miðjan október.

DV greindi frá málinu nokkrum dögum eftir atvikin og vakti það mikla athygli að lögregla færðist undan því að krefjast gæsluvarðhalds yfir Jóni Þóri og setja hann í nálgunarbann gagnvart brotaþola, Hafdísi Báru Óskarsdóttir. Í kjölfar fréttaflutnings af málinu var Jón Þór síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald og nálgunarbann.

Sjá einnig: Óhugnanlegt ofbeldismál skekur Vopnafjörð – „Hann segir að rifflinum sé miðað að húsinu hennar“ 

Skömmu síðar ræddi Hafdís Bára málið við DV. Hún sagði að maður eins og Jón Þór ætti ekki að ganga laus. Hún sagði einnig:

„Ísland þarf að fara að gera sér grein fyrir einstaklingum sem eru siðblindir. Einstaklingum sem eru það veikir að þeir eru bara í leikriti. Honum tókst að fá sig lagðan inn á geðdeild með því að hóta sjálfsvígi. En þetta er maður sem hefur hótað sjálfsvígi lengi en sem mun aldrei þora að taka eigið líf. Þetta er maður sem á ekki að komast upp með að ganga laus í íslensku samfélagi. Staðan er orðin þannig í dag. Við þessar konur sem hann hefur verið í langtímasamböndum með, við höfum allar elskað hann heitt og innilega og höfum reynt að gera það sem við gátum til að aðstoða hann.“

Sjá einnig: Hafdís varð fyrir manndrápstilraun á Vopnafirði – „Þetta er maður sem á að vera í fangelsi, hann á ekki að ganga laus“

Auk ákæru fyrir brotin tvö gegn Hafdísi var Jón Þór ákærður fyrir brot gegn karlmanni á Vopnafirði haustið 2023 og fyrir vopnalagabrot um sama leyti.

Kynferðisleg áreitni, húsbrot og tilraun til manndráps

Jón Þór er ákærður fyrir kynferðislega áreitni og húsbrot með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 13. október 2024 farið í heimildarleysi inn á heimili Hafdísar og síðan inn í svefnherbergi hennar þar sem hún var stödd, haldið henni niðri í rúmi hennar, reynt að kyssa hana, káfað á henni og rifið hana úr buxum og nærbuxum, áður en Hafdís náði að ýta honum af sér og koma honum fram á gang í húsinu, og eftir það neitað að yfirgefa heimilið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir Hafdísar um það.

Jón Þór reyndi síðan að myrða Hafdísi þremur dögum síðar, síðdegis miðvikudaginn 16. október. Brotið var framið í skemmu við heimili Hafdísar þar sem Jón Þór veittist að henni með rúllubaggateini og notaði hann til að reyna að stinga hana í kviðinn. Hann ýtti við henni þar til hún féll til jarðar og notaði síðan teininn til að þrengja að hálsi hennar með þeim afleiðingum að hún hætti að geta andað og meðvitund hennar skertist. Hlaut Hafdís töluverða áverka af árásinni og var flutt á sjúkrahús á Akureyri.

Misþyrmdi manni á Vopnafirði

Jón Þór er einnig ákærður fyrir líkamsárás á mann á Vopnafirði í nóvember árið 2023. Er hann sakaður um að hafa veitt manninum ítrekuð högg í andlit og líkama, meðal annars með áldós. Hlaut maðurinn umtalsverða áverka af árásinni.

Jón Þór er einnig ákærður fyrir vopnalagabrot en um sama leyti og árásin átti sér stað fann lögregla 14 skotvopn við húsleit á heimili hans auk fjölda skotfæra. Hafði hann ekki skotvopnaleyfi og vopnin voru ekki skráð á hann.

Misnotaði stúlkur á meðferðarheimili

Jón Þór á langan brotaferil að baki en þar ber helst að nefna kynferðisbrot sem hann var sakfelldur fyrir árið 2010, gegn stúlkum sem höfðu verið vistaðar á meðferðarheimilinu Árbót, þar sem hann starfaði. Hlaut hann fangelsisdóm fyrir.

