Undirskriftalista hefur verið hrundið af stað um að íslensk stjórnvöld komi á fót hjúkrunarrýmum á Torrevieja svæðinu á Spáni. Mikill fjöldi Íslendinga býr á svæðinu og mun ódýrara er að búa þar.
Um er að ræða Heilsuþorp sem hafi upp á að bjóða 80 öryggisíbúðir og byggingu með 100 herbergjum fyrir sjúkrarúm. Einnig aðstöðu til endurhæfingar.
„Vegna takmarkaðs framboðs á íslenskum hjúkrunarheimilum og mikils álags á íslenska heilbrigðiskerfið, skora ég á heilbrigðisráðherra, Ölmu D. Möller, að veita samþykki, annars vegar fyrir hjúkrunar-, öldrunar- og endurhæfingarþjónustu á Torrevieja-svæðinu á Spáni, og hins vegar fyrir rekstrarstuðningi frá íslenska ríkinu (Sjúkratryggingum) vegna þjónustunnar, til dæmis 40 hjúkrunarrýmum til 10 ára, sem rekin væru á íslenskri kennitölu og með íslensku fagfólki, áþekkt og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert fyrir sitt fólk,“ segir í tilkynningu með undirskriftasöfnuninni sem hafin er á síðunni Petitions.net.
Nefnt er að þúsundir Íslendinga dvelji langdvölum á Spáni, öryrkjar og aldraðir. Mikilvægt sé að þessi hópur fái góða heilbrigðisþjónustu. Það sé gott að eldast á Spáni.
Ýmsar ástæður eru nefndar fyrir því að íslensk stjórnvöld ættu að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Meðal annars að húsnæði sé ódýrara á Spáni en á Íslandi og rekstrarkostnaðurinn sé lægri. Lyfjakostnaður sé einnig mun lægri á Spáni.
„Fólk hefur lýst yfir að í veðurfarinu og útivistinni á Spáni hafi það fengið betri lífsgæði, losnað við inntöku á lyfjum og gigt og psoriasis batnað, svo eitthvað sé nefnt,“ segir í tilkynningunni. Sól og hiti geri fólki gott í endurhæfingu. „Margir eldri Íslendingar á Spáni tjá sig um að þar séu þeir virkari og hafi myndað gott félagslegt net, og þrátt fyrir versnandi heilsu og hreyfigetu með hækkandi aldri, vilja þeir dvelja áfram á Spáni, ef þeir hafa möguleika á þjónustu.“
Þá myndi uppbygging og rekstur íslenskrar heilbrigðis- og öldrunarstofnunar á Spáni minnka álag og eftirspurn eftir dvöl á hjúkrunarheimilum á Íslandi. Jafnframt sé það hagkvæmara á hvern einstakling en á Íslandi.
Upplýsingafundur hefur verið boðaður um verkefnið á Íslendingasetrinu í Calle Isla Formentera í Orihuela Costa fimmtudaginn 9. janúar klukkan 14:00.
Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 130 skrifað undir listann. Hægt er að skrifa undir hér.