Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur gefið út lokaskýrslu vegna alvarlegs slyss sem varð á Ásvöllum í Hafnarfirði í lok október 2023. Í slysinu var vörubifreið ekið á átta ára dreng, Ibrahim Shah Uz-Zaman, sem lést. Er það niðurstaða skýrslunnar að meginorsök slyssins hafi verið sú að ökumaðurinn hafi ekki veitt Ibrahim, sem var á hjóli, athygli. Aðrar orsakir eru þær að aðkoma vinnutækja og umferð óvarinna vegfarenda um svæðið þar sem slysið varð, sem var vinnusvæði, hafi ekki verið nægilega afmörkuð.
Í skýrslunni er því lýst hvernig slysið bar að en Ibrahim er ekki nafngreindur í henni. Ibrahim var á reiðhjóli á göngustíg til suðurs samhliða Ásvöllum og beygði til hægri inn innkeyrslu að bifreiðastæði sunnan við Ásvallalaug. Á sama tíma var vörubifreið ekið suður Ásvelli, eftir að henni var bakkað nokkurn spöl áður, og beygt einnig til hægri inn á innkeyrsluna að bifreiðastæðinu og á Ibrahim sem lést samstundis.
Vörubifreiðin var nýskráð í mars 2018 og var með gilda aðalskoðun þegar slysið átti sér stað. Breiddin er 2,55 metrar og lengdin 6,46 metrar. Bifreiðin er tæplega 9 tonn.
Á vörubifreiðinni var festivagn og á honum tunna fyrir flutning á tilbúinni steinsteypu. Breidd festivagnsins var 2,55 metrar, hæð 4 metrar og lengd 7,95 metrar. Þyngd festivagnsins var 10,7 tonn.
Heildarlengd bifreiðar og festivagns var 12,5 metrar og áætluð heildarþyngd ökutækjanna var um 43 tonn. Bæði ökutækin voru metin í ökuhæfu ástandi.
Í skýrslunni segir að hvorki Ibrahim né ökumaður vörubifreiðarinnar hafi verið á mikilli ferð þegar slysið varð en vörubifreiðin var í krappri hægri beygju.
Fram kemur að upptaka af slysinu náðist á eftirlitsmyndavélar.
Hvað varðar útsýni úr vörubifreiðinni þá kemur fram að speglar hennar hafi veitt að mestu leyti gott útsýni en þó hafi efri baksýnisspegill á hægri hliðarhurð haft þrengra sjónsvið en sá neðri.
Slysið var sviðsett daginn eftir að það átti sér stað og þá var hliðsjón höfð af upptökunum úr öryggismyndavélunum. Við sviðsetninguna kom í ljós að ekkert benti til að bifreiðin hefði virkað óeðlilega.
Þegar kom að útsýninu gaf sviðsetningin til kynna að vegfarandi á göngustígnum hafi verið sýnilegur í hliðarspeglunum allt þar til hann var því sem næst samsíða hægra afturhorni á stýrishúsi bifreiðarinnar, ef hann var staðsettur á miðju göngustígsins.
Sviðsetningin gaf einnig til kynna að útsýn úr hliðar- og framrúðu hafi verið eðlileg og virst í samræmi við hönnun bifreiðarinnar. Með hliðsjón af upptökum af slysinu sé áætlað að sennilega hafi hjólandi vegfarandinn (Ibrahim) verið sýnilegur í hliðarspeglum í rúmar tuttugu sekúndur fyrir slysið en hafi horfið úr sjónsviði ökumanns og allra spegla tveimur til þremur sekúndum fyrir slysið.
Upptökur bentu einnig til að stefnuljós hafi verið notað.
Sá munur var þó á slysinu og sviðsetningunni að slysið varð rétt eftir klukkan 17 en sviðsetningin var unninn frá klukkan 13 til 15:30. Sólin var því hægra megin við bifreiðina þegar slysið varð, en þá voru bæði Ibrahim og ökumaðurinn að beygja til hægri. Lágskýjað var hins vegar þegar slysið átti sér stað og ökumaðurinn sagði að sólskin hafi ekki truflað hann við aksturinn.
Í skýrslunni kemur fram að erindi vörubifreiðarinnar var upphaflega að vinnusvæði við íþróttamiðstöð austan Ásvalla. Fyrir mistök hafi henni hins vegar verið ekið inn Ásvelli að vinnusvæðum við suðurenda götunnar en öll umferð vinnutækja til og frá þeim vinnusvæðum var um Ásvelli.
Í nágrenni slysstaðarins eru sparkvellir, íþróttamiðstöð og sundlaug. Í skýrslunni segir meðal annars um öryggisráðstafanir við slysstaðinn að öryggisáætlun hafi verið unnin af verktaka þegar framkvæmdir á svæðinu hófust. Afmarkanir gagnvart umferð óviðkomandi óvarinna vegfarenda við vinnusvæðin, eins og þær voru settar upp, hafi verið unnar í samráði við Hafnarfjarðarbæ. Þar komi meðal annars fram að girða eigi vinnusvæði af og setja hlið. Um var að ræða tvö vinnusvæði sem voru aðskilin og girt af að mestu leyti en ekki var afmarkað eða lokað fyrir akstursleið né hjóla- og gönguleið um Ásvelli milli vinnusvæða. Ekki voru sett upp hlið inn á eystra vinnusvæðið þar sem byggingarframkvæmdir voru hafnar.
Í skýrslunni er þess sérstaklega getið að þekkt sé að hægri beygja ökutækja, og þá sérstaklega stærri bifreiða, á gatnamótum geti verið sérstaklega hættuleg óvörðum vegfarendum. Gildi þá einu hvort um ljósastýrð gatnamót sé að ræða eða ekki. Allmargar rannsóknir séu til sem snúi að ástæðum fjölda slysa af völdum ökumanna bifreiða sem séu í hægri beygju á gatnamótum, og aki á hjólandi eða gangandi vegfaranda á göngu og eða hjólastíg samhliða akbraut.
Ítreka ber að umrætt slys varð einmitt með þessum hætti.
Nefndin vitnar einnig í rannsóknir sem sýna fram á skerta athygli ökumanna gagnvart óvörðum vegfarendum við beygjur á gatnamótum. Í einni slíkri rannsókn hafi komið í ljós að 25 prósent ökumanna geri sjónræn mistök þegar þeir skimi umhverfi sitt gagnvart óvörðum vegfarendum þegar þeir beygja ökutæki á gatnamótum.
Niðurstaða skýrslunnar er því sú að meginorskök slyssins sé að ökumaður vörubifreiðarinnar veitti Ibrahim ekki athygli.
Aðrar orsakir eru þær að aðkoma vinnutækja og umferð óvarinna vegfarenda við vinnusvæðin á Ásvöllum var ekki nægjanlega afmörkuð
Í upphaflegri öryggisáætlun fyrir vinnusvæðið, sem unnin var í samráði við Hafnarfjarðarbæ, hafi aðkoma vinnutækja og umferð óvarinna vegfarenda um syðri hluta Ásvalla hvorki verið afmörkuð né takmörkuð.
Fram kemur í skýrslunni að eftir slysið voru gerðar ýmsar umbætur í námunda við slysstaðinn til að afmarka umferð gangandi og hjólandi vegfarenda betur. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur að lokum til ýmsar úrbætur og beinir því til Hafnarfjarðarbæjar að í framtíðinni sé séð til þess að vernda umferð óvarinna vegfarenda gegn umferð ungra ökutækja á stöðum þar sem framkvæmdir eru nálægt akbrautum.
Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.