Eins og kunnugt er óskaði forsætisráðuneytið á dögunum eftir tillögum frá almenningi að hagræðingu í ríkisrekstri. Hægt er að skila inn tillögum í samráðsgátt stjórnvalda til 23. janúar næstkomandi.
Vilhjálmur velti því upp í færslu sinni hvort það væri skynsamlegt fyrir skattgreiðendur að reka RÚV og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Tók hann fram að það væri vissulega umdeilt að ætla sér að selja RÚV og taka Sinfóníuhljómsveitina af fjárlögum, en þegar ríkissjóður er rekinn með halla ár eftir ár og brýn og aðkallandi velferðarmál sitja á hakanum sé þetta eitthvað sem sannarlega megi skoða.
Telur Vilhjálmur að með þessu væri hægt að ná milljörðum inn í ríkiskassann. Óhætt er að segja að margir hafi lagt orð í belg við færslu Vilhjálms og á meðan sumir tóku undir tillögur hans voru aðrir ekki jafn jákvæðir.
„Svona tillögur koma náttúrulega frá algjörlega menningarsnauðum hellisbúum og engum öðrum. Ríkissjóður er rekinn með halla vegna þessa að nýfrjálshyggjan vill ekki skattleggja kapítalistana, ekki vegna öryrkja og veiks fólks,“ sagði til dæmis Þór Saari, fyrrverandi þingmaður.
Í svari sínu skaut Vilhjálmur á Þór fyrir að vera „alltaf jafn málefnalegur“ en tók fram að það væri grundvallaratriði að fara vel með skattfé almennings og ráðstafa því af skynsemi. Hann vilji til dæmis frekar sjá fjölgun hjúkrunarrýma.
„Menning er menning og gerir okkur mennsk. Það er hins vegar fullt af fólki sem skilur það ekki, þar á meðal þú og sorglegt að framámaður í stéttarfélagi skuli vera svona rosalega þröngsýnn. Það er ekki til hagsbóta fyrri þína félagsmenn. Trúirðu því virkilega að staða öryrkja sé slæm vegna Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ef svo er þá er eitthvað mikið að,“ sagði Þór á móti.
Ólafur Páll Gunnarsson, útvarpsmaðurinn geðþekki, starfsmaður RÚV og sveitungur Vilhjálms af Skaganum, var ekki ánægður með tillögurnar.
„Stundum ertu algjör labbakútur Villi – til dæmis núna. Þegar Verkalýðsfélag Akraness varð 100 ára á síðasta ári bauðstu (félagið) félagsmönnum á tónleika í Bíóhöllinni á Akranesi með Helga Bjöss. Hvers vegna sendirðu félagsmönnum ekki bara kartöflupoka og smjörstykki?“
Vilhjálmur spurði á móti hvort allir væru orðnir labbakútar sem leggja til að selja RÚV og spara fimm til sex milljarða á ári af skattfé almennings. „Veistu Óli minn það er orðið löngu ljóst að við verðum seint sammála í hinum ýmsu málum enda ertu ekki bara á móti tillögum að hagræðingu fyrir skattgreiðendur heldur ertu líka á móti verðmætasköpun í þínu eigin bæjarfélagi eins og veiðum og vinnslu hvalaafurða. Nei veistu Óli minn þú ert nú hálfgerður ríkis-labbakútur.”
Jón Viðar Jónsson, einn þekktasti leikhússgagnrýnandi þjóðarinnar, lét Vilhjálm einnig heyra það.
„Af hverju ekki Þjóðleikhúsið líka og Háskólann? Og svo þurfum við auðvitað meiri samkeppni um sjúklingana þannig að þar má margt bæta. Skólakerfið þarf miklu fleiri einkaskóla enda hefur verkalýðsstéttin það svo gott að hún er ekkert of góð til að borga há skólagjöld fyrir miklu betri menntun en ríkið býður upp á. Byrjun á leikskólunum gæti lofað góðu. — Sorglegt að framámaður i verkalýðshreyfingunni skuli birta önnur eins skrif.“
Umræðurnar má sjá í heild sinni hér að neðan.