Þetta er mat leyniþjónustu úkraínska hersins, SRZU, að sögn Kyiv Independent sem segir að fangarnir hafi verið notaðir sem fallbyssufóður á vígvellinum í því skyni að gera rússneska hernum kleift að hertaka meira land. Þetta tókst í þeim skilningi að hægt og rólega hefur Rússum tekist að mjakast lengra inn í Úkraínu, meira að segja eftir dauða Prigozhin en hann lést í dularfullu flugslysi þar sem ætla má að Pútín hafi haft hönd í bagga.
En fórnarkostnaðurinn hefur verið gríðarlega mikill. Bandaríkjaher áætlar að um 600.000 rússneskir hermenn og málaliðar hafi fallið eða særst síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar 2022.
Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) telur að 420.000 rússneskir hermenn hafi fallið eða særst alvarlega á síðasta ári einu.
Á sama tíma tókst Rússum að leggja 4.168 ferkílómetra af úkraínsku landi undir sig. Það þýðir að sögn ISW að 102 rússneskir hermenn hafi fallið eða særst fyrir hvern unninn ferkílómetra.
Til samanburðar má nefna að samanlagt flatarmál sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er 1.007 ferkílómetrar eftir því sem segir á Vísindavefnum.
SZRU segir að föngum í rússneskum fangelsum hafi fækkað um helming miðað við það sem var 2014 og séu nú á bilinu 300.000 til 350.000.
Áður var föngunum heitið greiðslu fyrir að fallast á að fara í stríð en SZRU segir að það sé liðin tíð og sé ástæðan líklega slæmt efnahagsástand í Rússlandi.