Þáverandi eiginkona Jóns Þórs varði hann með kjafti og klóm í viðtölum við fjölmiðla og sakaði stúlkurnar um ósannindi. Í frétt sem Vísir birti árið 2011 segir að stúlkurnar hafi orðið fyrir ófrægingarherferð og hafi þar ekki getað borið hönd fyrir höfuð sér:

„Fyrrverandi vistmenn á meðferðarheimilinu Árbót, sem kærðu fyrrverandi starfsmanns heimilisins fyrir kynferðisofbeldi, hafa þolað árásir í fjölmiðlum vegna ákæranna. Barnaverndarstofa og þrjár barnaverndir á landinu hafa nú sent frá sér ályktun þar sem segir að barnaverndaryfirvöld geti ekki orða bundist yfir þessari umfjöllun. Í fyrra var Jón Þór Dagbjartsson, fyrrverandi starfsmaður Árbótar, dæmdur í fangelsi fyrir brot gegn stúlkum sem höfðu verið vistaðar á Árbót. Eiginkona Jóns hefur meðal annars ítrekað rætt mál hans í ýmsum fjölmiðlum eftir að dómur féll í máli hans, þar sem hún hefur komið honum til varnar.

Barnaverndaryfirvöld gera athugasemd við þá umfjöllun sem fram hefur farið. „Hafa stúlkurnar, sem eðli málsins samkvæmt eiga erfitt með að verja sig sjálfar, þurft að þola árásir í fjölmiðlum mánuðum saman þrátt fyrir að um sé að ræða mál þar sem viðkomandi starfsmaður hefur verið dæmdur fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart barni á meðferðarheimili bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, barni sem honum var falið að styðja við og vernda. Hafa árásirnar farið fram með greina- og fréttaskrifum á netmiðlum, í ljósvakamiðlum sem og með undirskriftarsöfnun þar sem almenningur er hvattur til þess að taka afstöðu gegn stúlkunum og gera þannig lítið úr því ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir,“ segir í ályktun barnaverndaryfirvalda.“

Jón Þór hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan seint í október. Hluta af þeim tíma hefur hann verið á geðdeild.

DV hefur ekki upplýsingar um hvenær málið gegn Jóni Þóri verður þingfest en það verður rekið fyrir Héraðsdómi Austurlands.

Ákæran gegn honum var gefin út á þriðjudag og jafnframt var gæsluvarðhald yfir honum framlengt um fjórar vikur.

Fréttinni hefur verið breytt

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Segir ríkisskattstjóra mismuna styrkþegum – „Bindum vonir við að fjármálaráðherra bregðist hratt og örugglega við“

Segir ríkisskattstjóra mismuna styrkþegum – „Bindum vonir við að fjármálaráðherra bregðist hratt og örugglega við“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Sindri Þór grunaður um fjárdrátt í starfi

Sindri Þór grunaður um fjárdrátt í starfi
Fréttir
Í gær

Segir Rússa vera að endurvopnast í því skyni að ráðast á NATÓ-ríki

Segir Rússa vera að endurvopnast í því skyni að ráðast á NATÓ-ríki
Fréttir
Í gær

Öflugasta gervigreindar fartölvan komin til landsins

Öflugasta gervigreindar fartölvan komin til landsins
Fréttir
Í gær

Sauð upp úr í Mosfellsbæ: Réðst á barn sem var með læti á veitingastað

Sauð upp úr í Mosfellsbæ: Réðst á barn sem var með læti á veitingastað
Fréttir
Í gær

Seldi íbúð en þarf að endurgreiða hluta söluverðsins vegna galla

Seldi íbúð en þarf að endurgreiða hluta söluverðsins vegna galla
Fréttir
Í gær

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn