Þetta segir Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, í samtali við Morgunblaðið í dag. Verði ekki fallist á kæruna eða úrlausn fáist með öðru móti segir Bjarni einsýnt að Búseti muni leita réttar síns fyrir dómstólum.
Mikið hefur verið rætt og ritað um „græna vegginn“ í Mjóddinni síðustu vikur en þar á meðal annars að koma kjötvinnsla fyrir Ferskar kjötvörur.
Í frétt Morgunblaðsins er vísað í bréf byggingarfulltrúa vegna stöðuúttektar 19. desember síðastliðinn þar sem fram kemur að engin sjáanleg frávik séu frá aðaluppdráttum og að byggingarstaður sé til fyrirmyndar varðandi hreinlæti. Með hliðsjón af þessu sé ekki tilefni til að stöðva framkvæmdirnar.
Bjarni segir við Morgunblaðið að Búseti muni nýta þau úrræði sem lögmenn félagsins telja við hæfi að virkja í þeim aðstæðum sem upp eru komnar.
„Bæði kjörnir fulltrúar og embættismenn á vegum Reykjavíkurborgar hafa notað orð eins og mistök og klúður í samhengi við stálgrindarskemmuna og að leita þurfi leiða til að leiðrétta þau mistök. Þeir hafa þannig sýnt fram á vilja til að horfast í augu við mistökin og því er svar byggingarfulltrúans á skjön við yfirlýsingar kjörinna fulltrúa borgarinnar,“ segir hann meðal annars og bætir við að mat lögmanna Búseta sé sú að veiting byggingarleyfis á lóðinni hafi verið haldin alvarlegum annmörkum.
„Þeir eru svo alvarlegir að ef rétt hefði verið staðið að málum hefði aldrei átt að veita leyfi fyrir byggingu af þeirri stærð og umfangi eins og raunin varð við Álfabakka 2,“ segir hann við Morgunblaðið þar sem ítarlega er fjallað um málið.