Karlmaður fékk 18 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að ráðast á annan mann sem sat í bíl, toga í hönd og bíllykil svo að langatöngin brotnaði í lyklakippunni.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness þann 19. desember en var birtur í dag. Maðurinn var ákærður fyrir líkamsárás, eignaspjöll því bíllykillinn skemmdist sem og brot á lögreglulögum þar sem hann fylgdi ekki fyrirmælum lögreglu og streitast á móti handtöku.
Atvikið átti sér stað í hádeginu þann 27. apríl árið 2023 á nýbygginarsvæði. Lögreglu barst tilkynning klukkan 12:40 um yfirstaðna líkamsárás, að brotaþoli væri puttabrotinn og að gerandinn væri flúinn af vettvangi í svörtum bíl. Bæði gerandi og brotaþoli eru Íslendingar.
Þegar lögreglan kom á staðinn var brotaþoli þar á samt tveimur öðrum og var hann með blóðugan vafning utan um hendina. Einn hinna þriggja var gerandinn en hinn þriðji var að taka upp myndskeið á farsímann sinn.
Lögreglan sagði gerandanum að fara í lögreglubíl til að svara spurningum um atvikið en hann neitaði því. Sagðist ekki þurfa að ræða við lögregluna. „Ég er ekkert að fara að tala við ykkur, talið við lögfræðinginn,“ sagði hann .Þess í stað settist hann í svarta bílinn og gerði sig líklegan til að keyra í burtu.
Lögreglumenn fóru þá að svarta bílnum og skipuðu honum að stíga út en allt kom fyrir ekki. Á endanum þurftu þeir að taka hann tökum, færa hann út úr bílnum með valdi, handjárna og handtaka.
Putti brotaþola var aflagaður og seinna var það staðfest að hann væri brotinn. Varanleg örorka reyndist 10 prósent. Þegar hann var spurður um hvað málið snerist þá kom í ljós að gerandinn hafði leigt vinnuvélar af brotaþolanum og bróður hans en ekki staðið við greiðslur. Þess vegna hafi brotaþolinn komið til að sækja vélarnar.
Satt hann í vinnubíl sínum með opinn ökumannsglugga þegar gerandinn kom að, setti hönd inn í bílinn og reyndi að fjarlægja lykilinn. Brotaþoli hafi haldið í lykilinn og flækt löngutöng í kippunni þegar gerandinn rykkti í með áðurnefndum afleiðingum.
Fyrir dómi sagðist gerandinn hafa staðið uppi á brettinu á bílnum og verið að tala við brotaþola þegar hann hafi allt í einu keyrt af stað. Bíllinn væri stór með hátt fall niður á malbik. Það hefðu verið ósjálfráð viðbrögð hjá honum að reyna að stöðva bílinn. Sagðist hann ekki hafa snert brotaþola heldur aðeins lykilinn. Brotaþoli hefði klemmt sig eitthvað í þessum „flumbrugangi.“
Sagði hann að lögregla hefði komið „með æsingi“ og handtekið hann. Hann hafi verið ósáttur við það þar sem hann hefði ekki gert annað en að tala við brotaþola.
Eins og áður segir var gerandinn dæmdur í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi, til þriggja ára. Var honum einnig gert að greiða brotaþola tæpar 2,3 milljónir króna með vöxtum sem og rúma 1,4 milljón í lögfræðikostnað.