Eins og greint var frá í liðinni viku hefur ríkisstjórnin óskað eftir tillögum frá almenningi um hagræðingu og sparnað í rekstri ríksins. Í lok vikunnar voru tillögurnar komnar yfir 1.000 og nú eru þær orðnar um á þriðja þúsund. Sumar þeirra tillagna sem hafa bæst við í samráðsgátt stjórnvalda eru í róttækari kantinum en þar á meðal er að leggja íslenskuna af og sömuleiðis alla mannabyggð á Seyðisfirði.
Sá aðili sem vill leggja íslenskuna niður segist telja að spara megi mikið í ríkisrekstri sérstaklega til lengri tíma ef íslenskan verði aflögð og tekin upp enska í hennar stað.
„Núna tel ég vera rétta tímann til þessara aðgerða þar sem nánast allir sem ekki eru orðnir aldraðir tala ensku jafnvel betur en íslensku og erlendir innflytjendur læra hvort eð er ekki íslensku. Þar af leiðandi væri hægt að afnema alla íslenskukennslu í skólum og spara þannig hundruði miljóna á ári. Einnig myndu öll túlkaþjónusta verða verulega ódýrari og þýðingar á enskum skjölum myndu leggjast af og þannig sparast mikill aur.“
Raunar segist höfundur tillögunnar sjálfur ekki tala ensku en það sé allt í lagi þar sem hann sé af deyjandi tegund Íslendinga:
„Við þessi fáu sem ekki tölum ensku erum flest orðin vel fullorðin og byrjuð að rugga á grafarbakkanum þannig að íslenskan myndi hverfa tiltölulega fljótt eftir kannski 20 ár eða svo. Síðan gætu þeir sérvitringar sem vildu halda íslenskunni á lofti bara lært hana sem aukagrein í háskóla til dæmis.“
Annar aðili telur ljóst að það borgi sig ekki að hafa mannabyggð á Seyðisfirði með því að greiða kostnaðinn fyrir nauðsynlegar samgöngubætur:
„Leggja niður byggð á Seyðisfirði. Fjarðarheiðargöng myndu kosta upp undir 50 milljarða. Það myndi vera helmingi ódýrara að kaupa upp húsnæði á Seyðisfirði og borga íbúunum til að fara.“
Meðal annarra tillagna í róttækari kantinum er að einn aðili vill hverfa aftur til þeirra tíma þegar vöruflutningar á milli landshluta fóru einkum fram með skipum:
„Vegagerðin eyðir 5 milljörðum árlega í viðhald bundins slitlags. Ríkið greiddi á sínum tíma 1,5 milljarða að núvirði með Ríkisskip. Flutningafyrirtækin hafa fært flutninga á vegina og stórhækkað verð fyrir flutninga og greiða ekki gjöld í samræmi við notkun á vegunum. Skip eins og ríkið var með eru frábær flutningatæki hönnuð fyrir gáma og vörubretta flutninga.“
Annar aðili vill banna ráðuneytum að eyða skattfé í að skipta um húsgögn.
Björn Leví Gunnarsson fyrrum þingmaður Pírata leggur til að lög um sóknargjöld verði lögð niður og tekjuskattur verði lækkaður til samræmis við það.
Einn aðili segir enga þörf á sparnaði hjá ríkinu ef gamalt verkefni yrði endurvakið:
„Allt sem komið er hér inn þyrfti aldrei að fara í ef menn myndu hætta þessum barnaskap og ofstæki og fara í gas- og olíuleit á Drekasvæðinu.“
Einn aðili leggur til að böndum verði komið á verðbólgu með því að ríkið setji tímabundið fast verð á nauðsynjavörum og nefnir sem dæmi brauð, mjólk, sykur og hveiti.
Síðasta dæmið sem verður tekið hér er tillaga manns sem telur nauðsynlegt að spara með auknum jöfnuði:
„Það þarf hámarkslaun. Samfélagið allt þarf að samþykkja launabil á milli hæst launuðustu og lægst launuðustu. Annars mun þjóðfélagið smátt og smátt liðast í sundur.“