Í grein sinni skrifar Guðni um nýju ríkisstjórnina sem hann vissulega óskar velfarnaðar en furðar sig þó á niðurstöðum kosninganna.
„Kosningaúrslitin báru þess merki að fólkið kaus eins og það byggi í versta efnahagslega ríki veraldar, byltingarkennd úrslit og nýr veruleiki fram undan,“ segir hann og bætir við að Ísland sé talið eitt af sjö fremstu velmegunarríkjum veraldar í dag.
„Engin þjóð í Evrópu hefur stýrt sínum málum af jafn miklum þrótti til framfara eins og Ísland. Ísland er talið eitt af sjö fremstu velmegunarríkjum veraldar í dag þegar kosningar reiðinnar hafa uppskorið byltingu og ríkisstjórn sem segir að hún viti hvert hún sé að fara hefur tekið völdin.“
Hann gerir svo áramótagrein Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar og utanríkisráðherra, í Morgunblaðinu á gamlársdag að umtalsefni.
„Hvaða foringi skyldi svo eiga fyrirsögnina að áramótagreininni þar sem segir: „Frelsið er ekki sjálfgefið.“ Auðvitað er það Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar. Allir máttu vita að hún átti sér leyndarmál sem lítið fór fyrir í kosningabaráttunni. Að fórna frelsinu. Aðild að ESB var æðsti draumurinn,“ segir Guðni og bætir við að Þorgerður hafi vafið þeim Kristrúnu Frostadóttur og Ingu Sæland um fingur sér.
„Hirti öll helstu valdaráðuneytin: utanríkisráðuneytið, fjármálaráðuneytið, atvinnuvegaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Eitt ráðuneyti fékk hún til viðbótar sem hún skellti á atvinnuvegaráðherrann sinn; er það viðskiptaráðuneytið með Samkeppniseftirlitinu. Nú gnæfa bergrisarnir yfir landbúnaðarráðherra og eru komnir í lykilstöðu þeir Ólafur Stephensen og Páll Gunnar Pálsson. Viðreisn vann þennan slag og fær öll helstu ráðuneyti ríkisstjórnarinnar; þó að flokkur hennar sé fjórum þingmönnum fámennari en Samfylkingarinnar skilur hún þær Kristrúnu og Ingu Sæland eftir eins og hornkerlingar. Meðan Þorgerður Katrín stjórnar landinu stjórnar Kristrún ríkisstjórnarfundum og flytur ávörpin. Þorgerði Katrínu munaði ekkert um að troða ESB-aðild niður um kokið á Ingu Sæland og Kristrún fúlsaði ekki við grautnum.“
Hann spyr svo hvar Samfylkingarmaðurinn Össur Skarphéðinsson strandaði í aðlögunarviðræðunum við ESB árið 2013.
„Það gerðist þegar kom að því að afsala sér frelsinu yfir auðlindum lands og sjávar. Að vísu gerði Össur góðan tvíhliða viðskiptasamning milli Íslands og Kína sem var stílbrot ef ekki rothögg á allt sem ESB stendur fyrir, hann tók Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra með sér til Kína og snýtti þar með ESB með rauðu. Össur og Ísland eru ekki hátt skrifuð í Brussel eftir þetta framferði. Hvers vegna gafst hann upp á ferlinu að laga Ísland að ESB? Svari nú hver fyrir sig. Mat hann það sem svo að síðasti veggurinn væri ókleifur?“
Guðni segir að aldrei hafi veröldin staðið jafn fallvölt eftir heimsstyrjöldina síðari og nú.
„Er verið að hervæða Ísland á ný? Aldrei hefur Evrópusambandið staðið á veikari grunni en nú. Evran er í miklu uppnámi. Aldrei hefur NATO verið jafn veikt og nú. Voldugu ríkin Bretland, Þýskaland og Frakkland eru í pólitískri upplausn eins og Ísland. Nú ríður Þorgerður hrossi sínu til Evrópu og þær stöllur þrímenna nema að Inga Sæland snýr öfugt í hnakknum eins og Steingrímur J. Sigfússon í síðustu för til Brussel.“
Guðni segir að við inngöngu í ESB sé þjóðin klofin í herðar niður og kveðst óttast að Valkyrjureiðin endi úti í mýri.
„Blessuð Kristrún hefur látið Þorgerði Katrínu salta grautinn, sem er beiskur á bragðið. Svo telur Kristrún sér trú um að hún geti „einbeitt sér að því að standa undir væntingum“. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir allsherjarráðherra hefur bæði töglin og hagldirnar og fer sínu fram hvað sem hinar valkyrjur raula og tauta.“