MATVÍS, félag iðnaðarmanna í matvæla- og veitingagreinum, fagnar fullnaðarsigri fyrir Héraðsdómi Reykjaness gegn eigendum veitingastaðarins Flame sem félagið höfðaði fyrir hönd fyrrum starfsfólks staðarins. Greint er frá málinu á vef Matvís en dómur, sem er óbirtur á vef dómstólsins, féll þann 6. janúar síðastliðinn.
Forsaga málsins er sú að sumarið 2022 fékk MATVÍS upplýsingar um að starfsfólk veitingastaðarins Flame hefðu ekki fengið launagreiðslur sem þeir áttu rétt á samkvæmt kjarasamningum og lögum. Í kjölfar heimsóknar vinnueftirlits MATVÍS var upplýst um umfangsmikil brot eigenda veitingastaðarins gegn starfsfólki sem hafði ekki fengið launagreiðslur í samræmi við vinnu sem það innti af hendi.
Vangreidd laun þriggja starfsmanna námu háum fjárhæðum og að endingu greiddi Flame þremur starfsmönnnum alls 10,5 milljónir króna vegna launa og annarra réttinda sem fólkið hafði verið hlunnfarið um.
MATVÍS taldi þó að starfsmennirnir ættu hærri upphæðir inni og höfðaði því áðurnefnt dómsmál þar sem fullnaðarsigur vannst. Niðurstaðan er sú að forsvarsmenn Flame verða að greiða starfsfólkinu sem nemur 3,5 milljónum króna til viðbótar auk dráttarvaxta. Var málatilbúnaði lögmanna Flame, sem meðal annars sneri að því að starfsmönnunum hefði verið óheimilt að hætta störfum þrátt fyrir umfangsmikil brot veitingastaðarins, virtur að vettugi.
Í áðurnefndri umfjöllun á vef MATVÍS kemur fram að málið sýni fram á mikilvægi vinnustaðaeftirlits.
„Að baki þessari niðurstöðu liggur mikil vinna starfsfólks kjaradeildar Fagfélaganna og vinnustaðaeftirlits, sem nær yfir nærri því tveggja og hálfs árs tímabil. Á tímum þar sem verulega er vegið að réttindum hjá starfsfólki veitingastaða er mikilvægt að starfsfólk geti leitað til stéttarfélaga sem gætir réttinda þeirra. Þá er sérstaklega mikilvægt að starfsfólk geti treyst því að dómstólar standi vörð um grundvallarreglur á vinnumarkaði,“ segir í umfjölluninni.